Menu
RSS

Sólveigu er nóg boðið Featured

Hvað, ef eitthvað, er verið að gera til aðstoðar hinum almenna húseiganda? Getur einhver upplýst mig um það? Ég er sjálf ekki í alvarlegum vanda þó auðvitað eigi ég alltaf minna og minna í íbúðinni minni og launin dugi skemmra en áður. En ég hef fylgst með einu dæmi úr minni fjölskyldu og ég er svo foxill yfir framkomu lánastofnana (ríkisins!) í garð fólks sem er þó að reyna að standa við sitt að mig langaði að deila því.

Þetta eru ung hjón með tvö börn, skertar tekjur sl. mánuði , annað er í námi og þau eiga hús á Suðurlandi sem metið var fyrir hrun á ca 20-24 milljónir. Á því hvílir verðtryggt lán sem var 15 millj. en er nú 20. Í desember ákváðu þau að athuga með frystingu á vöxtum þar sem þau voru í skilum en sáu fram á tekjuskerðingu. Það var EKKI auðsótt, dregið var úr ávinningi, bara frestur á illu, munaði ekki NEMA 18 þús. á mánuði o.sv.frv. (Það tekur því ekki að tala um neitt undir milljarði greinilega). Ekkert varð því úr þessu en svo kreppti enn frekar að og ekki náðist að greiða feb. og mars. Þá er hringt frá bankanum og sagt að nú sé þetta á leið í innheimtu, ekkert hægt að semja um neitt en ef þau komist í skil þá sé hægt að fá vaxtafrystingu! Þannig að það er bara borga strax annars Intrum á fullu.

Ég spyr aftur, í hverju felast aðgerðir til bjargar heimilum?
Það er svo æpandi augljóst að hagsmunir fjármagnseigenda (og já ég veit að lífeyrssjóðir eru eign okkar til framtíðar og allt það) ráða algerlega för. Þeirra hlið er tryggð með verðtryggingu og vöxtum og hallar svo á núna að eftir einhvern tíma sitja þeir uppi með stóran hluta húseigna og annað hvort henda fólki út eða leyfa því náðarsamlegast að búa áfram og kaupa svo af þeim AFTUR (hugsa sér)þegar betur árar. Þetta er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi.

Það hefur verið yfirlýst stefna ráðandi afla hér á landi að fólk eigi sitt húsnæði. Leigumarkaður hefur verið uppsprengdur og leigufélög lítil og yfirleitt fyrir sérhópa. Fólk hefur því oft lagt mikið á sig til að eignast slíkt, jafnvel litið svo á að jú, þetta sé erfitt en þetta sé þó fjárfesting um leið og það er húsaskjól fjölskyldunnar. Það er því ótrúlegt að ekki heyrist meira og hærra í fólki sem sér fram á þetta sé hrifsað af þeim í nafni þess að ekki megi skerða hlut ÍLS og annarra lánasjóða. Af hverju eru hagsmunir þeirra meira virði en fjölskyldunnar? Þessarar grunneiningar sem er á tyllidögum hornsteinn samfélagsins er virðist nú hornreka þess. Mig grunar að þögnin sé ekki vegna samþykkis fórnarlamba ofbeldisins heldur vegna magnleysis þess sem sér fram á vergang.

Sólveig Jóhanssdóttir

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna