Menu
RSS

Lausn á vanda Íslandsbanka með hjálp einstaklinga Featured

Það þykir sérdeilis góður kostur nú á tímum að vera lausnar-miðaður eins og gjarnan er sagt á fremur óþjálli nútíma íslensku. Orðið lausnari kemur líka í hugann, fagurt íslenskt orð sem segja má að sé nánast samheiti orðsins frelsari enda hafa bæði orðin verið notuð jöfnum höndum um Krist sjálfan í tímans rás. Nú hefur Íslandsbanki af rausnarskap sínum boðist til að gerast eins konar lausnarmiðaður lausnari lánþega á borð við mig og auglýsir linnulítið og feitu letri: „Lausnir Íslandsbanka fyrir einstaklinga“. Í mínu tilviki miðast lausnir bankans við það að lækka höfuðstólinn (eftirstöðvarnar sem hækkað hafa um 117% miðað við áætlun) af gengistryggða húsnæðisláninu mínu um 25%, breyta því í leiðinni í íslenskt lán með breytilegum vöxtum og lækka greiðslubyrðina fyrstu mánuðina um 36%. Er nema von að maður tárist af hugulseminni sem manni er sýnd á viðsjárverðum og þungbærum tímum.

Á móti kemur reyndar að eftirstöðvar lánsins munu dreifast á 25 ár í stað 11 ára, vextirnir hækka um nokkur prósentustig og afborganirnar sömuleiðis eftir að fyrstu hveitibrauðsmánuðunum lýkur. En hverju breytir það? Hugum aðeins að því.

 

Forsaga máls míns er sú að árið 2006 tók ég gengistryggt húsnæðislán til 15 ára. Þetta gerði ég að vandlega ígrunduðu máli, eða það taldi ég þá. Ég ráðfærði mig við nokkra talnaglögga einstaklinga og þar á meðal einn af útibússtjórum Íslandsbanka (Glitnis). Útibússtjórinn sá að ég hafði mjög traust veð fyrir skuldinni, bauð mér vildarkjör og reiknaði út að miðað við gefnar vaxtaforsendur og tilfallandi kostnað mætti ég búast við að heildargreiðsla mín af láninu yrði um 19% hærri upphæð en upphafleg lánsupphæð segði til um. Þetta fannst mér vel boðið en ákvað þó að taka útreikningum bankans með ákveðnum fyrirvörum. Ég hafði kynnt mér gengisþróun 10 ár aftur í tímann og gerði mér því ljósa grein fyrir því að í tímans rás mætti búast við nokkrum sveiflum á gengi einstakra gjaldmiðla. Ég sá í hendi mér að gengistryggt lán til skamms tíma væri talsvert áhættusamt en til lengri tíma litið virtust gengissveiflur hafa tilhneigingu til að jafnast út. Mín ályktun var því sú að miðað við þau verðtryggðu íslensku lánakjör sem í boði voru á þeim tíma væri ótvírætt betri kostur að taka gengistryggt lán til 15 ára, jafnvel þó að gengisþróun yrði fremur óhagstæð. Það hvarlaði reyndar ekki að mér að til væri fólk sem liti á það sem köllun sína að veikja íslensku krónuna í þeim eina tilgangi að hagnast sem mest sjálft. Í einfeldni minni taldi ég að gengissveiflur einstakra gjaldmiðla ættu sér almennt eðlilegar og heilbrigðar skýringar. En til að draga úr óþægindum af fyrirséðu gengisflökti ákvað ég að tengja lánið við þrjár ólíkar myntir: bandaríska dollara, svissneska franka og japönsk jen. Jafnframt ákvað ég að eiga jafnan dálítinn varasjóð í þeim tilgangi að mæta tímabundnum sveiflum á gengi íslensku krónunnar.

Þegar bankahrunið varð haustið 2008 skertist umræddur varasjóður minn nokkuð. Jafnframt hækkaði lán mitt fyrirvaralaust, líkt og fjölda annarra, um meira en 100%. Miðað við upphaflega áætlun bankans átti ég hinn 1. febrúar síðastliðinn að vera búinn að greiða 29% af heildarkostnaði við lánið og höfðustóllinn átti að hafa lækkað um 25%. Hin raunverulega staða er hins vegar sú að ég hef þegar greitt 42% af þeirri heildarupphæð sem áætlun bankans gerði ráð fyrir en þrátt fyrir það eru eftirstöðvar lánsins nú 117% hærri í íslenskum krónum en upphafleg áætlun bankans hafði reiknað út fyrir mig.

Í ljósi framanritaðs gerði ég mér nýverið ferð í Íslandsbanka í leit að lausn minna mála. Og lausnin kom og það meira að segja á silfurfati. Þjónustufulltrúi bankans útskýrði samviskusamlega fyrir mér að Íslandsbanki væri tilbúinn að lækka eftirstöðvar mínar, sem hækkað hafa um 117%, um heil 25% og breyta hinu illræmda gengistryggða láni mínu í íslenskt lán með breytilegum vöxtum. En vegna rausnarlegrar greiðasemi bankans væri óhjákvæmilegt að lengja dálítið í láninu og hækka vextina um nokkur prósentustig. Miðað við gefnar forsendur bankans yrði heildargreiðsla mín því aðeins 2,67 sinnum hærri í krónum talið en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Með öðrum orðum sagt. Hafi ég í upphafi t.d. gert ráð fyrir að greiða samtals 10 milljónir á 15 árum þyrfti ég nú, eftir leiðréttingu bankans, að gera ráð fyrir að greiða samtals 26,7 milljónir á 29 árum.

Það sem að framan greinir er aðeins örlítið dæmi um þær höfðinglegu lausnir sem venjulegum íslenskum heimilum bjóðast þessa dagana. Erfitt er að sjá að hér séu á ferðinni raunhæfar lausnir fyrir einstaklinga í vanda, miklu fremur úthugsaðar lausnir á vanda Íslandsbanka með hjálp einstaklinga! Í raun má helst líkja lausnarpakka Íslandspakka og fleiri bankastofnana við það að höggva fyrst báðar hendur af fólki og auglýsa síðan lausnir við að græða þær aftur á með tilheyrandi kostnaði og tilboði um handlama skuldaánauð næstu 25 eða 40 árin. Í Bónus koma síðan stóraukin matarútgjöld, fallandi fasteignaverð, lægri laun eða atvinnumissir og fleiri kræsilegir eftirréttir sem verið er að matbúa jafnóðum handa skilvísum lánþegum sem ætlað er það hlutverk að dansa hrunadansinn til morguns og sötra skuldasúpu bankanna í botn.
 
Þórarinn Björnsson
Höfundur er guðfræðingur og bókasafns- og upplýsingafræðingur.
 
 
 

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna