Logo
Print this page

Yfir 75000 í greiðsluverkfall Featured

 

 

Fjölmiðlar hafa verið eins og gengur, ófeimnir við að spyrja okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna hversu margir munu taka þátt í komandi greiðsluverkfalli. Hingað til hafa svör okkar verið varfærin. Við vissum um stuðninginn innan samtakanna þar sem það voru í raun félagsmenn sem gáfu grænt ljós á greiðsluverkfallið í beinni kosningu um málið. Sú kosning fór fram í júní sl. með rafrænum hætti (77% þátttakenda sögðu já, 8% Nei og 14% sögðust hlutlausir). Hlutfall þeirra sem voru hinsvegar tilbúnir að taka sjálfir beinan þátt í aðgerðum var 36%. Margir gáfu því greiðsluverkfallinu atkvæði sitt þótt þeir væru ekki tilbúnir að vera beinir þátttakendur þ.e.a.s. þeir vildu ekki standa í vegi fyrir þeim sem voru tilbúnir að hefja aðgerðir. Við gerðum okkur grein fyrir að ef þátttökuhlutfallið endurspeglaðist hjá fólki utan samtakanna væri um að ræða óbærilegan þrýsting á stjórnvöld og handhafa fjármálavalds í landinu.

Stjórn HH átti þó erfitt með að meta væntanlega þátttöku út frá félagsmönnum því færa mátti rök fyrir því að félagsmenn væru viljugri til þátttöku en aðrir. Þetta má til sanns vegar færa en ekki með jafn afgerandi hætti og margur gætu haldið. 30% þátttakenda (yfir 75 þúsund af 250 þúsund) í könnun Capacent eru tilbúin í tímabundið greiðsluverkfall. 16% þátttakenda þ.e. um 40 þúsund manns eru tilbúin að fara í langtíma greiðsluverkfall.

Til samanburðar eru 30% félagsmanna HH tilbúnir í langtíma greiðsluverkfall og 36% í tímabundið greiðsluverkfall. Við þetta má bæta að 87% þátttakenda í Capacent könnuninni vilja taka þátt í að þrýsta á stjórnvöld til aðgerða í þágu heimilanna. 39,7% eru tilbúin að taka fjármuni úr ríkisbönkum (99 þúsund manns).

Þessar niðurstöður úr könnuninni sem Capacent framkvæmdi eru væntanlega sláandi fyrir marga. Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna líkir þessum aðgerðum við kjarabaráttu síðustu aldar. Línan hefur verið dregin í sandinn, almenningur er tilbúinn að standa saman fyrir mannsæmandi lánakjörum og hrinda órétti. Forsætisráðherra, Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssambandi lífeyrissjóða hefur verið boðið að samningaborðinu. Hagsmunasamtök heimilanna vilja leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstólum, endurskoðun á verðbreytingarákvæðum íbúðalána og sambærileg vaxtakjör og bjóðast í nágrannalöndunum. Stjórnvöld munu framvegis gjöra svo vel og stýra ríkisfjármálum og hagkerfinu almennt með ábyrgum hætti og hætta að fela óráðsíu og vaxtaokur með blekkjandi flóknum fjármálaafurðum eins og verðtryggingu. Hinn valkosturinn er að láta reyna á samstöðu heimilanna.

Sjá niðurstöður Capacent könnunar hér.

 

Last modified onTuesday, 01 July 2014 01:07

Latest from Ólafur Garðarsson

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is