Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna hefja viðræður við forsætisráðherra

Í kjölfar fjölmennra mótmæla fyrir ári síðan sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fulltrúa úr stjórnkerfinu og fjármálageiranum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu koma til með að kosta og hvernig þær myndu gagnast fólki. Að endingu fór hins vegar svo að sjónarmið samtakanna voru blásin út af borðinu og fulltrúi samtakanna sá sig tilneyddan til að skila séráliti sem stjórnvöld hafa neitað að birta.

Eftir tvo fjölmenna samstöðufundi síðustu daga og afhendingu 33.525 undirskrifta tilkynnti forsætisráðuneytið að sérfræðingahópurinn yrði endurvakinn. Jafnframt tilkynnti ráðuneytið, að samtökunum forspurðum, að Hagsmunasamtök heimilanna væru enn aðili að hópnum. Um leið og samtökin gera athugasemdir við þau vinnubrögð lýsa samtökin því yfir að þau muni ekki taka þátt í slíku leikriti aftur. Annað og meira þarf að koma til. Samtökin munu því hefja viðræður við forsætisráðherra um breytta nálgun á viðfangsefnið.

Til að ganga fram fyrir heimilin og færa til baka þá eignatilfærslu sem átt hefur sér stað frá heimilunum til fjármagnseigenda þarf pólitískt hugrekki, kjark og þor.

4. október 2011

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna