Menu
RSS

Óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa að undanförnu vakið athygli á miklum fjölda auglýstra nauðungarsala á heimilum fólks. Á fundi sem fulltrúar samtakanna áttu í byrjun október með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, var þess krafist að nauðungarsölur vegna neytendalána verði stöðvaðar tímabundið, m.a. á þeirrri forsendu að ríkisstjórnin hefur sjálf sett fram tímasettar áætlanir til hjálpar skuldugum heimilum.


Svör ráðherra voru á þann veg að lögfræðingar og ráðgjafar ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar telji slíkt ekki mögulegt vegna ófrávíkjanlegs eignarréttar kröfuhafa samkvæmt stjórnarskrá. Samtökin skoruðu í kjölfarið á ráðherra að gefa nánari skýringar á þessum orðum sínum. Einnig var farið fram á lögfræðilegar skýringar á þeim fullyrðingum innanríkisráðherra að stöðvun nauðungarsala gangi gegn réttindum þeirra sem þegar hafa misst heimili sín á nauðungarsölu, sem hlýtur að teljast afar sérstök fullyrðing hjá ráðherranum.


Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur engu svarað kröfum samtakanna um skýringar, þrátt fyrir að þær hafi verið margítekaðar. Það ætti að vera leikur einn fyrir sérfræðinga ráðuneytisins eða ráðgjafa ríkisstjórnarinnar að veita umbeðin svör, enda hefur ráðherrann haldið því fram í  fjölmiðlum að  “það sé skoðun margra lögfróðra aðila að ekki sé mögulegt að stöðva nauðungarsölur nema fara gegn stjórnarskrá og það sé álit sem allir þekkja og vita sem fjallað hafa um þessi mál”. En hvar er þetta álit sem allir þekkja og allir vita af? Svörin sem borist hafa frá ráðuneytinu hafa verið að benda á útvarpsviðtal við ráðherrann 21. október þar sem hún sneiddi fimlega hjá spurningum þáttastjórnenda Ísland í Bítið um margumbeðnar lögfræðiskýringar.


Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú gefist upp á biðinni og sjálf unnið 14 blaðsíðna greinargerð um fullnustur neytendalána án undangengins dómsúrskurðar þar sem farið er yfir þær lagagreinar og evróputilskipanir sem máli skipta í þessu samhengi. Helsta niðurstaða greinargerðarinnar er sú að skilmálar í samningum við neytendur sem kveða á um rétt lánveitenda til að krefjast fullnustu kröfu án undangengis dóms eða sáttar, séu óréttmætir og þar með óskuldbindandi fyrir neytendur. Byggist sú niðurstaða einkum á því að með beitingu slíkra skilmála séu neytendur í raun sviptir þeim rétti sem þeir að óbreyttu myndu njóta til úrlausnar fyrir þar til bærum dómstól innan ramma fullnustumeðferðarinnar, þar á meðal um hvort stöðva skuli frekari athafnir við fullnustuna þar til fengist hafi dómsúrlausn um ágreining er varðar samningsskilmála, meðal annars þá sem sjálf fullnustan byggist á.


Það hlýtur að teljast sérstakt að sjálfboðaliðasamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna geti lagt fram ítarlegar lögskýringar með greinargerð um óréttmæti nauðungarsala án undangengins dómsúrskurðar á meðan Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, með alla starfsmenn    innanríkisráðuneytisins á bak við sig, visar í viðtal við sig sjálfa sem lögskýringu. Svo virðist sem ráðuneytið og innanríkisráðherra eigi engar lögskýringar í fórum sínum sem standast nánari skoðun. Það er von stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna að meðfylgjandi greinargerð geti nýst þeim neytendum sem vilja grípa til varna og verjast því að heimili þeirra verði seld nauðungarsölu án dóms og laga.

Hér má nálgast sjálfa greinargerðina:

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna