Menu
RSS

Lög um frestun á nauðungarsölum

Stjórn HH vill vekja athygli á lögum sem samþykkt voru á Alþingi nú rétt fyrir jól um frestun á nauðungarsölum, eftir mikla eftirfylgni og aðhaldi af hálfu HH og með hjálp nokkurra góðra aðila. Þeir sem standa frammi fyrir nauðungarsölu á heimili sínu geta nú sótt um frestun uppboðsins fram yfir 1. september 2014 á sérstöku eyðublaði með ákveðnum skilyrðum sem þar koma fram. Einnig geta þeir sem nýlega hafa misst heimili sín á nauðungarsölum, í þeim tilfellum þar sem samþykkisfrestur er ekki útrunninn, sótt um frest fram yfir 1. september á sama eyðublaði. Hafa ber í huga að samþykkisfrestur er yfirleitt aðeins þrjár vikur og að umsókn þeirra sem þegar hafa misst eignir sínar er háð samþykki kröfuhafa. Þeir aðilar sem eru í þessari stöðu þurfa því að hafa hraðar hendur! Ofangreindur frestur til 1. september 2014 getur nýst heimilum til nýta sér þau úrræði sem boðuð hafa verið eða grípa til varna. Eru félagsmenn HH sem og aðrir hvattir til að kynna sér vel réttindi sín í þessum efnum á meðan fresturinn er í gildi.

Read more...

Frestun á nauðungarsölum fagnað

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) fagnar því að innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, skuli loks hafa brugðist við ítrekuðum áskorunum samtakanna um að stöðva nauðungarsölur á heimilum neytenda.

Fulltrúar samtakanna áttu fund með innanríkisráðherra þann 9. október þar sem þessi krafa var sett fram, annars vegar vegna þess að samtökin telja nauðungaruppboð vera óréttmæt nema að undangengnum dómsúrskurði og hins vegar vegna þess að ótækt væri að bjóða upp húsnæði fólks á meðan beðið væri boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar. Svör ráðherrans við kröfum samtakanna voru á þá leið að stöðvun nauðungaruppboða gengi gegn stjórnarskárvörum réttindum kröfuhafa. Þegar ráðherrann var spurð nánar út í þetta í fjölmiðlaumræðum um nauðungaruppboð í kjölfar fundarins svaraði ráðherra því til að þetta væri samkvæmt áliti “helstu sérfræðinga á þessu sviði”.

Hagsmunasamtök heimilanna voru síður en svo sátt við þessi svör og skoruðu þann 16. október á ráðherra að skýra nánar í hverju þetta “álit helstu sérfræðinga á þessu sviði” um ófrávíkjanlegan rétt kröfuhafa felist. Þegar engin svör bárust frá ráðuneytinu ítrekuðu samtökin áskorun sína þann 18. október. Þeirri ítrekun hefur ekki verið svarað.

Nú virðast helstu sérfræðingar Innanríkisráðherra um nauðungaruppboð hafa komist að því að Hagsmunasamtök heimilanna hafi haft rétt fyrir sér, að vel sé hægt að stöðva nauðungaruppboð ef pólitískur vilji standi til þess. Hljóti frumvarpið samþykki þingsins verður því fjölskyldum gert kleift að fresta nauðungarsölum sem krafist er á heimilum þeirra fram yfir 1. júlí 2014, og skapa sér svigrúm til að bjarga heimili sínu frá því að verða tekið af þeim með svo harkalegum aðgerðum.

Hugur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna er þó þessa stundina með þeim sem standa frammi fyrir því núna rétt fyrir jólin, þangað til og ef þetta verður samþykkt á Alþingi, að heimili þeirra kunni að verða selt ofan af þeim. Einnig er hugur okkar hjá þeim sem þegar hafa misst heimili sín á nauðungarsölum sem haldnar hafa verið á ólöglegum grundvelli. Athygli er vakin á því að gildandi lög virðast ekki leyfa endurupptökur á nauðungarsölum, jafnvel þegar sýnt hefur verið fram á að þær hafi verið fengnar fram ólöglega í mörgum tilvikum, en úr því þarf jafnframt að bæta.

Einnig fagna Hagsmunasamtök heimilanna að á sama tíma hafi Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir fjárhagsaðstoð, fjármagnaða með gjaldi á fjármálafyrirtækin, vegna tryggingar fyrir skiptakostnaði þeirra sem vilja fara fram á gjaldþrot. Því fólki hefur hingað til verið haldið í árangurslausu fjárnámi þar sem fjármálastofnanir hafa ógjarnan viljað fara fram á gjaldþrot skuldara, eftir að fyrningartími krafna við gjaldþrotaskipti var styttur í tvö ár. Með því að auðvelda skuldurum að leita gjaldþrots má segja að loksins hafi fjármálafyrirtæki fengið hvata til að semja frekar við fólk heldur en að geta haft það undir hælnum endalaust.

Þess má geta að bæði framangreind atriði eru meðal þeirra sem Hagsmunasamtök heimilanna lögðu hvað mesta áherslu á í umsögn sinni um þingsályktunartillögu forsætisráðherra sem liggur til grundvallar aðgerðum stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna.

Málið á sér þá forsögu að á borgarafundi sem samtökin héldu í mars síðastliðnum var samþykkt áskorun til sýslumanna um að stöðva nauðungarsölur á grundvelli ólöglegra lána og á aðalfundi samtakanna í maí var samþykkt áskorun sem fylgt var eftir með opnu bréfi til sveitarfélaga og samtaka þeirra, um að stemma stigu við nauðungarsölum vegna yfirvofandi og fyrirsjáanlegs húsnæðisvanda íbúa.

Til stuðnings þessum áskorunum sínum létu samtökin gera löggilda íslenska þýðingu dóms Evrópudómstólsins um óréttmæta nauðungarsölu á grundvelli neytendasamnings. Nú síðast gerðu samtökin ítarlegarlega greinargerð þar sem óréttmæti nauðungarsalna án undangengins dóms er rakið með hliðsjón af íslenskum lögum og rétti. Neytendur sem standa frammi fyrir slíku geta nú nýtt það svigrúm sem þeim gefst næstu sex mánuði til að kynna sér þessi gögn, en reyna jafnframt sitt besta til þess að koma fjárhag heimilisins samtímis í farsælan farveg.

Greinargerð HH um óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Dómur Evrópudómstólsins í máli C-415/11 um óréttmæta nauðungarsölu

Read more...

Óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa að undanförnu vakið athygli á miklum fjölda auglýstra nauðungarsala á heimilum fólks. Á fundi sem fulltrúar samtakanna áttu í byrjun október með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, var þess krafist að nauðungarsölur vegna neytendalána verði stöðvaðar tímabundið, m.a. á þeirrri forsendu að ríkisstjórnin hefur sjálf sett fram tímasettar áætlanir til hjálpar skuldugum heimilum.


Svör ráðherra voru á þann veg að lögfræðingar og ráðgjafar ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar telji slíkt ekki mögulegt vegna ófrávíkjanlegs eignarréttar kröfuhafa samkvæmt stjórnarskrá. Samtökin skoruðu í kjölfarið á ráðherra að gefa nánari skýringar á þessum orðum sínum. Einnig var farið fram á lögfræðilegar skýringar á þeim fullyrðingum innanríkisráðherra að stöðvun nauðungarsala gangi gegn réttindum þeirra sem þegar hafa misst heimili sín á nauðungarsölu, sem hlýtur að teljast afar sérstök fullyrðing hjá ráðherranum.


Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur engu svarað kröfum samtakanna um skýringar, þrátt fyrir að þær hafi verið margítekaðar. Það ætti að vera leikur einn fyrir sérfræðinga ráðuneytisins eða ráðgjafa ríkisstjórnarinnar að veita umbeðin svör, enda hefur ráðherrann haldið því fram í  fjölmiðlum að  “það sé skoðun margra lögfróðra aðila að ekki sé mögulegt að stöðva nauðungarsölur nema fara gegn stjórnarskrá og það sé álit sem allir þekkja og vita sem fjallað hafa um þessi mál”. En hvar er þetta álit sem allir þekkja og allir vita af? Svörin sem borist hafa frá ráðuneytinu hafa verið að benda á útvarpsviðtal við ráðherrann 21. október þar sem hún sneiddi fimlega hjá spurningum þáttastjórnenda Ísland í Bítið um margumbeðnar lögfræðiskýringar.


Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú gefist upp á biðinni og sjálf unnið 14 blaðsíðna greinargerð um fullnustur neytendalána án undangengins dómsúrskurðar þar sem farið er yfir þær lagagreinar og evróputilskipanir sem máli skipta í þessu samhengi. Helsta niðurstaða greinargerðarinnar er sú að skilmálar í samningum við neytendur sem kveða á um rétt lánveitenda til að krefjast fullnustu kröfu án undangengis dóms eða sáttar, séu óréttmætir og þar með óskuldbindandi fyrir neytendur. Byggist sú niðurstaða einkum á því að með beitingu slíkra skilmála séu neytendur í raun sviptir þeim rétti sem þeir að óbreyttu myndu njóta til úrlausnar fyrir þar til bærum dómstól innan ramma fullnustumeðferðarinnar, þar á meðal um hvort stöðva skuli frekari athafnir við fullnustuna þar til fengist hafi dómsúrlausn um ágreining er varðar samningsskilmála, meðal annars þá sem sjálf fullnustan byggist á.


Það hlýtur að teljast sérstakt að sjálfboðaliðasamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna geti lagt fram ítarlegar lögskýringar með greinargerð um óréttmæti nauðungarsala án undangengins dómsúrskurðar á meðan Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, með alla starfsmenn    innanríkisráðuneytisins á bak við sig, visar í viðtal við sig sjálfa sem lögskýringu. Svo virðist sem ráðuneytið og innanríkisráðherra eigi engar lögskýringar í fórum sínum sem standast nánari skoðun. Það er von stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna að meðfylgjandi greinargerð geti nýst þeim neytendum sem vilja grípa til varna og verjast því að heimili þeirra verði seld nauðungarsölu án dóms og laga.

Hér má nálgast sjálfa greinargerðina:

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna