Error
  • JUser: :_load: Unable to load user with ID: 689
Menu
RSS

Neytendur varist gylliboð banka um endurfjármögnun lána

Hagsmunasamtök heimilanna vara neytendur við þeim gylliboðum sem fram hafa komið í nýlegum auglýsingum fjármálafyrirtækja þar sem boðið er upp á endurfjármögnun lána. Neytendum er bent á að skoða öll slík tilboð með fyrirvara um hvort þau séu þeim raunverulega til hagsbóta.

Athygli er vakin á því að við endurfjármögnun geta ýmis viðbótargjöld lagst á höfuðstól lána og þarf því að skoða vel hvort það þjóni í raun hagsmunum skuldara að skuldbinda sig til greiðslu slíks aukakostnaðar. Meta þarf þau lánakjör sem bjóðast við endurfjármögnun með þetta í huga. Sérstaklega er varað við því að verðtryggð lán séu endurfjármögnuð, en með því læsist öll hækkun þeirra vegna áfallinna verðbóta inni í nýjum höfuðstól með óafturkræfum hætti. Meðfylgjandi útreikningar sem gerðir hafa verið á vegum samtakanna sýna að lán sem þannig er endurfjármagnað mun aldrei verða hægt að greiða upp innan upphaflegs lánstíma vegna veldisáhrifa verðtryggingarinnar.

Þá eru þeir neytendur sem hafa nú þegar skipt yfir í óverðtryggð lán varaðir við því að láta glepjast af gylliboðum um að skipta aftur yfir í verðtryggð lán. Þó svo að verðbólga sé lág um þessar mundir og verðtryggð lánskjör kunni fyrir vikið að virðast hagstæð, þá hafa söguleg dæmi sýnt að það getur reynst vera skammgóður vermir. Yfirlýst stefna Hagsmunasamtaka heimilanna og stjórnvalda er sú að afnema beri verðtryggingu neytendalána. Eru neytendur því hvattir til að forðast verðtryggð lán hvort sem um endurfjármögnun eða nýjar lántökur er að ræða.

Loks má nefna að í einhverjum tilvikum leikur vafi á um rétt nýrra banka að þeim kröfum sem þeir beina að neytendum. Mikilvægt er að neytendur kanni vel réttarstöðu sína gagnvart eldri lánum áður en gengið er til undirritunar nýrra samninga. Leiki vafi um þá stöðu getur verið við hæfi að undirrita samninga um endurfjármögnun með fyrirvara um lögmæti þeirra eldri lána sem slíkir samningar tengjast.  Þannig er réttindum skuldara betur borgið ef á þau reynir síðar.

Hér má sjá áhrif endurfjármögnunar á þróun verðtryggðra lána:

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna