Menu
RSS

Burt með verðtrygginguna!

Eftirfarandi grein Valgeirs Sigurðssonar birtist árið 2003 í félagsriti eldri borgara, Listin að lifa. Hún vakti athygli margra þá og er nú endurbirt í samstarfi við greinarhöfund.

„ÁRIÐ 1979, um það leyti sem forsjármenn íslenzku þjóðarinnar voru að búa sig í þá stórstyrjöld við almenning í landinu, sem kölluð hefur verið „verðtrygging fjárskuldbindinga“,  þá stóð þannig á fyrir mér, „prívat og persónulega“, að ég þurfti nauðsynlega að slá mér lán til skamms tíma.  Ég gekk þá á fund góðs vinar míns, sem var mikill sérfræðingur í öllu sem hét tölur, bókhald og fjármál, og tjáði honum áhyggjur mínar. Ég sagðist vera hræddur við þennan nýja sið, sem ætti að fara að innleiða, að verðtryggja allar skuldir.  „Þú þarft ekki að óttast þetta“, sagði hann. „Þessu verður öllu haldið í jafnvægi, enda er ekkert annað framkvæmanlegt. Sú skuld sem kostar þig eins mánaðar vinnu núna, mun líka kosta þig eins mánaðar vinnu eftir tuttugu ár“. 

Margt fleira sagði hann, en ég lét ekki sannfærast, þrátt fyrir margfalda yfirburði hans fram yfir mig á þessu sviði. Í mér var einhver innbyggð og ómeðvituð varúð, eins og tortryggni dýrs, sem þorir ekki að stíga þungt til jarðar, þar sem það skynjar að ótryggt muni vera undir.

En hvernig fór? Var þetta látið „haldast í jafnvægi“, eins og vinur minn hafði sagt? Onei, ekki nú alveg. Örfáum árum seinna var vísitalan klippt af laununum, en látin haldast á skuldunum.  Sagt hefur verið í mín eyru, að sú aðgerð, (sem var víst ekki á ábyrgð stjórnvalda einna), hafi verið einhver voðalegasti fjármálaglæpur sem framinn hafi verið hér á landi alla tuttugustu öldina, og er þá mikið sagt, því ekki var það allt geðslegt sem hirð Mammons á Íslandi aðhafðist á þeirri grimmúðugu öld.   En hvort sem menn vilja kalla þetta glæp eða einhverju öðru huggulegu nafni, þá létu afleiðingarnar ekki á  sér standa.Fjöldi manna tapaði aleigu sinni, og heimili og hjónabönd leystust upp.  En uppgjöfin, -sjálfsmorðin sem ýmsir fengu í ofanálag á allt saman- þau voru þögguð niður, til þess að skömmin skylli ekki þar sem hún átti heima.  (Milli sviga: Hvernig gat nokkrum heilvita manni dottið hug að það gengi upp að taka vísitöluna af annarri hliðinni en láta hana haldast á hinni, og enn bullandi verðbólga í landinu?  Sáu menn virkilega ekki, að með þessu hlyti allt að fara á annan endann?  Voru menn hreinlega ekki með öllum mjalla, eða hvað? Eða það sem verra var:  Fannst mönnum bara ekkert athugavert við það að fólk tapaði eignum sínum? Því miður bendir ýmislegt úr umræðum frá þessum tíma til þess að svo hafi einmitt verið).

Þetta var nú þar og þá, en nú er öldin önnur. Verðbólga hefur lengi verið sáralítil og sumir líklega farnir að gleyma þessum ömurlegu árum.  Verðtryggingin heldur samt enn áfram -á skuldunum- en launin drattast langt á eftir.  Og ef við, hinir svokölluðu eftirlaunaþegar, leyfum okkur að vinna okkur eitthvað inn, til þess að bæta okkur upp vesæl ellilaunin, þá skulu þær tekjur allar af okkur teknar.  Og hvers vegna? Vegna þess að það er vitandi vits og af ásettu ráði verið að taka
peninga frá okkur gamla fólkinu og gefa þá öðrum. Það er nú sá beiski sannleikur sem blasir við, þegar búið er að skafa utan af honum fínheitin og fræðiorðin, eins og „jaðarskatta“, „tekjutengingu“ og hvað annað sem menn hafa fundið upp til þess að klæða ósómann í samkvæmisföt.

Við, samtök aldraðra, verðum að beita öllu afli okkar til þess að vinna bug á þessu ranglæti - og enda mörgu öðru. Við gætum t.d. byrjað á að fá því framgengt að ellilífeyrisþegar eigi kost á óverðtryggðum lánum, með veðrétti í íbúðarhúsnæði okkar, sem sjálfsagt er oftast skuldlítið eða skuldlaust.  Slík lántaka yrði

áreiðanlega miklu „betri á bragðið“ fyrir hinn aldna þegn heldur en ýmsar aðrar lausnir, sem honum kynni að standa til boða. Hann finnur, að hann er enn fullgildur maður, sem mark er tekið á, einnig „niðri í banka“!.  Hann getur enn tekið lán, eins og í gamla daga,  - og staðið undir því.  Í öðru lagi eru allar líkur til þess, að slíkt lán geri íbúð hans miklu seljanlegri en hún hefði verið ella, ekki sízt ef hún hefur verið heldur í dýrari kantinum.

Ég lofaði ritstjóra því að hafa þessa grein ekki langa. Þess vegna hef ég sleppt mörgu hér, sem mig langaði að taka með.   Ég hefði t.d. getað sagt frá fasteignasalanum í Reykjavík sem talaði við mig í sumar. Hann lýsti kvíða og áhyggjum viðskiptavina sinna og hræðslu þeirra við verðbólgu og verðtryggingu, sem hann sagði að væri jafn vitlaus eins og hún væri ósanngjörn. Og hann vildi fá samtök aldraðra í lið með sér, til þess að fá verðtrygginguna afnumda. - Margt fleira væri hægt að segja, en því verður sleppt að þessu sinni. En ef til vill gefst tækifæri til þess að ræða þessi mál síðar. Ekki mun af veita.“

Valgeir Sigurðsson,
Kópavogi    

-------------------------
Athugasemd frá greinarhöfundi: Þessi grein mín birtist í félagsriti eldri borgara, Listin að lifa, 3. tbl. 8. árg. október 2003, bls. 46. Hún vakti áhuga margra þá, og ég fékk mikil viðbrögð við henni, og öll jákvæð.   Þar sem ég tel hana ekki síður eiga erindi til fólks nú en þá, leyfi ég Hagsmunasamtökum heimilanna hér með að nota hana „að hluta eða í heild“,  eins og þar stendur, ef það kynni að opna augu einhverra fyrir þeim háska sem verðtryggingin er - eins og hún hefur verið framkvæmd.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna