Menu
RSS

Saga Margrétar og Marteins

Heil og sæl

Hér er saga af venjulegu heimili á Íslandi í dag. Við erum kjarnafjölskylda, pabbi, mamma, tvö börn og hundur. Við búum í fjögurra herbergja íbúð í blokk og höfum búið í sömu íbúðinni í 10 ár. Í apríl í fyrra missti húsbóndinn vinnuna, hann var með þriggja mánaða uppsagnarfrest + sumarfrí.  Hann fékk vinnu aftur í september, veiktist svo mjög alvarlega í lok september og átti auðvitað engin réttindi á nýjum vinnustað. Því fór sem fór og hann missti vinnuna sem hann var ný búinn að fá.  Næstu mánuði á eftir þurftum við að treysta á sjúkrasjóð VR auk minna tekna.  Í febrúar fékk hann aftur vinnu en þá höfðum við haft skertar tekjur frá því í ágúst og fjárhagsstaðan fór sífellt versnandi því við vorum auðvitað komin með „hala“ af vanskilum. 

Á þessu tímabil varð hrunið. Gengistryggða bílalánið okkar hækkaði og hækkaði og verðbólgan hækkaði verðtryggðu lánin okkar. Launin okkar hins vegar lækkuðu.  Við fórum af stað að reyna að skuldbreyta. Þurftum m.a. að skuldbreyta  láni sem við tókum árið 2001 og var þá að upphæð 2.000.000kr. Af þessu láni vorum við búin að borga samviskusamlega í 7 ár, engu að síður var höfuðstóll lánsins við skuldbreytingu 2.700.000 kr. Gengistryggða lánið okkar hefur hækkað um helming og við eigum ekki lengur 60% í bílnum.

Við tókum strax þá ákvörðun að taka á þessum málum með jákvæðni og bjartsýni. Jafnvel þó halinn lengdist og afborganirnar hækkuðu þá vorum við ákveðin í því að láta ekki bugast. Við treystum á það sem var sagt í upphafi hruns, tilmæli til bankanna um að taka vægar á skuldurum.  Okkur gengur sífellt verr að vera jákvæð og bjartsýn og í síðustu viku töluðum við við þjónustufulltrúann í okkar viðskiptabanka og báðum hreinlega um neyðaraðstoð. Svarið var stutt og laggott; við getum ekki lánað neitt, við höfum engar lausnir!

Ríkið á alla bankana. Það eru ríkisbankarnir sem ganga að skuldurum og ég hef enga trú á að við séum ein í þessari stöðu. Það eru 18.000 manns atvinnulaus, það eru 18.000 manns sem geta ekki staðið í skilum. Hvar er skjaldborgin? Hvar eru lausnirnar? Hvernig ætlar ríkið að koma til móts við fólkið? Hvenær ætla yfirvöld að koma út úr loftkastalanum og taka á málunum.  Hvernig á fólk að geta borgað?

Með kveðju,

Margrét og Marteinn

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna