Rússíbanareið heimila með gengistryggð íbúðalán
- Published in Aðsendar greinar
- Written by Arney Einarsdóttir
- Be the first to comment!
Núverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var mynduð m.a. til að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum, einkum í þágu heimila og atvinnulífs (sjá nánar á www.island.is). Forsætisráðherra hefur einnig lýst ítrekað yfir að fyrirhugað sé að leysa vanda heimila sem eru með íþyngjandi gengistryggð íbúðalán. Þessi heimili hafa nú þurft að búa við stöðuga óvissu, ef ekki fullkomna angist, í allt að tvö ár frá því krónan tók fyrst að veikjast. Vert er að benda öllum sem fjalla um málið opinberlega á að höfuðstóll erlendra lána hefur hækkað um allt að 150% frá því á miðju ári 2007. Ætla má að slík hækkun á höfuðstóli og afborgunum íbúðalána hafi haft í för með sér hækkandi blóðþrýsting, áhyggjur og svefnleysi þeirra sem tóku slík lán. Þeir sem það gerðu, gerðu það þó í góðri trú á efnahagsstjórn landsins og í trausti til fjármálastofnana þeirra sem lánin voru tekin hjá og bera enga ábyrgð á stöðu krónunnar í dag.