Menu
RSS

Undarleg bíræfni Featured

Ég er nærri hættur að horfa á umræðuþætti í sjónvarpinu. Venjulega snúast þeir upp í þrætur og pex, þar sem orð stendur gegn orði og áheyrandinn  er jafnnær að þætti loknum. Ég ætlaði þó að gera undantekningu og horfa á þau Andreu J. Ólafsdóttur og Vilhjálm Bjarnason tala um verðtrygginguna, ekki alls fyrir löngu, vegna þess að hún hefur lengi verið mér áhugamál, ég hef kynnt mér hana og afleiðingar hennar meira en margur annar og skrifað um hana greinar, fleiri en eina. -  En ég gafst upp.  Mér blöskraði svo mont og óskammfeilni Vilhjálms Bjarnasonar, að ég lokaði sjónvarpinu.

 

Ég er nærri hættur að horfa á umræðuþætti í sjónvarpinu. Venjulega snúast þeir upp í þrætur og pex, þar sem orð stendur gegn orði og áheyrandinn  er jafnnær að þætti loknum. Ég ætlaði þó að gera undantekningu og horfa á þau Andreu J. Ólafsdóttur og Vilhjálm Bjarnason tala um verðtrygginguna, ekki alls fyrir löngu, vegna þess að hún hefur lengi verið mér áhugamál, ég hef kynnt mér hana og afleiðingar hennar meira en margur annar og skrifað um hana greinar, fleiri en eina. -  En ég gafst upp.  Mér blöskraði svo mont og óskammfeilni Vilhjálms Bjarnasonar, að ég lokaði sjónvarpinu.

Auðvitað veit Vilhjálmur eins og allir aðrir (eða veit hann það kannski ekki?), að fjöldi manna á Íslandi hefur misst aleigu sína, eingöngu vegna þess hvernig verðtryggingin hefur verið framkvæmd, og að enn fleiri hafa orðið að lifa við fátækt og öryggisleysi af þessari sömu ástæðu. Samt dirfist hann að koma fram í sjónvarpinu og halda því blákalt fram að þetta sé allt í bezta lagi. Ekkert að. Og hann gerði meira. Hann reyndi að telja fólki trú um að verðtryggingin væri slík heillaþúfa hins íslenzka samfélags, að við mættum ekki án hennar vera. Ef við  afnæmum hana,  myndi lífeyriskerfi landsmanna hrynja, Íbúðalánasjóður myndi hrynja og  ...... ég heyrði ekki betur en hann ætlaði að segja að bankakerfið myndi hrynja líka  .... en þá skellti ég fjarstýringunni á hann og leyfði honum ekki að botna setninguna.  Það var ekki hægt að sitja endalaust undir öðru eins og þessu.

En: Ef verðtryggingin er svona dásamleg, eins og Vilhjálmur og sálufélagar hans segja, hvers vegna má hún þá ekki breiða sína líknandi verndarvængi yfir okkur, gamla fólkið, og yfir ungu hjónin sem eru núna að koma sér upp þaki yfir höfuðið, við vonlausar aðstæður?  Hvers vegna má ellilífeyririnn okkar ekki taka risastökk upp á við, um leið og skuldir barnanna okkar rjúka upp úr öllu valdi?  Og hvers vegna mega laun ungu hjónanna ekki hækka jafnt og skuldirnar þeirra?

Þetta get ég sagt Vilhjálmi Bjarnasyni og öllum hinum:
Það er vegna þess, að það hentar ekki hagsmunum íslenzka þjófafélagsins að allir sitji við sama borð, eins og ráð var fyrir gert í hinum upphaflegu "Ólafslögum".   Allir áttu að njóta verðtryggingar, einnig aldraðir og aðrir bótaþegar. (Sjá m.a. Lagasafn I. bindi 1983). En þetta hentaði ekki mafíu Mammons á Íslandi. Hún hefur aldrei getað sætt sig við að íslenzkum almenningi líði vel í landi sínu. Þess vegna varð að breyta "Ólafslögunum" og opna þar leiðir til eignatilfærslu og gripdeilda - eins og raun varð á, heldur betur.

Og svo koma menn í sjónvarp, þykjast vera sérfræðingar, og verja þetta athæfi í líf og blóð!
Ég tek skýrt fram, að þegar ég tala um ung hjón sem reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið,  þá á ég auðvitað ekki við snobb-og dekurkynsóðina á mestu braskárunum, sem sló lán út og suður til þess að þjóna einhverjum bjálfalegum hégómaskap - og vera fín eins og hitt fólkið. Nei, ég er vitaskuld að tala um alla hina, fólkið sem barðist áfram áður en gullæðið rann á þjóðina, og ég er að tala um unga fólkið núna, sem reynir að standa á eigin fótum, en sér ekki fram úr vandræðunum.

Hins ber einnig að geta, svo allrar sanngirni sé gætt, að jafnvel á svæsnustu braskárunum, var alltaf til ungt fólk, innan um og saman við, sem lifði skynsamlega og var með báða fætur á jörðinni.

Greinar mínar um verðtrygginguna hafa alltaf vakið athygli, og marga þakkarkveðju hef ég fengið fyrir þær. (Einn sendi mér þó hrokafullt hótunarbréf  hingað heim í stofu - einu skriflegu hótunina,  sem ég hef fengið á meira en 40 ára ritferli. Það fannst mér gaman!).  Ég neita því ekki, að ég hafi stundum kveðið fast að orði, en annað hvort  er að tala svo eftir sé tekið eða þegja, eins og Pétur læknir sagði forðum.

Ég starfaði í háttvirtu Alþingi í 18 -átján- ár, og ég hef heyrt fleiri rök með og móti verðtryggingu og framkvæmd hennar en möppudýrin í fílabeinsturnum sínum.  Ég hef einnig, -af vissum ástæðum- haft óvenjugott tækifæri til þess að heyra andann í almenningi til þessara mála.

En það er efni í annan pistil.

 

Kópavogi í ágúst 2011.
Valgeir Sigurðsson.
Höf. er fyrrv. blaðamaður, greinin birtist í Morgunblaðinu 3. september 2011



Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna