Menu
RSS

Ræða ÞÞ í Iðnó 18. febrúar 2010

Félagar.
Fyrir rúmu ári, þegar Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð, voru nokkrar vangaveltur um hvort vandinn vegna húsnæðislánanna yrði leystur fljótt og vel og hægt yrði að leggja samtökin niður að svo búnu eða hvort þetta yrðu varanleg samtök um hagsmunamál sem kannski verða aldrei fullleyst.

Síðan hefur talsvert vatn runnið til sjávar og flest bendir til að síðari tilgátan sé nær lagi. Kröfur samtakanna hafa frá upphafi verið skýrar og raunsæjar. Annars vegar snúast þær um almenna leiðréttingu á lánum heimilanna vegna forsendubrests og kreppu. Hins vegar um bætta réttarstöðu lántakenda sem í þessu samfélagi hafa hingað til þurft að lúta afarkostum. Þetta er því furðulegra vegna þeirra aðstæðna að Íslendingar hafa hingað til verið nánast neyddir til að taka lán þar sem ekki hafa verið aðrir kostir í boði í húsnæðismálum en að kaupa eigið húsnæði.

Kröfur samtakanna hafa fengið mikinn meðbyr en einnig nokkurn andbyr. Stundum er látið í veðri vaka að samtökin séu málsvari þeirra sem tefldu djarft í offjárfestingum og lántöku á svokölluðum góðæristíma en vilja svo sleppa billega eftir að allt fór á verri veg. Veruleikinn er hið gagnstæða. Samtökin eru málsvari almennings sem hefur verið féflettur af bönkunum með velþóknun ríkisvaldsins. Við vöruðum við samfélagslegum afleiðingum þess ef ekkert yrði að gert. Þetta er ekki samansafn af vandamálum hvers og eins heldur er þetta samfélagsvandi sem verður að leysa úr sameiginlega á félagslegum forsendum. Þetta er ekki fyrst og fremst lögfræðilegt úrlausnarefni heldur félagslegt og pólitískt úrlausnarefni sem leysa þarf á þeim forsendum. Í stuttu máli snýst þetta um hvernig þjóðfélagi við viljum búa í. Viljum við búa í samfélagi sem stendur undir nafni og hefur réttlæti og sanngirni að leiðarljósi eða í frumskógi eða jafnvel eyðimörk þar sem hýenur ráða ríkjum.

Í meira en ár hefur margt í þessu þjóðfélagi verið í biðstöðu vegna þess að ekkert raunhæft hefur verið gert til úrlausnar skuldavanda heimilanna. Margir hafa flúið land eða bíða átekta. Í könnun sem gerð var fyrir Hagsmunasamtök heimilanna síðast liðið haust kom fram að um 9% landsmanna töldu sig líkleg til að yfirgefa landið. Það væri gríðarleg blóðtaka fyrir svona lítið samfélag en nú liggur í loftinu að jafnvel enn fleiri bíði þess að skólum ljúki í vor og fari þá. Og nokkur þúsund eru þegar farin. Vaxandi fjöldi á í vanda með að draga fram lífið frá degi til dags og á jafnvel varla til hnífs og skeiðar. Fyrir lok þessa árs er útlit fyrir að nærri hálf þjóðin verði komin í alvarlegan vanda, hafi tæmt alla varasjóði og geti ekki staðið í skilum með sín hækkandi lán. Þá er stutt í að missa yfirráð yfir fjárreiðum sínum sem er annað orð yfir þrælahald. Almenningur á Íslandi hefur sýnt mikið langlundargeð en nú er hætt við að vaxandi vonleysi sé á næsta leiti. Það birtist jafnvel í því að margir, alltof margir gefast upp fyrir ofureflinu og taka líf sitt.

Það er þungur skattur sem ríkisstjórnin leggur á þjóðina með því að selja bönkunum sjálfdæmi og nánast veiðileyfi á almenning. Því var lengi haldið fram að almenn leiðrétting væri ómöguleg því að hún kostaði svo mikið. En bankarnir fengu 600 milljarða í afskriftir á lánasöfnum heimilanna. Þeir eiga að ganga til heimilanna í formi leiðréttinga á lánunum. Það myndi nægja til að flestir kæmust á sléttan sjó og myndi skila sér margfalt út í samfélagið. En það vilja bankarnir ekki. Þeir kjósa heldur að knýja sem flesta í þrot og setja hundruð eða þúsundir milljarða í að afskrifa skuldir hjá vildarvinum sem fóru offari í skuldsetningu á góðæristímanum og eru í raun gjaldþrota. Auðmennirnir sem léku stór hlutverk í efnahgshruninu fá ómældar upphæðir til að afskrifa skuldir sínar og þannig var t.d. Samskipum stolið í annað sinn núna nýlega. Þjóðinni er algerlega misboðið.

Forsætisráðherra getur ekki hlaupið frá ábyrgð sinni með því að þykjast hneyksluð á framferði bankanna. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum voru þessir sömu bankar í eign og á ábyrgð ríkisins. Þá hafði ríkisstjórnin alla möguleika á að koma fram leiðréttingum en henni lá þessi ósköp á að afsala þeim til nýrra eigenda sem enginn veit einu sinni hverjir eru. Forsætisráðherra segist vera á móti því að handstýra bönkunum. Hvernig heldur hún að þeim sé stýrt? Er lýðræðislegra að þeim sé handstýrt af þeim sem enginn hefur kosið til þess og sem hafa engin önnur markmið en að græða á neyð fólksins?

En þó að bankarnir séu komnir í eigu erlendra vogunarsjóða getur ríkisstjórnin samt ekki hlaupið frá ábyrgð sinni. Í lýðræðisþjóðfélagi verða bankar að hlíta ákvörðunum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda. Og þau eiga að lúta vilja og hagsmunum þessa sama lýðs. Stór hluti þjóðarinnar hefur lifað í angist og örvæntingu á annað ár. Þetta getur ekki gengið svona mikið lengur. Stjórnvöld verða að ganga til samninga við okkur um raunhæfar aðgerðir. Við neitum að viðurkenna alræði bankanna. Við neitum að láta taka af okkur aleiguna og þræla fyrir skuldum það sem eftir er ævinnar.

Þess vegna ætlum við að standa saman og leggja talsvert undir. Ég hvet alla til að skrá sig til þátttöku í greiðsluverkfallinu á heimilin.is. Þar er líka hægt að lesa sig til um hvernig er hægt að taka þátt. Við gerum ekki ráð fyrir að þeir sem skulda lítið í sínum húseignum hætti að borga af lánunum og bki sér kannski mikið tjón fyrir vikið. En það er hægt að taka þátt með því t.d. að greiða af lánunum samkvæmt upphaflegri greiðsluáætlun og sniðganga þjónustu bankanna á ýmsan hátt. Við ætlum að koma í veg fyrir að samfélagið leysist upp í fámennan hóp auðmanna andspænis blásnauðum meirihluta þjóðarinnar. Héðan verður ekki aftur snúið nema með sigri. Það er mikið í húfi. Framtíð samfélagsins hér á Íslandi er í húfi.

Þorvaldur Þorvaldsson

 

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna