Frá formanni stjórnar HH okt. 2012
- Written by Ólafur Garðarsson
- font size decrease font size increase font size
Tekist á við kerfið um verðtrygginguna
Eins og félagsmenn hafa vonandi orðið varir við hefur núverandi stjórn og fyrri stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) verið að undirbúa málsókn gegn verðtryggingunni í nokkurn tíma. Nú er svo komið að stefna hefur verið birt forsvarsmönnum Íbúðalánasjóðs (ÍLS). Það skal tekið fram strax að málsóknin er ekki gegn ÍLS af neinni annarri ástæðu en þeirri að mikill meirihluti verðtryggðu lánanna er þar og áhrifin af niðurstöðunni verða sem víðtækust. Lánasamningar ÍLS eru að jafnaði eins og ákveðið samræmi hefur verið við afgreiðslu lánsumsókna. Að mati lögfræðingateymis HH hafa neytendalög verið brotin við framkvæmd lánsafgreiðslu, framkvæmd útreikninga ofl.
Að sjálfsögðu er ÍLS ekki eitt á báti, flestar lánastofnanir hafa lánað án þess að taka fullt tillit til lagabreytinga sem komu til með EES samningnum. Ekki má líta svo á að HH hafi horn í síðu ÍLS, ákvörðunin var byggð á köldu mati á heildaráhrifum þess dómsmáls sem yrði höfðað. Verðtryggingin er óvinurinn, ekki ÍLS, hvorki starfsmenn né stjórn. Þess skal geta að málið átti að hefjast í byrjun september en ýmis lagatæknileg atriði þurftu frekari athygli. Einnig kom upp mögulegur hagsmunaárekstur á lögmannastofu sem þurfti að leysa áður en málið færi í lögformlegt ferli. Málið hefur nú leysts farsællega og ekkert sem stendur í veginum lengur svo vitað sé. Svo upplýst sé um málið var einn lögfræðingur á lögmannastofu að vinna fyrir HH og annar fyrir ÍLS í ótengdum málum. Þetta þótti hvorugum málsaðila gott svo lögfræðingunum var gert að bæta úr og fór svo að lögfræðingur HH hætti hjá viðkomandi stofu.
Rafrænir greiðsluseðlar sendir út
Það skal viðurkennast að það er engin tilviljun að rafrænir greiðsluseðlar félagsgjalda hafa verið sendir út nú á þessum tíma þegar barátta samtakanna tekur þetta afgerandi skref (greiðsluseðlar hafa birst í heimabanka eða birtast þar fljótlega). Þessi barátta kostar peninga og það hjálpar óneitanlega til að félagsmenn viti að samtökin nota féð til að berjast fyrir leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnámi okurvaxtastarfsemi í landinu. Þess ber þó að geta að félagsgjöld eru algjörlega valkvæm. Þeir sem vilja ekki eða geta ekki greitt félagsgjöldin geta falið greiðsluseðilinn og hann fellur síðan úr gildi sjálfkrafa seinna. Engar innheimtuaðgerðir eru viðhafðar af hálfu samtakanna vegna félagsgjalda umfram það að senda út rafrænu greiðsluseðlana. Stjórnarstörf HH eru ólaunuð en samtökin hafa nú einn starfsmann í 75% starfi en lögfræðingar vinna einnig á verkefnagrunni fyrir samtökin. Þeir sem vilja leggja baráttunni gegn verðtryggingunni lið sérstaklega er bent á að greiða framlög inn á málsóknarsjóð HH en hann er 1110-05-250427 kt. 520209-2120.
Ótímabærir innheimtutilburðir fjármálafyrirtækja
Auk þess að berjast fyrir afnámi verðtryggingar af neytendalánum og leiðréttingu stökkbreyttra neytendalána eru samtökin að halda áfram að berjast gegn ósanngjörnum viðskiptaháttum fjármálafyrirtækja. Tilraun var gerð til að stöðva vörslusviptingar byggðar á vafasömum lánasamningum og við erum einnig að reyna að stöðva innheimtur á þeim. Bankarnir ættu að okkar mati að gæta hófs og bíða með allar innheimtur á meðan óvissa ríkir um vexti af ólöglegum gengisbundnum lánasamningum. Málaferlin hafa kostað nokkurt fé en það er betra að samtökin standi í þessu en að einstaka félagsmenn þurfi að stíga fram fyrir skjöldu upp á von og óvon.
Saman getum við tæklað kerfið og knúið fram réttlæti fyrir heimilin.
Tökum stöðu með heimilunum
Ólafur Garðarsson
Formaður Stjórnar