Menu
RSS

Áskorun á Eygló Harðardóttur húsnæðismálaráðherra

Félagsfundur Hagsmunasamtaka heimilanna sem haldinn var hinn 27. mars 2014 samþykkti að senda húsnæðismálaráðherra áskorun í ljósi nýjust upplýsinga um framgang máls félagsmanna í Hagsmunasamtökum heimilanna nr. E-4521/2013 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samtökin skora á Eygló Harðardóttur, húsnæðismálaráðherra og æðsta yfirmann Íbúðalánasjóðs að leggja það fyrir stjórnendur sjóðsins að falla frá kröfu um frávísun málsins, svo að fást megi efnileg niðurstaða um hvort útfærsla verðtryggingar neytendalána og þar með talið húsnæðislána frá janúar 2001 hafi brotið í bága við lög um neytendalán nr. 121/1994 og teljist til óréttmætra viðskiptahátta skv. lögum nr. 57/2005 líkt og er niðurstaða ákvörðunar Neytendastofu nr. 8/2014.

Íbúðalánasjóður hefur nú þegar tafið dómsmálið um rúmt ár með frávísunarkröfum sem hafa ekki þjónað neinum öðrum tilgangi en að aftra því að málið hljóti efnislega meðferð. Eitt brýnasta hagsmunamál heimilanna er að fá skorið úr um ólögmæti verðtryggðra neytendalána. Ekki er boðlegt að ala á óvissu um hvort heimilt hafi verið að innheimta verðbætur eða annan lánskostnað umfram þær greiðsluáætlanir sem neytendur hafa samþykkt og undirgengist.

Þá er minnt á að í samræmi við 5. tölulið þingsályktunar nr. 1/142 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi hefur verið lögfest flýtimeðferð dómsmála vegna vísitölutengdra lána er varða skuldavanda heimilanna, samkvæmt frumvarpi innanríkisráðherra til laga nr. 80 frá 2. júlí 2013.

Fyrir hönd félagsfundar og stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir, formaður stjórnar HH.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna