Menu
RSS

HH endurspegla vilja 80% þjóðarinnar

Rúm 80% landsmanna eru hlynnt afnámi verðtryggingar samkvæmt nýrri könnun sem Capacent hefur gert fyrir Hagsmunasamtök heimilanna. Stuðningur við hugmyndir um afnám verðtryggingar mældist sá sami haustið 2009 en þá létu samtökin síðast rannsaka afstöðu almennings til krafna samtakanna.

Haustið 2009 sögðust um 75% hlynnt hugmyndum um almenna niðurfærslu lána.  Nú mælist stuðningur við almenna niðurfærslu íbúðalána hins vegar tæp 80%. Sérstaka athygli vekur að hlutfall þeirra sem segjast mjög hlynnt almennri niðurfærslu eykst um rúm 12%.

Þá er áhugavert að sjá að stuðningur við kröfur samtakanna er algerlega þverpólitískur, mikill meirihluti kjósenda allra flokka eru hlynntir kröfunum. Ljóst er að samtökin endurspegla vilja þjóðarinnar í þessum efnum.

Stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfurnar er um 50%, en þar eru fleiri í hópi óákveðinna sem svara hvorki né.

Eins og sjá má hafa samtökin jafnframt mikinn pólitískan stuðning almennings, rúm 31% þeirra sem taka afstöðu segja líkur á því að þau myndu kjósa samtökin ef þau tækju þá ákvörðun að bjóða fram til Alþingis. Þá er stórt hlutfall, rúm 22 % að auki sem mundu hugsanlega kjósa samtökin.

Að mati stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna endurspegla þessar niðurstöður þann mikla og víðtæka þverpólitíska stuðning sem kröfur samtakanna njóta á meðal almennings. Stuðningur við afnám verðtryggingar mælist stöðugur en fylgi við almennar leiðréttingar lána eykst frá árinu 2009. Samtökin standa ennþá fyrir undirskriftasöfnun um þessar kröfur á www.heimilin.is.

Þess má geta að ástæða samtakanna fyrir kröfunni um þjóðaratkvæði er sú að kröfurnar hafa alla tíð haft yfirgnæfandi stuðning almennings á meðan stjórnvöld eru treg að bregðast við þeim með almennum aðgerðum. Auk þess hafa í gegnum tíðina verið lögð fram mörg frumvörp á Alþingi um afnám verðtryggingar sem fást aldrei afgreidd út úr nefndum. Líta samtökin svo á að þá sé orðið tímabært að leyfa almenningi að kjósa um þetta mikilvæga hagsmunamál fyrir heimilin í landinu.

Hér má sjá Capacent Gallup skýrsluna í heild sinni

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna