Opið bréf til forsætisráðherra og alþingismanna um málefni verðtryggingar Featured
- Written by Administrator
- font size decrease font size increase font size
Í Kastljósi fyrir helgi vísaði forsætisráðherra í eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar sem hindrun gagnvart því að hægt sé að hjálpa fólki með verðtryggð veðlán undir markaðsvirði eignar. Ég ætla hér að gera heiðarlega tilraun til að útskýra að hið gagnstæða gildi. Að það stríði gegn eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar að hjálpa þessu fólki ekki. Við blasir þá að hægt er að leiðrétta verðtryggð lán án þess að óttast að lánastofnanir og erlendir kröfuhafar bankanna geti borið fyrir sig eignarréttarákvæði Stjórnarskrár í andstöðu sinni.
Í Kastljósi fyrir helgi vísaði forsætisráðherra í eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar sem hindrun gagnvart því að hægt sé að hjálpa fólki með verðtryggð veðlán undir markaðsvirði eignar. Ég ætla hér að gera heiðarlega tilraun til að útskýra að hið gagnstæða gildi. Að það stríði gegn eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar að hjálpa þessu fólki ekki. Við blasir þá að hægt er að leiðrétta verðtryggð lán án þess að óttast að lánastofnanir og erlendir kröfuhafar bankanna geti borið fyrir sig eignarréttarákvæði Stjórnarskrár í andstöðu sinni.
I Óréttlætið blasir við og dæmin hrannast upp
Eins og alþekkt er leiðir ófriður í Miðausturlöndum gjarnan til hækkaðs verðs á olíu. Verðhækkunin er raunhækkun, sem stafar af rósturatvikum sem ófriðurinn leiðir af sér. Verðhækkunin er raunhækkun því hún er óháð verðgildi gjaldmiðla, þ.e. ekki tengd peningum. Með öðrum orðum hækkar olían í hlutfalli við verð annarra vara.
Þessi raunhækkun á verði olíu leiðir til þess að vísitala neysluverðs hækkar. Takið sérstaklega eftir að vísitala neysluverðs hækkar í þessu dæmi þótt eiginleiki krónunnar til verðmats breytist ekkert. (Ef vörur á innlendum markaði, óháðar olíu hækka ekki í verði á sama tíma hefur verðgildi krónunnar ekki rýrnað.)
Þar sem um raunhækkun er að ræða á vöru í körfu vísitölu neysluverðs leiðir hún til raunhækkunar verðtryggðra lánasamninga á meðan þeir taka breytingum háðum vísitölu neysluverðs.
Hvað þýðir það að raunhækkun verði á verðtryggðum lánasamningum? Jú það þýðir að skuld skuldarans hefur hækkað á sama tíma og eiginleiki krónunnar til verðmats er óbreyttur og því er óumsamin eignatilfærsla til lánveitandans staðreynd.
Í verðtryggingarkerfi okkar er byggt á því að vísitala neysluverðs endurspegli rýrnun á eiginleika gjaldmiðilsins til verðmats á vinnumarkaði sínum. Það gefur augaleið að þetta er rangt. Hægt er að taka óteljandi dæmi sem afsanna þetta og leiða til óumsaminna eignatilfærslna líkt og í dæminu hér að ofan. T.d. þegar ríkisstjórn ákveður að breyta skatthlutföllum breytist vísitala neysluverðs þrátt fyrir að gjaldmiðillinn sé samur. T.d. þegar hveiti hækkar á heimsmarkaði vegna þurrka breytist vísitala neysluverðs þrátt fyrir að gjaldmiðillinn sé samur. T.d. þegar lánshlutfall íbúðalána breytist, breytist raunverð fasteigna og vísitalan þrátt fyrir að gjaldmiðillinn sé samur o.s.frv.
Óumsamdar eignatilfærslur í íslenska verðtryggingarkerfinu halla verulega á skuldarann. Þetta stafar af því að verðbreytingar á einstökum vörum aða vöruflokkum vegna atvika í umhverfinu eru að jafnaði til hækkunar þó þær hjaðni oftast aftur þegar áhrif atvikanna dvína.
II Vísitala neysluverðs og verðbólga
Samkvæmt skilgreiningu hagfræðinnar er verðbólga peningatengt fyrirbrigði. Þannig að þegar eðlisbreyting verður á gjaldmiðlinum á þá lund að eiginleiki hans til verðmats á vinnumarkaði sínum rýrnar, þá hækkar verð á vöru og þjónustu í kjölfarið. Breyting á vöruverðinu við þessar aðstæður er nafnbreyting. Þegar nafnbreytingin hefur gengið í gegnum alla vöruflóruna er hún sameiginlegur þáttur, þ.e. breytingin er hlutfallslega lík frá einni vöru til annarrar. Slík eðlisbreyting verður gjarnan á gjaldmiðli þegar peningamagn í umferð eykst hraðar en hagvöxtur.
Á vísindavefnum er skilgreining Gylfa Magnússonar hagfræðings á verðbólgu, en þar segir m.a.
Eitt af hlutverkum peninga er að vera mælieining á verðmæti. Þessi mælieining hefur þó þann galla, ólíkt til dæmis mælieiningum metrakerfisins, að vera síbreytileg. Stundum er hægt að kaupa minna fyrir ákveðinn fjölda króna nú en áður. Þetta þýðir að mælieiningin hefur breyst og það er almennt kallað verðbólga. Einfaldasta skýringin á verðbólgu er að krónum í umferð fjölgar stundum hraðar en þeim vörum sem hægt er að kaupa fyrir þær.
Vísitala neysluverðs nemur nafnbreytingu vöruverðsins, en einnig allar raunbreytingar á verði einstakrar vöru eða vöruflokka. Vísitala neysluverðs gerir þannig engan greinarmun á því hvort breyting á verði vöru eigi sér stoð í eðlisbreytingu gjaldmiðilsins (nafnbreyting) eða atvikum sem hafa leit til þess að verð vöru hefur breyst í hlutfalli við aðrar vörur (raunbreyting).
Þrátt fyrir skýra skilgreiningu hagfræðinnar á verðbólgu setur fjöldi hagfræðinga samasemmerki milli hennar og breytingu á vísitölu neysluverðs. Þessi afstaða hefur valdið gífurlegum spjöllum í efnahagslegu tilliti á Íslandi, bæði vegna óumsaminna eignatilfærslna tengdum verðtryggðum lánasamningum og vegna villuviðmiða í peningamálastjórn.
Íslenskir hagfræðingar benda oft á að í útlöndum leggi menn gjarnan að jöfnu verðbólgu og breytingu á neysluverðsvísitölu og því sé eðlilegt að þeir geri það einnig. Það er rétt að erlendir fjölmiðlar höndla gjarnan málið með þessum hætti, sem og fjöldi hagfræðinga. En á það ber að líta að skaðsemi þess að setja jafnaðarmerki milli neysluverðsvísitölu og verðbólgu erlendis er mun minni en hér vegna þess að lán á neytendamarkaði eru ekki verðtryggð með vísitölunni. Villan gæti þó valdið skaða við ákvörðun stýrivaxta ef þeir sem héldu þar um tauma gerðu ekki greinarmun á nafnbreytingum verðlags og breytingum sem stafa af raunbreytingum á verði einstakra vara eða vöruflokka. En við nánari skoðun sést að við ákvörðun stýrivaxta helstu mynta heimsins koma að málum sérhæfðir hagfræðingar á sviði peningamála sem gera sér fulla grein fyrir þeim eðlismun sem er á nafnbreytingum verðlags og breytingum á verðlagi sem stafar af raunbreytingum einstakara vara eða vöruflokka. Beita þeir ólíkum aðferðum með sérhæfðri stærðfræði og tölfræði við að greina verðbreytingar vöru og þjónustu. Ákvarðanir um stýrivexti helstu mynta heimsins eru ekki teknar nema slík sundurgreining liggi fyrir, þ.e. sundurgreining milli verðbreytinga sem eru peningatengdar og verðbreytinga sem eru það ekki.
Ljóst er af skýrslum helstu hagfræðinga Seðlabanka Íslands að bankinn stendur langt að baki helstu seðlabönkum heimsins við greiningu á eiginlegri verðbólgu og því hafa stýrivextir bankans verið, vægast sagt, háir langtímum saman, með kæfandi afleiðingum fyrir samfélagið. Má í því sambandi sérstaklega benda á árin fyrir hrun, allt frá árslokum 2003.
Miklu ríkari hagsmunir eru á Íslandi en almennt gerist erlendis að talað sé um verðbólgu af nákvæmni vegna hinna verðtryggðu neytendalána. Sérstaklega skal bent á að Seðlabanki Íslands og Hagstofa Íslands eiga langt í land í þessum efnum.
Rétt er að taka fram að hér er ekki er verið að gagnrýna vísitölu neysluverðs eða útreikninga á Hagstofunnar á henni, heldur eingöngu þá framkvæmd að hún sé notuð í verðtryggðum lánasamningum. Vísitala neysluverðs gefur verðmætar upplýsingar, en hún er vegin mæling á neyslukostnaði, sem gefur hlutfallslegar breytingar á þeim krónufjölda sem „meðalmaðurinn“ þarf til viðurværis frá einum tíma til annars. Þetta er hins vegar alls ekki það sama og mæling á breytingu á eiginleika gjaldmiðilsins til verðmats. Því ætti alls ekki að standa á heimasíðu Hagstofunnar að vísitala neysluverðs mæli verðbólgu.
III Hagfræðileg og lagaleg misvísun í lögum um verðtryggingu
Í athugasemdum við 13. og 14 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu segir:
Nefndin sem samdi frumvarpið var þeirrar skoðunar að opinberar reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga þjónuðu fyrst og fremst þeim tilgangi að verja almennt sparifé og lánsfé landsmanna fyrir rýrnun af völdum innlendrar verðbólgu eins og hún er venjulega mæld, þ.e. sem meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu.
Í þessum texta þar sem tilgangi með verðtryggingunni er lýst er hagfræðileg misvísun. Tilgangurinn er augljóslega sá að verja sparifé og lánsfé fyrir rýrnun. Rýrnun í þessu samhengi getur aldrei verið tengd öðru en rýrnun gjaldmiðilsins, þ.e. krónunnar. Ekkert annað í þessu samhengi rýrnar við verðbólgu annað en verðgildi krónunnar, þ.e. eiginleiki krónunnar til verðmats á vinnumarkaði sínum. Síðan er mælt fyrir um að rýrnunin verði mæld sem meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu. Þessi fyrirmæli ganga gegn tilganginum á löngum tímabilum, þegar raunbreytingar á verði vara eða vöruflokka hafa áhrif á hina mældu meðaltalsbreytingu.
Athyglisvert er einnig að skoða Ólafslög í þessu samhengi, þ.e. lögin sem innleiddu verðtryggingu á Íslandi. Ólafslög varpa enn skýrara ljósi á tilganginn með innleiðingu verðtryggingar, en í umsögn með 32 gr. laganna stendur:
Hin öra verðbólguþróun hérlendis að undanförnu hefur eðlilega leitt til þess, að leitað er leiða til þess að leiðrétta skekkju af völdum verðbólgunnar á ýmsum sviðum efnahagslífsins. En tilfærsla eigna frá þeim, sem lána peninga með vöxtum, sem liggja undir hraða verðbólgunnar, til hinna, sem skulda á vöxtum undir verðbreytingum, er ef til vill einn alvarlegasti fylgikvilli verðbólgunnar. Auk eignatilfærslu fylgir því ástandi, sem hér hefur ríkt, óhófleg eftirspurn eftir lánsfé og jafnframt brenglar verðbólga mat á framtíðargildi fjárfestingar, þegar raunverulegur vaxtakostnaður kemur ekki fram í lánskjörum.
Þessi texti er mjög skýr um það að lögunum sé ætlað að koma í veg fyrir ósanngjarnar eignatilfærslur sem voru óhjákvæmilegar þegar verðbólgan var jafnan mun hærri en óverðtryggðir vextir lána. Þannig má leiða líkur að því að þegar núverandi lög kveða á um að verja eigi rýrnun af völdum verðbólgu þá sé átt við að komið verði í veg fyrir eignatilfærslur milli lánveitanda og skuldara.
Rétt er að ef leiðrétt er fyrir rýrnun krónunnar, þ.e. breyttum eiginleika hennar til verðmats, þá eru skuldarar og lánveitendur jafnsettir. Með öðrum orðum kemur leiðrétting fyrir rýrnun krónunnar í veg fyrir eignatilfærslur. Slík leiðrétting er eina leiðréttingin sem ekki gengur í berhögg við eignaréttinn og þar með Stjórnarskrána.
Með því að löggjafinn tilgreinir vísitölu neysluverðs til ákvörðunar á leiðréttingum verðtryggðra lánasamninga er gengið gegn tilgangi laganna því vísitala neysluverðs er ekki öruggur/góður mælikvarði á rýrnun krónunnar. Réttara sagt þá mælir vísitala neysluverðs rýrnun krónunnar þokkalega á einhverjum tímabilum og afleitlega á öðrum. Fer það eftir því hvað raunbreytingar á verði einstakra vara eða vöruflokka er stórt hlutfall verðlagsbreytinganna.
Notkun vísitölu neysluverðs sem mælikvarða á rýrnun krónunnar í verðtryggðum samningum hefur tilhneigingu til að yfirfæra eignir frá skuldara til lánveitanda vegna verðbóla á markaði óháðum verðgildi krónunnar, sem vísitalan drekkur í sig. Hækkun vísitölunnar er þannig oft meiri á löngum tímabilum en rýrnun krónunnar gefur tilefni til.
Af þessu leiðir að lögin um verðtrygginguna þvinga fram óumsamdar eignatilfærslur frá skuldurum til lánveitenda. Slíkar tilfærslur stangast á við stjórnlög þ.e. eignarréttarákvæðið og því er notkun vísitölu neysluverðs sem viðmið í verðtryggðum lánasamningum ólögleg að teknu tilliti til eignarréttarins þótt lög um verðtryggingu séu skýr um að hana eigi að nota. Þetta er hin lagalega misvísun.
Mistökin sem gerð eru í setningu laga um verðtryggingu eru að gengið er út frá því að vísitala neysluverðs endurspegli rýrnun gjaldmiðilsins, þ.e. breytingu á eiginleika gjaldmiðilsins til verðmats.
IV Samantekt
Að hafa vísitölu neysluverðs í verðtryggðum lánasamningum er á skjön við tilgang laga um verðtryggingu. Ákvæðið gengur í berhögg við þann tilgang að koma eigi í veg fyrir eignatilfærslur vegna rýrnunar krónunnar. Fullyrða má að eignatilfærslur til skuldara hafi stöðvast með ákvæðinu, en ákvæðið leiðir hins vegar til þess að eignatilfærslur verða í staðinn til lánveitenda sem hlýtur að vera jafnslæmt ef beitt er almennri jöfnun á aðstæður skuldara og lánveitenda.
Þannig er ákvæðið um vísitölu neysluverðs sem viðmið í verðtryggðum lánasamningum á skjön við tilgang laga um verðtryggingu og ennfremur höfum við að slíkt ákvæði er andstætt þeirri hugsun Stjórnarskrárinnar, að eignarrétturinn sé friðhelgur.
Vísun til Stjórnarskrár er rökrétt, því lög um verðtryggingu hafa eignarréttarlega tilvísun. Tilvísun Ólafslaga til þessarar hugsunar felst í því að í umsögn með 32. gr. segir að tilgangur með verðtryggingunni sé að koma í veg fyrir að eignir flytjist til skuldara. Tilvísun laga um vexti og verðtryggingu frá 2001 til eignarréttarins er í umsögn með 13. og 14. gr. laganna, en þar segir að tilgangurinn með verðtryggingunni sé að koma í veg fyrir að lánsfé og sparifé rýrni.
Lagasetning sem hefur þann tilgang að vernda eignir eins hóps má væntanlega aldrei leiða til þess að gengið sé of langt þannig að hópnum sé bættur eignaskaðinn en jafnframt til viðbótar séu eignir færðar til hans frá öðrum hópi óvart!
Verði verðtrygging neytendalána ekki afnumin í nánustu framtíð er lagt til að í stað vísitölu neysluverðs verði ný vísitala tekin upp, vísitala nafnverðs (mælir eða nálgar nafnbreytingar vöruverðsins), sem stýribreyta í verðtryggðum lánasamningum. Með hinni nýju vísitölu væri tilgangi laga um verðtryggingu betur náð, þeim að verðtryggingin leiðrétti fyrir rýrnun gjaldmiðilsins og geri skuldara og lánveitanda jafnsetta í kjölfar slíkrar rýrnunar.
Misgengi milli vísitölu neysluverðs og vísitölu nafnverðs á árunum 2004 til 2008 leiddi til stórfelldrar ólöglegrar hækkunar höfuðstóla verðtryggðra lána, auk þess sem afborganir á tímabilinu voru of háar af þessum sökum. Stærsta skekkjan fólst annars vegar í gífurlegri raunhækkun fasteignaverðs vegna hækkaðs lánshlutfalls og auðveldara aðgengi að lánsfé vegna innkomu bankanna á markaðinn og hins vegar vegna raunhækkunar olíuverðs og tengdra vara á tímabilinu. Áætla má að vel yfir 150 milljarða eignaupptaka hafi orðið af þessum sökum, frá skuldurum til lánveitenda á tímabilinu.
Virðingarfyllst,
Örn Karlsson
Vélaverkfræðingur