FME vegna umfjöllunar á opinberum vettvangi um frumrit skuldabréfa Featured
- Written by Administrator
- font size decrease font size increase font size
Í fjölmiðlum hefur verið varpað fram að bankar innheimti af skuldabréfum án þess að geta framvísað frumritum slíkra bréfa þegar eftir því hefir verið leitað af hálfu lántakenda. Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi hjá Fjármálaeftirlitinu svaraði fyrirspurn sem lesandi sendi á Spyr.
Getur FME, sem að lögum hefir eftirlit með fjármálastofnunum, staðfest að innheimta skuldabréfa af hálfu banka og annarra fjármálastofnana (bankar til einföldunar) fari því aðeins fram að bankinn hafi frumrit bréfs undir höndum? Ber banka skylda til að framvísa frumriti skuldabréfs óski lántaki eftir því?
Svar: Fjármálaeftirlitið fylgist með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.
Fyrri spurning þín lýtur að því hvort bankar eða aðrar fjármálastofnanir innheimti því aðeins kröfur skv. skuldabréfum að viðkomandi hafi frumrit skuldabréfs undir höndum. Í því sambandi skal tekið fram að FME hefur ekki framkvæmt sérstaka athugun eða úttekt á því hvernig varðveislu slíkra skuldabréfa er háttað hjá eftirlitsskyldum aðilum.
Á því sviði lögfræðinnar sem nefndur er kröfuréttur er fjallað um samband milli skuldara og lánardrottins. Bein laga- eða regluákvæði á þessu sviði lögfræðinnar eru af skornum skammti og hefur því í framkvæmd verið stuðst við meginreglur sem mótast hafa á sviðinu ásamt því sem litið hefur verið til skrifa fræðimanna um efnið.
Meðal slíkra meginreglna sem mótast hafa á sviði kröfuréttar er svokölluð „skilríkisregla“. Skilríkisreglan felur það í sér að „skuldari [losnar] undan skuldbindingu sinni greiði hann þeim sem hefur viðskiptabréfið í hendi með formlega löglegri heimild enda hvorki viti hann þá né megi vita að annar eigi betri rétt til bréfsins“. (Páll Hreinsson, „Viðskiptabréf“, Reykjavík 2004, bls. 167)
Samkvæmt framanrituðu er ljóst að eiginleg handhöfn frumrits skuldabréfs, í bókstaflegri merkinu, er ekki forsenda þess að banki eða önnur fjármálastofnun innheimti kröfu samkvæmt skuldabréfi heldur er meginforsendan sú að eigandi skuldabréfsins hafi lögformlega heimild sem eigandi bréfsins, hvar svo sem frumrit skuldabréfsins sjálfs er varðveitt. Sé um að ræða innheimtu kröfu skv. skuldabréfi af hálfu þriðja aðila er meginforsenda innheimtu sú að viðkomandi aðila sé slíkt heimilt skv. innheimtulögum nr. 95/2008.
Vegna umfjöllunar á opinberum vettvangi skal þess getið að FME hefur ekki tilefni til að ætla að bankar, eða aðrar fjármálastofnanir, innheimti kröfur skv. skuldabréfum sem ýmist eru ekki til eða hafa verið afskrifaðar af eiganda viðkomandi skuldabréfs. Hafi fyrirspyrjandi, eða aðrir, upplýsingar um eftirlitsskylda aðila sem stunda slíka innheimtu væru ábendingar þar að lútandi vel þegnar. Nánari upplýsingar um hvernig koma skal ábendingum á framfæri við FME má finna á þessari vefslóð: http://www.fme.is/eftirlitsstarfsemi/neytendavernd/
Síðari spurning þín lýtur að því hvort bönkum eða öðrum fjármálastofnunum beri skylda til að framvísa frumriti skuldabréfs óski lántaki eftir því.
Í Konungstilskipun frá 9. febrúar 1798 er kveðið á um skyldu lánardrottins til þess að skila frumriti skuldabréfs ef útgefandi skuldabréfsins borgar allan höfuðstól þess. Þá er kveðið á um skyldu lánardrottins til að „hafa við höndina frumrit skuldabréfsins“ og árita það þegar afborgun af höfuðstól er reidd af hendi. Konungstilskipunina má nálgast á vefsíðu Alþingis á þessari slóð: http://www.althingi.is/lagas/140b/1798092.html
Ein helsta forsendan að baki tilskipuninni var sú að tryggja rétt bæði útgefanda skuldabréfsins (skuldara), sem og rétt framsalshafa, þ.e. þess sem kaupir skuldabréfið af upprunalegum kaupanda þess. Þannig gat síðari framsalshafi treyst því að sú staða sem rituð var á skuldabréfið væri rétt og eins gat skuldari treyst því að síðari framsalshafi kræfi hann ekki um greiðslu sem þegar hefði verið innt af hendi ef skuldabréfið var áritað um hana. Með öðrum orðum glataði skuldari ekki þeirri mótbáru gagnvart síðari framsalshafa að hann hefði innt greiðslu af hendi ef skuldabréfið var áritað um hana.
Konungstilskipunin hefur ekki verið numin úr íslenskum lögum. Hins vegar er ljóst að með tækniframförum hafa framkvæmd og venjur í viðskiptalífinu breyst nokkuð og að ekki er algengt að skuldarar krefjist þess að frumrit skuldabréfs sé áritað um afborgun í þeirra viðurvist. Framangreint hefur þó ekki þau áhrif að skuldari glati þeirri mótbáru gagnvart síðari framsalshafa að hann hafi þegar innt greiðslu af hendi. Ástæðan er sú að þegar árið 1796 var í hæstarétti Danmerkur mótuð sú regla að ef skuldari greiddi bæði af höfuðstól og vexti, líkt og almennt tíðkast í dag, og fengi kvittun fyrir, héldi hann þeirri mótbáru gagnvart síðari (grandlausum) framsalshafa að hann hefði innt viðkomandi greiðslu af hendi.
Samkvæmt framanrituðu er ekki í lögum að finna beina skyldu á hendur bönkum til að framvísa skuldabréfi óski lántaki eftir því. Hinsvegar hafa fræðimenn talið að í skilríkisreglunni, sem fjallað var um hér á undan, felist að skuldari geti „neitað að greiða viðskiptabréfskröfu ef sá, sem greiðslu krefst, getur ekki sýnt fram á að hann hafi formlega löglega heimild til bréfsins“ (Páll Hreinsson, „Viðskiptabréf“, Reykjavík 2004, bls. 168).
Fjármálaeftirlitið getur ekki fullyrt hver niðurstaða dómstóla yrði vegna neitunar um greiðslu á grundvelli þess að banki framvísi ekki frumriti skuldabréfs. Þó verður gengið út frá því að sá sem krefst greiðslu á grundvelli skuldabréfs fyrir dómi eða hjá sýslumanni, verði að leggja fram frumrit bréfsins. Rétt er að vekja athygli á því að í dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júní 1998 kom fram sú afstaða að skuldari gæti ekki á grundvelli 1. og 2. mgr. 1. gr. konungstilskipunarinnar hætt greiðslum af skuldabréfi ef lánardrottinn áritaði ekki bréfið um greiðslu. Þess skal þó getið að í tilvísuðum héraðsdómi var krafa skuldara reist á ákvæðum 1. og 2. mgr. 1. gr. konungstilskipunarinnar en ekki skilríkisreglunni og hins vegar að dómur héraðsdóms var ómerktur með dómi Hæstaréttar nr. 385/1998 vegna galla á málsmeðferð. Dóm Hæstaréttar má nálgast á þessari vefslóð: http://www.haestirettur.is/domar?nr=275