Menu
RSS

Afskriftir bankanna settar í samhengi Featured

Maður verður aldrei uppiskorpa með efni til að skrifa um meðan fjármálafyrirtækin og stjórnvöld eru jafn upptekin við að sleikja rassinn á fjármagnseigendum og raun ber vitni.  Stjórnarþingmenn og ráðherrar hafa hrúgast í ræðustóla til að tala um stjórnarskrárvarinn eignarétt kröfuhafa.  Fjármálaráðherra var svo hræddur við kröfuhafa, þegar verið var að semja um endurreisn bankanna, að hann þorði ekki annað en að lúffa fyrir þeim svo þeir færu ekki í mál.  Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra voru svo hrædd við Breta og Hollendinga að þau þorðu ekki annað en að samþykkja ábyrgðir sem þjóðin hafnaði.  Nú bankarnir þorðu ekki annað en að dæla milljörðum á milljörðum ofan inn í peningamarkaðssjóði sína svo fjármagnseigendur töpuðu ekki því sem þeir voru búnir að tapa.  Einhverra hluta vegna, þá hafa útlendingar sem eiga íslenskar krónur fengið alveg sérmeðferð, þar sem þeim eru boðið ofurkjör á ríkisskuldabréfum, toppvextir í boði Seðlabankans á innlánum síðan er þeim, einum hópi kröfuhafa, tryggð útleið.  Þá eru það sægreifarnir sem hafa fengið allt að 70% niðurfellingu lána sinna án þess að nýi bankinn hafi eignast svo mikið sem skitið hlutabréf í fyrirtækjunum.  Aðrir stórlaxar hafa gengið til samninga um skuldauppgjör, sem byggir á því að þeir halda krúnudjásninu þó annað skart fái að fjúka.  Rúsínan í pylsuendanum er náttúrulega þegar hópur ofurríkra Íslendinga fékk ekki bara höfuðstól innstæðna sinna greiddan út upp í topp, heldur líka áfallnar verðbætur og vexti, þegar innstæður voru að fullu fluttar frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.

 

Ofangreind atriði eru bara þau sem ratað hafa í fjölmiðla.  Hvað ætli þau séu mörg sem rata þangað?

Ég er hér að tala um nokkur þúsund milljarða króna sem þannig hefur verið mokað til fjármagnseigenda, en þegar heimilin vilja sjá réttlætinu framfylgt, þá breytast sleikjurnar í grátandi mýs.  "Við erum búin með allt svigrúmið."  "Sjáið, við afskrifuðum 23 ma.kr. og erum búin með allt sem við fengum."  Já, hún er ekki há talan sem þríburarnir hafa í raun og veru afskrifað.  Hvort hún sé 23 ma.kr. eða 10 ma.kr. hærri eða lægri tala, skiptir ekki máli.  Hún er smánarleg og hún er mun lægri en nemur þeim afslætti sem gömlu bankarnir veittu þeim nýju.

Meðan bankarnir hafa ekki afsannað þá tölu sem birtist í skýrslu AGS um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og stjórnvalda, þá er ég sannfærður um að hún sé rétt, þ.e. um 360 ma.kr.  Þessi tala fellur vel að þeim upplýsingum sem finna má í ýmsum opinberum gögnum.  Hluti tölunnar er vegna gengistryggðra lána, en það var Hæstiréttur sem sá um leiðréttingu vegna þeirra og ekki tókst honum vel upp með það.

Mig langar að setja leiðréttingar heimilanna, sem búið er að taka 3 ár að toga út úr bönkunum sem heitum töngum, í samhengi við annað sem gert hefur verið án mikillar fyrirhafnar.

Fyrst eru það afskriftir, leiðréttingar og niðurfærslur til heimilanna:

Hér ætla ég að nota tölur sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa birt til að gæta fulls hlutleysis.

Niðurfærsla lána einstaklinga orðin 163,6 milljarðar í lok ágúst

14.10.2011

 • Niðurfærsla vegna 110% leiðar um 27,2 milljarðar króna og enn um 5000 mál í vinnslu
 • Heildarniðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar tæpir 5,6 milljarðar króna
 • Niðurfærsla vegna endurreiknings erlendra fasteignalána nemur um 92 milljörðum króna
 • Niðurfærsla vegna bílalána nemur rúmum 38 milljörðum

Þetta er tekið beint af vef SFF.  Nú rétt er að bæta við upplýsingum af vef Landsbankans:

Skipting niðurfærslu lána einstaklinga

NiðurfærslurUpphæð

Endurútreikningur erlendra lána, er falla undir svokallaðan Mótormax dóm 10,1
Endurútreikningur erlendra lána einstaklinga, dómur Hæstaréttar, júní 2010 23,4
20% vaxtaendurgreiðsla 4,4
Lækkun annarra skulda (úrræði kynnt í maí 2011) 3,6
110% leiðin 15,2
Önnur úrræði, þar með talin eldri 110% leið, 25% lækkun erlendra lána o.fl. 4,3
Samtals 61,0

Þetta var birt, eins og tölur SFF, hinn 14.10. 2011.

Miðað við þessar tölur, þá hefur Landsbankinn verið ákaflega duglegur og eru t.d. um 56% af niðurfærslu/leiðréttingu vegna 110% leiðarinnar komið frá honum (15,2 ma.kr. af 27,2 ma.kr., síðan ætti að bæta við hluta af þessum 4,3 ma.kr.), ríflega þriðjungur af leiðréttingu gengistryggðra lána hefur átt sér stað hjá Landsbankanum (33,5 ma.kr. af 92 ma.kr. eða 36,4%) og svo hefur hann bætt aukalega í pottinn 8,0 ma.kr. sem hinir hafa ekki gert.

Hafa verður í huga að 130 ma.kr. af þessum 163 er vegna lögbrota og það þurfti nú heldur betur að toga það út með töngum.  Eftir standa sem sagt 33 ma.kr. og hvar standa þeir í samanburði við það sem gert hefur verið fyrir fjármagnseigendur:

 • Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, fékk 63 ma.kr. niðurfelldar af skuldum sínum í uppgjöri.  Hve stórt hlutfall þetta var af skuldum Ólafs, veit ég ekki, en örugglega bróðurparturinn og hann hélt Samskipum!
 • Björgólfur Thor Björgólfsson fékk (miðað við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, sem sagt óstaðfest) 70 ma.kr. hið minnsta fellt niður í skuldauppgjöri og hélt öllum fyrirtækjum sínum (að ég best veit).
 • 83,6 ma.kr. voru notaðir til að kaupa ónýt skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum bankanna þriggja:  63 ma.kr. hjá Landsbankanum, 12,9 ma.kr. hjá Íslandsbanka og 7,7 ma.kr. hjá Arion banka.  Landsbankinn afskrifaði hátt í 40 ma.kr. af sinni upphæð strax í ársuppgjöri vegna 2008 og Íslandsbanki 10 ma.kr. samkvæmt frétt Morgunblaðsins 8. október 2009.
 • Jöklabréf upp á um 400 ma.kr. frusu inni við hrunið. Þessir peningar liggja ýmist inni á sérstökum reikningum í Seðlabanka Íslands, á krónureikningum í erlendum bönkum eða í íslenskum ríkisskuldabréfum sem voru sérstaklega gefin út til að bjóða þessum hópi góða vexti.  Þó þau beri bara 5% vexti, þá eru það 20 ma.kr. á ári, en ég hef enga trú á öðru en að vextirnir séu talsvert hærri.
 • Innstæður vellauðugra Íslendinga voru tryggðar upp í topp með vöxtum og verðbótum - 4,7% landsmanna áttu 56% allra innstæðna sem tryggðar voru eða 364 ma.kr.  Hin 95,3% innstæðueigenda áttu 281 ma.kr.  Enginn var að biðja um að þessi tæp 5% töpuðu þessari tölu, en hún er tíföld sú upphæð sem búið er að fær lán heimilanna niður um.
 • Fimm sjávarútvegsfyrirtæki fengu, samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar með lögum 107/2009, 61% skulda sinna afskrifaðar eða 12,8 ma.kr. án þess að bankinn fengi nokkuð í staðinn.  Þrettán verslunar- og þjónustufyrirtæki fengu 68% eða 88,5 ma.kr. af skuldum sínum afskrifaðar gegn 9,1 ma.kr. í hlutfé.  Fjárfestingar- og eignarhaldsfélög fengu 83% eða 169 ma.kr. af skuldum sínum afskrifaðar.  Eitthvað af þessu er vegna ólöglegra gengisbundinna lána.
 • Lífeyrissjóðir keyptu lánasöfn af Seðlabankanum/ríkissjóði m.a. svo kölluð Avens-bréf að nafnvirði 121 ma.kr. og greiddur fyrir 87,6 ma.kr., þ.e. fengu afslátt upp á 33,4 ma.kr.

Ég gæti haldið svona endalaust áfram (eða því sem næst).  Smurt hefur verið milljarða tugum, hundruðum, ef þúsundum, undir hina og þessa hópa fjármagnseigenda meðan réttmætar kröfur almennings hafa verið fótum troðnar og það litla sem fengist hefur fram var kreist út úr grátbólgnum andlitum aumingja, aumingja bankanna og lífeyrissjóðanna sem þannig voru að svíka ennþá aumkunnarverða "erlenda" kröfuhafa og að ég tali nú ekki um sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.   Nú greyið "erlendu" kröfuhafarnir keyptu flestir kröfurnar á 2 - 10% af nafnvirði og eru í staðinn að fá á bilinu 5% í tilfelli Landsbanka Íslands og upp í 25% í tilfelli Glitnis til baka, þ.e. eru að ávaxta fé sitt ríkulega.  Hinir sem seldu þeim kröfurnar eru síðan búnir að fá skuldatrygginguna greidda út hjá AIG og öðrum áhættufíklum.  Hvað varðar sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum, þá væla stjórnendur lífeyrissjóðanna yfir því að hin illu Hagsmunasamtök heimilanna hafi farið fram á að milljarðarnir 33 færu í að lækka lán heimilanna og að sjóðirnir bættu helming þeirrar upphæðar við.  Nei, það var ekki hægt, þar sem þá þurfti að skerða lífeyri.  Ekki kom það fram hjá forráðamönnum lífeyrissjóðanna, að helsta ástæðan fyrir því að skerða þarf lífeyri um ókomna tíð var nokkur hundruð milljarða tap lífeyrissjóðanna, m.a. í vaxtaskiptafjárhættuspili, ástarbréfaviðskiptum, kaup í fjármálafyrirtækjum þar sem forsvarsmenn lífeyrissjóðanna sátu sjálfir í stjórnum og svona mætti lengi telja.  Nei, þetta skipti engu máli, heldur var það klinkið sem Hagsmunasamtök heimilanna báðu um að lífeyrissjóðirnir gæfu eftir svo hægt væri að leiðrétta forsendubrestinn (sem lífeyrissjóðirnir gleyptu í sig eins og blóðþyrstir úlfar) sem íbúðalántakar höfðu orðið fyrir m.a. vegna aðgerða og aðgerðaleysis forsvarsmanns lífeyrissjóðs í stjórn Kaupþings.

Og enn hafa hin ótrúlega ósvífnu Hagsmunasamtök heimilanna komið fram með ósk, frekari en nokkru sinni fyrr.  Þau vilja að bankarnir sýni þeim hvað er satt og rétt.  Hvernig voga þau sér að gera það?  Hvernig datt líka Jóhönnu í hug að samþykkja að þau fái að sjá réttar upplýsingar?  Við sem erum búin að vera að losa "talnamengun" út til almennings, svo enginn maður geti skilið hvað er satt og hvað er rétt.

Þrjú fjármálafyrirtæki, sem hagnast hafa um 163 ma.kr. á 2 árum og 3 ársfjórðungum, hafa notað 33 ma.kr. til að lækka skuldir almennings.  Þau segjast ekki geta gert meira, vegna þess að þau hafi ekki meira svigrúm.  Á sama tíma eru þau búin að gefa einum auðkýfiningi eftir 63 ma.kr. og hann fékk að halda eftir krúnudjásninu, þau eru búin að kaupa verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum fyrir yfir 80 ma.kr., afskrifa tugi milljarða af sjávarútvegsfyrirtækjum án þess að eignast einu sinni hlut í þeim.  Þarf ég að halda áfram?  Svigrúmið er víst til staðar.  Það þarf bara vilja til að nota það fyrir almenning í landinu.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna