Menu
RSS

Áfrýjunarnefnd staðfestir að 0% verðbólguviðmið brjóti gegn lögum um neytendalán

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014 þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt lögum um neytendalán.

Upplýsingagjöfin sem deilt var um sneri að tilgreiningu á verðbótum í heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Með úrskurði sínum staðfesti áfrýjunarnefndin þá ákvörðun Neytendastofu að ekki hafi samræmst þágildandi lögum um neytendalán að miða við 0% verðbólgu út lánstímann í upplýsingum til neytanda þegar samningur var gerður.

Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu og úrskurði áfrýjunarnefndar braut Íslandsbanki því gegn ákvæðum laga um neytendalán. Hvorki Neytendastofa né áfrýjunarnefnd neytendamála hafa heimild til að kveða á um hvernig fara skuli með endurgreiðslur samningsins í ljósi brotsins. Aðilar verða að leysa úr því sín í milli með samkomulagi, fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki eða eftir atvikum að fela dómstólum að leysa úr slíkri kröfu.

Úrskurðurinn er til kominn vegna áfrýjunar Íslandsbanka á ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014, og var hún efnislega staðfest, meðal annars með vísan til dóms EFTA-dómstólsins í máli E-27/13. Þá hefur héraðsdómur Reykjavíkur einnig komist að sömu efnislegu niðurstöðu með dómi sínum í máli nr. E-4521/2013, þó svo að ekki væri kveðið úr um afleiðingar þess í dómnum, sem mun því koma til kasta Hæstaréttar Íslands að skera úr um.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

Read more...

Áskorun til viðskiptabanka

Vegna frétta af gríðarlega háum hagnaðartölum viðskiptabanka vilja Hagsmunasamtök heimilanna hvetja bankana til þess að ráðstafa hagnaði sínum í varasjóði til þess að mæta væntanlegum endurgreiðslukröfum vegna ólöglega innheimtra verðbóta af neytendalánum. Með ákvörðun nr. 8/2014 þann 27. febrúar hefur Neytendastofa staðfest að óréttmætt sé að undanskilja verðbætur frá útreikningum heildarlántökukostnaðar, árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og greiðsluáætlunar. Blasir því við að óheimilt sé að innheimta þann kostnað sem ekki hefur þannig verið gerð grein fyrir, og bendir flest til þess að fjármálastofnanir muni þurfa að endurgreiða neytendum allar ólöglega innheimtar verðbætur.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

 

 

 

 Read more...

HH kvarta til Neytendastofu vegna auglýsingar Samtaka Atvinnulífsins

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna sjónvarpsauglýsingar Samtaka Atvinnulífsins (SA) sem birst hefur í fjölmiðlum að undanförnu, þar sem fullyrt er að “of miklar launahækkanir hafi leitt til verðbólgu”.

Staðhæfingar um að launþegar beri ábyrgð á verðbólgu eru villandi og beinlínis rangar.  Verðbólga er skilgreind sem hækkun á vísitölu neysluverðs sem gefin er út af Hagstofu Íslands og mælir vöruverð og húsnæðiskostnað. Augljóst er að það eru atvinnurekendur á borð við kaupmenn og verslunarfyrirtæki sem taka ákvarðanir um verðhækkanir á neysluvörum en ekki launþegar.

Verðlag á fasteignamarkaði er heldur ekki ákvarðað af launþegum, sérstaklega ekki þeim sem leigja sér húsnæði. Leiguverð er ákvarðað af leigusölum, sem margir hverjir eru atvinnurekendur, og kaupverð húsnæðis er ákveðið af seljendum þess, sem eru alls ekki í öllum tilvikum launþegar. Þá má ekki heldur gleyma áhrifum skatta- og gjaldskrárhækkana sem eru opinberlega ákveðnar.

Ein helsta orsök verðbólgu er offjölgun á krónum í umferð og hefur peningaleg þensla verið bæði mikil og sveiflukennd hér landi. Til að mynda nam aukning peningamagns í umferð hérlendis næstum fjórföldun á tímabilinu frá 2004 til 2008. Þessa miklu aukningu má að langmestu leyti rekja til starfsemi bankakerfisins, sem setur nýtt fjármagn í umferð með útlánum. Nýlegar rannsóknir hafa auk þess sýnt að hið séríslenska fyrirbæri sem verðtrygging útlána bankakerfisins er, veldur mikilli offramleiðslu peningamagns sem eykur við verðbólgu og viðheldur henni.

Þess er farið á leit að Neytendastofa leggi bann við birtingu auglýsingar SA og taki til athugunar beitingu stjórnvaldssekta, fallist stofnunin á það umkvörtunarefni að hin margumrædda auglýsing brjóti gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Að mati HH er um viðamikið brot gegn hagsmunum neytenda að ræða, auk þess sem þær rangfærslur sem koma fram í auglýsingunni eru til þess fallnar að grafa undan fjármálalæsi almennings.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna