Menu
RSS

Þórarinn tekur til varna fyrir sig og sína Featured

Til forsvarsmanna Frjálsa fjárfestingabankans: 26. ágúst 2009

Kæri lánveitandi!
Hér með tilkynnist að lántakandi yðar, Þórarinn Einarsson (kt. XXXXXX-XXXX) hefur ákveðið víkja til hliðar lánasamningum sínum við lánveitenda með því að draga allar lánatengdar greiðslur í óákveðinn tíma (greiðslustöðvun hófst að hluta í júní 2009) í samræmi við lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga frá 1936 nr. 7. en þar segir í 36. grein:

"Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.”

Varðandi verðtryggð lán má vissulega deila um hvort verðtrygging sé sanngjörn almennt. Hinsvegar er óumdeilt að íslenskar fjármálastofnanir (ásamt stjórnsýsluaðilum) báru meginábyrgð á þeirri verðbólgu sem kom í kjölfar bankahrunsins. Það er því óneitanlega ósanngjarnt að fjármálastofnanir krefjist þess að lántakandi greiði auknar verðbætur vegna verðbólgu sem þær bera sjálfar ábyrgð á. Enn síður mun slíkt fyrirkomulag geta talist til “góðrar viðskiptavenju”.

Varðandi lán í erlendri mynt gildir það sama að sömu aðilar báru ábyrgð á hruni íslensku krónunnar og er það augljóslega ósanngjarnt og andstætt “góðri viðskiptavenju” að lántakendur beri allan þann skaða sem fjármálastofnanir ollu með glæfralegri fjármálastefnu. Það bendir sterklega til þess að þessar stofnanir viðhafi vondar viðskiptavenjur.

 
Í ljósi frétta og umræðu í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins hafa komið fram vísbendingar um að fjármálastofnanir hafi vitað eða mátt vita um yfirvofandi veikingu krónunnar. Þrátt fyrir það hafi þær áfram hvatt til lántöku í erlendri mynt sem hlýtur að teljast sviksamlegt og a.m.k. andstætt “góðri viðskiptavenju”. Margoft hefur komið fram í fréttum og þjóðmálaumræðu gróf dæmi um "vondar viðskiptavenjur" í íslensku viðskiptalífi þar sem m.a. fyrirtæki (stundum skúffufyrirtæki) fengu lán hjá bönkum til þess að kaupa í þeim hlutabréf sem voru jafnframt veð fyrir þessum lánum og svo virðist að fyrirtæki hafi verið stofnuð eingöngu í þeim tilgangi að hækka með þessum hætti hlutabréf banka. Augljóst er að mjög "vondar viðskiptavenjur" hafa verið viðhafðar í íslensku viðskiptalífi, þ.m.t. fjármálastofnunum. Ekki er þó auðvelt að dæma um hversu misvondar þær voru eftir fjármálastofnunum eða hversu mikla ábyrgð hver fjármálastofnun ber í samræmi við umsvif sín á fjármálamarkaði, fjármálastefnu og viðskiptahætti.

Ekki er við því að búast að nokkur fjármálastofnun muni opna bókhald sitt svo mikið að hún verði í aðstöðu til þess að sýna fram á að hún hafi almennt viðhaft "góða viðskiptavenju" og heilbrigða viðskiptahætti. En jafnvel þótt takist að setja fram sannfærandi rök fyrir því, þá eftir sem áður eru lánasamningar gagnvart lántakanda ósanngjarnir miðað við núverandi stöðu lána sem heimila honum að víkja slíkum samningum til hliðar (sbr 36. grein) með því að draga greiðslur. Það liggur því beint við að lánveitandi leiti úrlausnar með því að setjast að samningaborði með viðeigandi hagsmunaaðilum og stjórnvöldum til þess að vinna að leiðréttingum á lánasamningum sem geri þá sanngjarna gagnvart hinum almenna lántakanda.

Þess ber að geta að í a-lið 36. greinar laganna er tekið fram að sönnunarbyrði hvílir á atvinnurekanda (þ.e. lánveitanda) að sýna fram á að ásakanir um ósanngirni og “vondar viðskiptavenjur” eigi ekki við. Varðandi hugsanlegan vafa um túlkun laganna vill lántakandi minna sérstaklega á b-lið sömu lagagreinar: “Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.”

Lántakandi telur sig að auki svikinn með þeim hætti að lánveitandi neyddi hann til þess að taka erlent viðbótarlán í stað innlents (eins og hann óskaði) vegna þess að bankinn heimilaði ekki innlendar lánveitingar yfir tilteknu veðsetningarhlutfalli. Með þessum hætti gat bankinn stýrt lánveitingum á þann hátt að auka vægi erlendra lána. Það ber vott um sviksemi að hvetja sérstaklega til lána í erlendri mynt þegar forsvarsmönnum fjármálastofnanna mátti vera kunnugt um yfirvofandi veikingu krónunnar, en þó eigi upplýst væntanlegum lántakendum um það.

Lántakandi fer fram á að lánveitandi reyni að afsanna að hann hafi beitt lántakenda svikum eins og vikið er að í 1. mgr. 30. greinar laganna:
"Hafi sá, sem tók við löggerningnum, sviksamlega skýrt rangt frá atvikum, sem ætla mátti að skiptu máli um löggerninginn, eða hann hefir sviksamlega þagað yfir slíkum atvikum, skal líta svo á, sem gerningurinn hafi verið gerður fyrir þau svik, nema það sannist, að þessi atriði hafi engin áhrif haft um það, að löggerningurinn var gerður.”

Takist lánveitanda ekki að afsanna ofangreinda sviksemi sbr. 2.mgr. 30. greinar laganna, þá telst lántakandi eigi lengur skuldbundinn af viðkomandi lánasamningi:
"Löggerningur skuldbindur eigi þann mann, sem gerði hann, ef hann var fenginn til þess með svikum, og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum eða hann vissi eða mátti vita, að gerningurinn var gerður fyrir svik annars manns.”

Takist lánveitanda hinsvegar að afsanna svik eða að meint svik hafi engin áhrif haft (þannig að sú afsönnun verði eigi hrakin), þá krefst lántakandi þess að umrætt lán verði leiðrétt á sambærilegan hátt og hitt lánið sem er innleBankarnirnt en lántakandi gerir kröfur um að hækkanir á höfuðstól þess ásamt lánatengdum gjöldum sem rekja má til beinna og óbeinna afleiðinga fjármálastefnu íslenskra fjármálastofnana verði felldar niður þannig að breytt staða lána endurspegli sanngirni og “góða viðskiptavenju”. Lántakandi á ekki von á því að bankinn geti fært fyrir því gild og marktæk rök að núverandi staða lána endurspegli sanngirni og “góða viðskiptavenju”, en ef bankinn vill leggja meintan trúverðugleika sinn að veði með því að setja fram slíka röksemdarfærslu, þá væri í sjálfu sér ágætt að fá hana fram og mun þá lántakandi hrekja slíkar röksemdarfærslur jafnóðum og þar með framlengja rétt sinn til þess að draga lánatengdar greiðslur.
 
Lántakandi áskilur sér rétt til þess að draga allar lánatengdar greiðslur í samræmi við áðurnefnd lög þar til að niðurstaða liggur fyrir sem lántakandi getur sætt sig við. Vera má að lántakandi sætti sig við úrlausn sem fengin er með víðtækri sátt hagsmunaaðila og stjórnvalda og ber hann mest traust til Hagsmunasamtaka heimilanna til þess að gæta sinna hagsmuna í því að koma á slíkri sátt. Lántakandi telur koma til greina að semja beint við bankann um leiðréttingar, þó með þeim fyrirvara að hann áskilji sér rétt til þess að fá enn frekari leiðréttingar í samræmi við hugsanlega síðari tíma sátt ætluðum almennum lántakendum, telji lántakandi hagsmunum sínum þannig betur borgið.

Lánveitanda má vera ljóst að hér með er lánasamningum vikið til hliðar í samræmi við lög og hvílir sönnunarbyrgðin á lánveitanda að sýna fram á að það sé hafið yfir allan vafa (sem er neytanda í hag) að rök lántakanda fyrir þeirri aðgerð standist ekki. Lánveitandi getur því ekki lengur krafið lántakanda um greiðslur eða gengið eftir þeim á meðan svo stendur. Þar með ber lánveitanda að falla frá innheimtuaðgerðum sem kunna að vera í vinnslu eða eru fyrirhugaðar þar til lánasamningar taka fullt gildi á ný með samkomulagi samningsaðila eða að lántakandi geti ekki innan viðeigandi frests hrakið áðurtilgreindar sannanir sem lánveitandi kann að leggja fram til ógildingar kröfu lántakanda.
 
Það er einlæg von lántakanda að lánveitandi beri gæfu til þess að beita sanngirni, skynsemi og helst frumkvæði í því að ná fram viðeigandi úrlausn á máli þessu. Lántakandi lýsir yfir fullum greiðslu- og samningsvilja á grundvelli sanngirnis og "góðrar viðskiptavenju".
 
Lántakandi veitir hér með lánveitenda sínum 10 daga frest til þess að leggja fram þær sannanir sem beðið er um í bréfi þessu með vísan til laga og til þess að sýna fram á að rök lántakanda haldi ekki. Lántakandi áskilur sér a.m.k. jafn langan frest til þess að svara. Þá er lánveitandi hvattur til þess að upplýsa lántakanda um sjónarmið bankans ásamt röksemdarfærslu, sérstaklega í þeim tilfellum sem þau kunna að stangast á við sjónarmið lántakanda. Ef ekki berast traustar sannanir og marktækur rökstuðningur lánveitanda innan tiltekins frests mun lántakandi líta svo á að lánveitandi viðurkenni að fullu rétt lántakanda til þess að draga greiðslur og ekki komi til frekari innheimtuaðgerða. Lántakandi áskilur sér þó þann rétt að hrekja þann málatilbúnað sem lánveitandi kann að setja fram.
 
 
Virðingarfyllst,
 
 
___________________________________________
 
Þórarinn Einarsson, lántakandi

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna