Menu
RSS

Rammi aðgerða um skuldavanda heimilanna

Hagsmunir allra grunnstoða hagkerfisins, þ.e. heimila, atvinnulífs, fjármálakerfis og hins opinbera, fara saman til lengri tíma litið og því verður að jafna ábyrgð milli aðila á afleiðingum hrunsins. Einhliða og of skammsýn hagsmunagæsla fjárskuldbindinga hins opinbera og fjármálakerfis mun einfaldlega leiða af sér annað hrun fyrr en seinna, langvarandi samdrátt í hagkerfinu og mjög kostnaðarsamt siðrof.

Hagsmunasamtök heimilanna leggja til eftirfarandi tillögu að ramma um aðgerðir til sátta um skuldavanda heimilanna og aðgerðir til viðsnúnings á sí vaxandi skuldaþróun, til nánari útfærslu milli aðila:

* Almenn leiðrétting verð- og gengistryggðra veðlána heimilanna.
Markmið aðgerðar er að forða því að stöðugt fleiri heimili þurfi á sértækri skuldaaðlögun að halda og að byrðum sé dreift milli aðila (lántaka, lánveitenda og skattgreiðenda) með sanngjörnum hætti.  Aðgerð nái til sem flestra heimila, sé skilvirk og áhrifa gæti fljótt og að umsýslukostnaður sé sem minnstur.

Útfærslu slíkrar leiðréttingar skuli lokið fyrir 15. apríl nk. í samkomulagi hagsmunaaðila, stjórnvalda og fulltrúa neytenda eða með neyðarlögum um brýna efnahagsaðgerð.
(sjá nánari tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna)

* Gera þarf sértæk greiðsluerfiðleikaúrræði skilvirkari
Fyrir þá sem almenn aðgerð nægir ekki fyrir.  Markmið aðgerða sé að sem flest skuldsett heimili nái endum saman, umsýslukostnaður sé sem minnstur og fólk hafi þak yfir höfuðið fyrir viðráðanlegt endurgjald.  Í þessu ástandi verði lögð sérstök áhersla á skilvirka málsmeðferð og úrvinnslu.

Útfærsla endurskoðunar núverandi úrræða og möguleg innleiðing frekari úrræða sé lokið fyrir 15.apríl nk., unnin í samvinnu við hagsmunaaðila og fulltrúa neytenda.

* Gera þarf þrotameðferð einstaklinga styttri með styttingu endanlegs fyrningarfrests krafna
Fyrir þá sem ekki verður bjargað fjárhagslega með ofangreindum leiðum.  Úrræðið taki einnig til greiðsluþrota vegna árangurslausra fjárnáma.

Markmið aðgerðar er að veita yfirskuldsettu fólki sem fyrst tækifæri til fjárhagslegs sjálfstæðis á ný og lágmarka þannig umsvif árangurslausra fjárnáma, veltu innan eftirkröfumarkaðar, svarta hagkerfisins og fjárhagslegs landflótta.

Lög um fullnaðarfyrningu gjaldþrotamála innan tveggja ára varð að lögum 17.12.2010.  Samsvarandi breyting vegna greiðsluþrota og árangurslauss fjárnáms verði innleidd fyrir 15. mars n.k.

* Efla eftirlit með aðgerðum og vinnubrögðum fjármálafyrirtækja og innheimtuaðila.

Allar niðurstöður eftirlitsaðila verði gerðar opinberar ársfjórðungslega.  Löggjöf og regluverk með vinnubrögðum og eftirliti verði endurskoðuð. Boðuð verði hert viðurlög við brotum á gildandi reglum.  Eftirlit taki sérstaklega til skoðunar vörslusviptingar, samninga og framkvæmd um sértæka skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun og nauðungarsamninga afturvirkt frá 1.1.2008.

Útfærslu sé lokið og hert eftirlit taki til starfa fyrir lok 15.maí nk.

* Hefja skipulega greiningu og rannsókn á fjárhagsstöðu heimilanna
Fjárhagsstaða heimilanna verði greind af óháðri stjórnsýslustofnun og niðurstöður kynntar ársfjórðungslega til framtíðar.  Mörk skuldsetningar verði skilgreind sem hófleg, vænt og varhugaverð, miðað við hlutföll eignarhalds og umfang séreignar bílaflota hverju sinni.  Unnið verði afturvirkt frá ársbyrjun 2008 með sambærilegum hætti.

Útfærslu verði lokið og rannsókn hafin fyrir byrjun mars 2011.

* Innleiðing úrræða til bættrar hagstjórnar
Skilgreind verði opinber framfærslukostnaður lágmarksframfærslu annars vegar og meðal framfærslukostnaður vegna greiðslumats hins vegar.

Gerð verði undantekningarlaus krafa um greiðslumat við öll veðlán einstaklinga.

Lög verði sett um að veð takmarkist við veðandlag neytendalána. Lánveitandi skal ekki öðlast meiri rétt en samið var um í upphafi, þ.e. að lausaskuldir verði ekki hægt að setja inn á veðrétt heimila með fjárnámi eða öðrum gjörningum.  Lögin taki gildi við skilmálabreytingar eldri lána.  Ábyrgð þriðja aðila verði bönnuð og afnumin við skilmálabreytingar.

Fjárhagsstaða og málefni heimilanna verði tekið upp sem viðfangsefni, til greiningar og viðbragða innan félagsmálaráðuneytis.

Skoðað verði að fela Seðlabanka að stýra hámarks veðhlutföllum útlána hverju sinni, sbr. ákvörðun um bindiskyldu og stýrivexti.

Útfærslu verði lokið fyrir lok 17.júni 2011.

* Seðlabanki birti árlega Hagspá heimilanna sem hluta af almennri efnahagsspá
Upplýsingar um fjárhagsstöðu heimilanna verði grunnur hagspár og taki að öðru leiti mið af öðrum hagstærðum við hagspá hvers árs í riti Seðlabanka um Fjármálastöðuleika.

Seðlabanka verði falið að gæta stöðuleika innan hagkerfisins í heild.

Útfærslu verði lokið fyrir byrjun júní 2011.

* Breytingar á húsnæðislánakerfinu
Dregið verði markvisst úr vægi verðtryggingar á neytendalánum með tímasettri áætlun um afnám að fullu fyrir 17. júni 2011.

Komið verði á samkeppni um tekin lán, með innleiðingu breytilegra vaxtakjara og þaki á vexti húsnæðislána.

Samkeppnishamlandi lántöku- og uppgreiðslugjöld verði afnumin og bönnuð.

Lánveitendur verði kallaðir til meðábyrgðar fyrir efnahagsstöðuleika.

Leitað verði leiða til að lækka vexti með lækkun vaxta á útgefnum ríkisskuldabréfum og lækkun raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.  Endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins er brýn.

Lögð verði áhersla á stöðuga eignamyndun og hóflegan heildarkostnað veðlána neytenda. Lánsformum verði fjölgað. Vaxta- og húsaleigubætur taki einnig mið af fjölskyldustærð.
Útfærslu verði lokið fyrir byrjun júní 2011.
(sjá nánari tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna)

* Aukning og jafnræði valkosta í húsnæðismálum
Valkostum búsetuforma almenns markaðar verði jöfnuð á þann hátt að fjölskyldum verði gert auðveldara að velja það form sem hentar, hvort sem það er eignar, leigu, kaupleigu eða félagsbústaðaform.

Félagslegt húsnæðiskerfi verði endurmetið og styrkt í samræmi við stefnu um fjölgun kosta í húsnæðiskerfinu til að tryggja öllum aðgengi að íbúðarhúsnæði. Í forgangi verði mætt þörfum barnafjölskyldna.

Réttarumhverfi leiguhúsnæðis verði endurskoðað með því augnamiði að langtímaleiga verði raunhæfur og vænlegri kostur fyrir bæði leigusala og leigutaka í samræmi við ofangreint.
Útfærslu stefnumörkunar verði lokið fyrir byrjun maí 2011 og leiði strax til framkvæmda.

* Aukin neytendavernd
Neytendavernd og -fræðsla verði efld.
Lög um neytendavernd verð samræmd gildandi lögum norðurlanda og EES.

Almenn fjármálafræðsla verði efld bæði í skólakerfi og endurmenntun.

Kostnaður og áhrif greiðslukortakerfa á hagkerfið verði könnuð og brugðist við neikvæðum áhrifum á verðlag og verðbólgu.  Lögð verði áhersla á debetneyslu í víðtækari mæli.

Stuðlað verði að valkvæðum sparnaði ungmenna 16-30 ára, til að undirbúa stærri fjárfestingar, ss. nám og fasteignakaup.

Útfærslum verði lokið fyrir byrjun júní 2011.

Stjórn HH lýsir samtökin viljug til samráðs og samstarfs á grundvelli ofangreindra atriða.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, 8. febrúar 2011

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna