Menu
RSS
Frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Frá Hagsmunasamtökum heimilanna (408)

Opnun neytendatorgs

Samtökin hafa nú opnað nýja vefsíðu - Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna. Stjórn samtakanna bindur vonir við að hún verði bæði félagsmönnum og íslenskum heimilum gagnleg upplýsingaveita um stöðu neytendamála á Íslandi og réttindi neytenda á fjármálamarkaði.

Á neytendatorgi er boðið upp á ráðgjöf fyrir heimilin um viðskipti sín á fjármálamarkaði í efnisflokknum: Ráðgjöf HH.

Sá efnisflokkur mun smám saman verða viðameiri en starfsfólk samtakanna mun efla ráðgjöfina á neytendatorgi og miðla þannig þekkingu af vettvangi HH með gagnlegum hætti til samfélagsins. Gamla vefsíðan (www.heimilin.is) verður áfram öllum opin, samhliða því að unnið verður að áframhaldandi þróun og uppbyggingu neytendatorgs. Síðast en ekki síst er Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna jafnframt vefsíða samtakanna og á henni verða upplýsingar um starfsemina og helstu baráttumál. Stefnt er að því að kynna verkefni samtakanna, jafn óðum eins og kostur er, en við minnum á að samtökin eru rekin af sjálfboðaliðum og tveimur starfsmönnum í hlutastarfi og tekur starfið allt mið af þessu. Vefsíðan er því þróunarverkefni á sviði neytendaverndar og framlag til umræðu um neytendamál á Íslandi sem við vonumst til að muni vaxa og dafna jafnt og þétt.

Tímamót í starfi samtakanna

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009, skömmu eftir gjaldþrot þriggja viðskiptabanka. Árið 2019 er því tíunda starfsár Hagsmunasamtaka heimilanna og var haldið upp á þau tímamót 7. október síðastliðinn, ásamt því að opna nýja vefsíðu samtakanna. Fyrrverandi stjórnarmönnum og öðrum velunnurum samtakanna var boðið. Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, Ragnar Þór Ingólfson fyrrverandi stjórnarmaður í HH og formaður VR, Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður HH og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri héldu ræður. Þessar ræður voru kröftugar og hvetjandi fyrir samtökin, því eins og formaður VR fjallaði um í sinni ræðu er neytendavernd á Íslandi eftirbátur hinna Norðurlandanna. Á Norðurlöndum eru bæði stéttarfélög og frjáls félagasamtök á neytendasviði öflugir málsvarar heimilanna. Endurnýjun hefur orðið í forystu íslenskra stéttarfélaga, en neytendarvernd á Íslandi hefur ekki enn slitið barnsskónum. Við vonum að neytendatorg verði mikilvægur hlekkur í umræðu um neytendavernd á Íslandi og framfararskref í þessum málaflokki.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sýndi samtökunum þann heiður að opna Neytendatorg. Við það tilefni hvatti hann fulltrúa samtakanna að halda áfram að veita stjórnvöldum aðhald, það skipti máli.

Starf samtakanna er fjarri því að vera bundið við hrunið og afleiðingar þess. Samtökin spruttu fram á sjónarsviðið í tómarúmi, þar sem alger skortur var á neytendavernd. Þörf á aðhaldi og réttindabaráttu á fjármálamarkaði er ekki síður mikilvæg núna en fyrir tíu árum síðan.

Með kveðju,

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Smellið hér til að heimsækja: NEYTENDATORG

Athugið að héðan í frá verður allt nýtt efni frá samtökunum birt á hinni nýju vefsíðu Neytendatorgs. Gamla vefsíðan verður varðveitt áfram og aðgengileg í gegnum tengil á Neytendatorgi svo hægt verði að nálgast eldra efni. Til lengra tíma er svo stefnt að því að eldra efni færist smám saman yfir í gagnasafn á nýju síðunni.

Read more...

Dómsmálaráðherra þarf að draga dómara til ábyrgðar!

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli Landsbankans gegn Silju Úlfarsdóttur er einungis sá nýjasti í langri röð dóma þar sem réttindi neytenda eru hreinlega svívirt af dómstólum.

Í máli Silju er staðfest að bankinn hafði sagt umrætt veðskuldabréf að fullu greitt árið 2015 og að því hafi í framhaldinu verið aflýst hjá sýslumanni.

Um þetta er ekki deilt og hjá sýslumanni er til ljósrit af skuldabréfinu með dagsetningu og stimpli
Landsbankans sem staðfestir að skuldin sé að fullu greidd.

Landsbankinn telur hins vegar að um “mistök” hafi verið að ræða án þess að geta skýrt þau nánar fyrir dómi og þrátt fyrir að hafa týnt frumriti bréfsins krefur hann Silju um greiðslu skuldar sem hann er búin að aflýsa á bréfi sem hann hefur týnt og getur því ekki framvísað.

Silja neitar að greiða enda benda öll gögn til þess að skuldin sé að fullu greidd og bankinn getur ekki einu sinni framvísað frumriti skuldabréfsins.

Þetta ætti að vera auðunnið mál fyrir Silju.

En ekki á Íslandi. Á Íslandi dæma dómarar nefnilega aldrei neytendum á fjármálamarkaði í vil. Á Íslandi líta dómarar bara til laga ef það hentar skjólstæðingum þeirra, bönkunum.

Frá hruni hafa mörg hundruð mál þar sem reynir á réttindi neytenda á fjármálamarkaði verið flutt fyrir íslenskum dómstólum. Því miður hafa íslenskir dómarar þó aðeins í undantekningartilfellum séð ástæðu til að dæma neytendum í hag í slíkum málum. Á undanförnum árum hafa tugþúsundir goldið fyrir það.

Það að Landsbankinn hafi yfirleitt reynt að sækja mál fyrir dómi á svo veikum grunni og raun ber vitni í umræddu máli, segir sína sögu:
#1 það er til ljósrit af skuldbréfinu stimplað og dagsett af Landsbankanum sem staðfestir að það sé fullgreitt.
#2 ljósritið er hjá sýslumanni sem hefur þegar aflýst skuldinni
#3 Landsbankinn hefur ekki frumritið

Landsbankinn hefur ENGAR sannanir fyrir því að lánið hafi ekki verið greitt en gögn varnaraðila um að það hafi verið greitt eru fjölmörg. Landsbankinn barmar sér yfir því að “mistök” hafi verið gerð og það er nóg fyrir dómstólana sem snúa sönnunarbyrðinni yfir á neytandann sem þegar hefur uppfyllt hana með óvéfengjanlegum hætti. Landsbankinn virðist hins vegar ekki þurfa neinar sannanir fyrir “mistökum” sínum og vinnur málið - enda virðast íslenskir dómstólar ganga út frá því að neytendum beri að greiða fyrir “mistök” banka.

Landsbankamenn vita að dómararnir eru með þeim í liði og munu færa þeim sigurinn með einum eða öðrum hætti. Þess vegna láta þeir reyna á “vonlaus” mál eins og þetta og “trú þeirra” á dómskerfið var enn og aftur staðfest í umræddu máli um leið og Silju var kastað fyrir úlfana.

Ef neytandi ætlar að sækja rétt sinn á Íslandi þarf hann að vera tilbúinn í langa, erfiða og vonlitla baráttu. Það er ekki nóg með að verulega halli á neytendur hvað varðar fjármagn og aðgengi að lögfræðiaðstoð, heldur þurfa þeir líka að mæta fyrir framan dómara sem hlusta í raun ekki á málflutning því þeir eru fyrirfram búnir að gera upp hug sinn. Þeir eru bara á sjálfstýringu að “stimpla mál” fyrir fjármálafyrirtækin.

Það er “tikkað í boxin” og sett upp leikrit til að geta sagt að neytandinn hafi hlotið réttláta dómsmeðferð, en það er ekkert réttlátt við meðferðina. Leikurinn er oft fyrirfram tapaður fyrir neytandann.

Við vitum um fjölmarga dóma þar sem réttindi neytenda hafa verið algjörlega fyrir borð borin og ekki stendur steinn yfir steini í rökstuðningi dómara fyrir niðurstöðu sinni. Það er eitt að tapa dómsmáli, en að tapa því á óréttmætum forsendum og án þess að fullnægjandi rök séu færð fyrir því, er allt annað mál. Hvert og eitt okkar á stjórnarskrárbundinn rétt á réttlátri málsmeðferð og það er stórmál og hreint og klárt mannréttindabrot að vera sviptur þeim rétti - ekki síst af dómstólunum sjálfum!

Hingað og ekki lengra! Það er kominn tími til að dómsmálaráðherra ákæri rangláta dómara og hreinsi til í dómskerfinu. Einhversstaðar þarf að byrja og þar sem margt af því versta sem neytendur hafa orðið fyrir kristallast í máli Silju, væri ágætt að byrja á Boga Hjálmtýssyni héraðsdómara.

Menn sem beita valdi sínu með þeim hætti sem hann gerir eiga ekki að geta setið í skjóli embættis síns og útdeilt ranglæti með þeim hætti sem var gert í umræddu máli.

Hagsmunasamtök heimilanna eru meðvituð um og viðurkenna þrískiptingu valdsins. Samkvæmt lögum eiga dómstólar að skera úr deilumálum og eiga síðasta orðið, en þá verða þeir líka að vera traustsins verðir og dæma eftir lögum. Íslenskir dómarar hafa fallið á svo mörgum prófum og í leiðinni valdið svo miklum skaða að ekki er lengur hægt að setja kíkinn fyrir blinda augað og láta sem ekkert sé.

Nú er mál að linni. Við bendum á að í 1. mgr. 130. gr. almennra hegningarlaga stendur:

“Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.”

Dómstólar verða aldrei betri en dómararnir sem þá skipa og innan raða þeirra eru í dag fjölmörg skemmd epli sem hreinsa þarf burt áður en þau valda meiri skaða en orðið er.

Það er ekki nema um tvennt að ræða: Annað hvort eru íslenskir dómarar skelfilega illa að sér í lögum um réttindi neytenda eða þeir draga taum fjármálafyrirtækja og eru með þeim í liði. Vanhæfir eða spilltir, aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi og dæmin um löglausa dóma orðin of mörg til að framhjá þeim sé litið.

Hagsmunasamtök heimilinna hafa frá hruni barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði og telja augljóst að uppræta þurfi spillinguna sem virðist þrífast meðal íslenskra dómara. Þau bjóða fram aðstoð sína og krefjast þess af dómsmálaráðherra að hún nýti sér valdheimildir sínar sem yfirmaður dómsmála á Íslandi til að taka í taumana.

Góð byrjun væri að ákæra Boga Hjálmtýsson héraðsdómara fyrir stórfelld afglöp í starfi og svipta hann embætti sínu, en það væri bara byrjunin. Hagsmunasamtökin geta bent dómsmálaráðherra á fjölmarga vafasama dóma þar sem brotið hefur verið á réttindum neytenda með grófum hætti.

Traust til dómstóla verður ekki endurreist á meðan dómarar virða hvorki lög né réttindi almennings.
Nú er mál að linni!

Hagsmunasamtök heimilanna munu jafnframt óska eftir fundi með dómsmálaráðherra til að fara yfir þessi mál og önnur sem snúa að meðferð málefna neytenda í réttarvörslukerfinu.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana.

Read more...

Úrskurðarnefnd lögmanna telur innheimtuhætti vegna smálána aðfinnsluverða

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 3/2019.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi Almennrar innheimtu ehf. við innheimtu vegna smáláns væri aðfinnsluverð, en fyrirtækið byggir starfsheimildir sínar á lögmannsréttindum Gísla Kr. Björnssonar, forsvarsmanns þess, sem fellur undir eftirlit Lögmannafélags Íslands.

Málið á rætur að rekja til smáláns sem var tekið hjá fyrirtækinu Múla árið 2013 og endurgreitt síðar sama ár, eða svo taldi neytandinn. Honum byrjuðu svo í desember 2018 að berast fjöldi auglýsinga með SMS skilaboðum frá Múla, sem er nú rekið af fyrirtækinu Ecommerce2020 í Danmörku. Hann hafði því samband við fyrirtækið og bað um að vera afskráður úr kerfum þess, en fékk þau svör að það væri ekki hægt þar sem í kerfinu væri skráð lán sem ekki hefði fengist greitt. Þessu mótmælti neytandinn og sagðist ekki skulda fyrirtækinu neitt.

Smálánafyrirtækið brást við þessu með því að “bjóða” neytandanum að “greiða aðeins höfuðstólinn til baka”. Samdægurs var stofnuð krafa í heimabanka hans, í nafni Almennrar innheimtu ehf., fyrir meintum höfuðstól lánsins auk dráttarvaxta og annars kostnaðar. Með fylgdi sú skýring að krafan væri samkvæmt “greiðslusamkomulagi” þrátt fyrir að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert.

Þessa háttsemi taldi úrskurðarnefndin aðfinnsluverða. Sú niðurstaða hefur þó að svo stöddu engar frekari afleiðingar í för með sér fyrir hið brotlega fyrirtæki eða forsvarsmenn þess, sem er mjög lýsandi fyrir erfiða stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Neytendur í þessum sporum eiga oft mjög erfitt með að leita réttar síns en jafnvel þá eru afleiðingarnar litlar og ekki gripið til neinna aðgerða til að hindra áframhaldandi brot gegn öðrum neytendum í sambærilegri stöðu.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja til þess að innheimtulög verði endurskoðuð og þeim breytt þannig að starfsemi innheimtufyrirtækja verði gerð leyfisskyld í öllum tilvikum, burtséð frá því hvort eigendur þeirra séu lögmenn eða ekki.

Fjármálastarfsemi af þessum toga verður að lúta opinberu eftirliti og nauðsynlegt er að brot gegn réttindum neytenda á fjármálamarkaði hafi einhverjar afleiðingar fyrir brotlega aðila. Jafnframt er nauðsynlegt að eignarhald slíkra fyrirtækja verði rannsakað með tilliti til leyfisskyldu, þar á meðal hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra með hliðsjón af lögum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, enda verður slík starfsemi að standast ítrustu kröfur þar að lútandi.

Read more...

Neytendaréttur og ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á:

ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar
stuðningi samtakanna við aðgerðir formanns VR vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
ólöglegum lánaskilmálum og vaxtabreytingum Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
kvörtun Hagsmunasamtakanna til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að Neytendastofa úrskurðaði nýlega að lánaskilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans (nú Arion banka) væru ólöglegir. Þessir skilmálar áskilja lánveitanda einhliða heimild til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar en slík ákvæði eru skýrt brot á neytendarétti eins og Neytendastofa staðfesti með ákvörðun sinni.

Nú ættu neytendur að geta fagnað og treyst því að bankar þurfi að leiðrétta ólöglegar aðgerðir sínar og að það muni gerast sjálfkrafa. Ekki væri heldur óeðlilegt að vænta þess að þeir þyrftu að bæta þann skaða sem hlotist hefði að ólöglegum aðgerðum þeirra, svona eins og gengur og gerist í siðmenntuðum réttarríkjum.

En það er því miður ekki svo á Íslandi. Engar leiðréttingar munu eiga sér stað nema lánþegar sæki þær sjálfir, jafnvel í gegnum dómstóla. Það fellur nefnilega utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um einstakar uppgjörskröfur, þannig að í stað þess að neytendur njóti vafans þá er hann, eins og alltaf, metinn bankanum í vil. Bankinn fær þannig að halda áfram lögbrotum sínum nema lánþeginn átti sig á brotunum og leiti réttar síns. En sé bankinn ekki tilbúin til samninga þarf hver og einn að draga hann fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Þetta er víst kallað að leita réttar síns á “jafnræðisgrundvelli”.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til að leita réttar síns. Nánari upplýsingum, leiðbeiningum og aðstoð má óska eftir með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..">This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hagsmunasamtök heimilanna styðja forystu VR

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir fullum stuðningi við forystu VR og formann þess Ragnar Þór Ingólfsson í aðgerðum þeirra vegna vaxtahækkana stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem ganga þvert gegn hagsmunum neytenda og munu hækka kostnað hlutaðeigandi heimila umtalsvert, eða um 2.000 krónur af hverri milljón fyrir utan verðbætur.

Hagsmunasamtökin fagna því að verkalýðsforystan sé loksins farin að standa í fæturna og taka undir þá sjálfsögðu kröfu að lífeyrissjóðirnir starfi með hag almennings (allra sjóðsfélaga) að leiðarljósi og taki hag þeirra fram yfir þá taumlausu græðgi og siðleysi sem þessi þjónkun sjóðsins við fjármálakerfið ber með sér.

Lánaskilmálar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ólöglegir

Það er ekki nóg með að boðuð vaxtahækkun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna brjóti í bága við nýgerða lífskjarasamninga eins og formaður VR hefur bent á, heldur brjóta skilmálar lánasamninga lífeyrissjóðsins hreinlega í bága við lög að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
 
Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum breytingarnar taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir vaxtabreytingum. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.
 
Í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem hefur verið samið um.
 
Hagsmunasamtök heimilanna telja slíka skilmála ekki aðeins ósanngjarna heldur einnig ólögmæta og óskuldbindandi.

Kvörtun til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna skilmála Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og einhliða breytingar á viðmiði breytilegra vaxta.

Af yfirlýsingum stjórnar sjóðsins hefur mátt ráða að nýboðuð vaxtahækkun hafi ekki einungis átt að ná til nýrra lána, heldur eigi hún að hafa áhrif á 3.700 útistandandi lán neytenda sem gátu engan veginn gert sér í hugarlund að síðar kynni lánveitandinn að ákveða einhliða að skipta í einni svipan um vaxtaviðmiðun. Aukin kostnaður þessara 3.700 heimila mun hlaupa á hundruðum milljóna króna auk þess sem ofan á það munu leggjast verðbætur.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að ákvörðun sjóðsins um breytingu vaxtaviðmiða feli í sér óréttmæta viðskiptahætti og samræmist ekki ákvæðum laga um fasteignalán til neytenda. Samtökin fara þess því á leit við Neytendastofu að hún taki þessi álitaefni til meðferðar og veiti þeim úrlausn með rökstuddri ákvörðun.

Erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Hagsmunasamtökin hafa einnig sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem stofnunin er minnt á að í verkahring hennar sé að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.


 

Meðfylgjandi er afrit af erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins.

Erindi vegna ólöglegra skilmála um breytilega vexti

Í tilefni frétta um að Fjármálaeftirlitið hafi til skoðunar málefni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lánveitenda.

Hlutverk lífeyrissjóða lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda til greiðslu lífeyris. Til að ávaxta fjármuni sjóðfélaga geta þeir meðal annars veitt fasteignalán til neytenda sem endurgreiðast með vöxtum samkvæmt umsömdum kjörum. Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum þeir taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir breytingum á þeim. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.

Komið hefur í ljós að í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem var samið um. Slíkir skilmálar eru ekki aðeins ósanngjarnir heldur ólögmætir og óskuldbindandi. Hætta er á því að sjóðfélagar verði fyrir tjóni fari sjóðurinn á mis við vænta ávöxtun af eignum sínum.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 hefur Neytendastofa hins vegar eftirlit með því að ákvæðum þeirra laga sé fylgt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa því ákveðið að beina kvörtun til Neytendastofu yfir skilmálum Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einhliða breytingum á vaxtaviðmiði.

Neytendastofa hefur ítrekað staðfest með ákvörðunum sínum að skilmálar sem áskilja lánveitanda einhliða rétt til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar séu ólöglegir, nú síðast í liðinni viku þegar birt var ákvörðun þess efnis að slíkir skilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú tilheyra Arion banka, væru sama marki brenndir. Samkvæmt ákvörðuninni fellur þó utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um uppgjörskröfur einstaklinga vegna ofgreiddra vaxta og þarf því hver og einn að sækja rétt sinn sérstaklega, sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu sem komu fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um eftirlit stofnunarinnar (þskj. 687 - 148. löggj.) er meðal annars í verkahring hennar að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.

Read more...

Alþingi fékk rangar upplýsingar um nauðungarsölur

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar þingmanns, um nauðungarsölur, fjárnám og gjaldþrot hjá einstaklingum árið 2018, var birt á vef Alþingis 31. maí síðastliðinn.

Í svarinu sem unnið er af Þjóðskrá, eru birtar tölur yfir árin 2008 - 2018 sem eru því miður rangar hvað varðar nauðungarsölur og koma alls ekki heim og saman við upplýsingar sem aflað var beint frá embættum sýslumanna samkvæmt svari við sambærilegri fyrirspurn 15. ágúst 2018.

Því hefur nú verið slegið upp í fjölmiðlum að nauðungarsölur hjá einstaklingum hafi einungis verið 69 árið 2018 samkvæmt þessum nýju tölum, sem er algjörlega fráleitt. Einföld talning á vef sýslumanna leiðir í ljós að 446 framhaldsuppboð voru auglýst árið 2018. Það er því ljóst að eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis við úrvinnslu Þjóðskrár.

Samanburður á þessum tveimur svörum dómsmálaráðherra sýnir að í tölum þessara ára eru yfir 6.500 nauðungarsölur vantaldar í gögnum Þjóðskrár. Svo dæmi sé tekið voru nauðungarsölur flestar árið 2010 eða 1.574 talsins samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættunum sjálfum, en samkvæmt tölum Þjóðskrár eru þær sagðar hafa verið einungis 13 það ár.

Aðrar tölur í umræddu svari samræmast þó fyrri upplýsingum. Samkvæmt þeim hefur lítið dregið úr fjárnámum hjá einstaklingum sem voru yfir tólf þúsund árið 2018 og þar af hátt í tíu þúsund árangurslaus. Á tímabilinu 2008-2018 voru því samtals gerð um 164.000 fjárnám og þar af um 127.000 árangurlaus. Jafnframt er ekkert lát á gjaldþrotum einstaklinga sem voru 312 árið 2018 og fjölgaði um 22 frá fyrra ári, en samtals hafa 3.284 einstaklingar orðið gjaldþrota á tímabilinu.

Þessar tölur ættu að fá alla til að staldra við. Það er ekkert eðlilegt við tölur af þessari stærðargráðu í 350.000 manna samfélagi. Hér hefur eitthvað farið stórkostlega úrskeiðis!

Hagsmunasamtök heimilanna harma þau mistök sem hljóta af hafa orðið við samantekt Þjóðskrár varðandi nauðungarsölur og hafa farið fram á leiðréttingu frá stofnuninni auk þess sem þau beina því til dómsmálaráðherra að sjá til þess að Alþingi fái réttar upplýsingar sem fyrst.


 

 

Samanburður á tölum frá sýslumannsembættum og Þjóðskrá um nauðungarsölur hjá einstaklingum 2008-2018:

 

Ártal

Sýslumenn

Þjóðskrá

Mismunur

2008

549

9

540

2009

778

9

769

2010

1.574

13

1.561

2011

1.306

11

1.295

2012

1.273

9

1.264

2013

1.349

1.008

341

2014

568

449

119

2015

675

590

85

2016

547

438

109

2017

227

168

59

2018

446

69

377

Samtals *

9.292

2.773

6.519

* Auk þess hafa a.m.k. 349 fasteignir verið seldar vegna greiðsluaðlögunar.

 

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Ágætu félagsmenn og annað áhugafólk um málefni heimilanna.

Opinn fundur fyrir félagsmenn og aðra áhugasama verður haldinn þriðjudagskvöldið 4. júní næstkomandi kl. 20-22 í sal Hjálpræðishersins í Álfabakka 12 (Mjóddinni).

Við hvetjum félagsmenn og aðra áhugasama til að fjölmenna enda er margt á döfinni framundan og því enginn skortur á umræðuefnum!

Read more...

Afstaða HH til þriðja orkupakkans

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir andstöðu við svokallaðan þriðja orkupakka í óbreyttri mynd.

Samtökin beina því til utanríkisráðherra og alþingismanna að nýta sér 102. grein EES samningsins og sækja um undanþágu frá þriðja orkupakkanum, enda tengist landið ekki orkumarkaði ESB.

Aðstæður á Íslandi er allt aðrar en á meginlandi Evrópu og við berum ábyrgð gagnvart börnum okkar og barnabörnum á að engin vafi leiki á að orkan okkar verði alltaf sameign þjóðarinnar. Það má aldrei vera háð neinum lögfræðilegum vafa eða einföldum meirihluta á Alþingi.

Hagsmunasamtökin vilja jafnframt benda á að hvorki ráðherrar, stjórnmálaflokkar, valdir sérfræðingar eða aðrir sem mæla með þriðja orkupakkanum, munu bera nokkra ábyrgð á gjörðum sínum þegar afleiðingar þeirra skella af fullum þunga á komandi kynslóðum.

Skammt er að minnast skelfilegra aðgerða í kjölfar hrunsins, þar sem heimilum landsins var fórnað á altari markaðsaflanna, í samráði við valda „sérfræðinga“.

Þá var þingi og þjóð sagt að um góðar aðgerðir til hjálpar heimilunum væri að ræða. Raunin reyndist önnur og síðan hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur glatað heimilum sínum auk þess sem gerð hafa verið 117.000 fjárnám hjá 340.000 manna þjóð á 10 árum.

Enginn einasti þeirra ráðamanna sem að þessum aðgerðum stóðu hafa fengist til að svara fórnarlömbum sínum einu orði um gjörðir sínar og á engan hátt borið nokkra ábyrgð á þeim þrátt fyrir eyðilegginguna sem þær höfðu í för með sér.

Sporin hræða. Stjórnmálamenn, eftir ráðgjöf valinna sérfræðinga, einka- og markaðsvæddu bankana með skelfilegum afleiðingum ásamt því að gefa yfirráðin yfir fiskimiðunum okkar til fárra útvaldra sem síðan hafa makað krókinn.

Endurtökum ekki mistök fortíðarinnar. Höldum orkunni okkar í þjóðareigu því þar liggja hagsmunir heimilanna um alla framtíð.

Sjá nánar í umsögn HH um málið á vef Alþingis.

Read more...

Opið bréf til Umboðsmanns skuldara

vegna morgunverðarráðstefnu í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja þann 25. mars 2019

 Sæl Ásta Sigrún,

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna lýsum furðu okkar á samstarfi embættis Umboðsmanns skuldara við Samtök fjármálafyrirtækja og teljum fyrirhugaða morgunráðstefnu í samstarfi við þau vera kalda kveðju til skjólstæðinga embættis þíns.

Frá hruni hafa lántakendur mátt sitja undir skelfilegum yfirgangi fjármálafyrirtækja eins og þínu embætti ætti að vera fullkunnugt um, enda stofnað til þess  að aðstoða þá sem lentu í klónum á þessum fyrirtækjum í kjölfar hrunsins.

Þér ætti því líka að vera fullkunnugt um að frá hruni hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur misst heimili sín í hendurnar á þessum fyrirtækjum og kennitöluflökkurum, oft vegna ólögmætra aðgerða þeirra.

Aukin heldur hafa 117.000 árangurslaus fjárnám verið gerð frá hruni af þessum sömu fyrirtækjum.

117.000 í 340.000 manna þjóðfélagi!

Á bak við þessa ótrúlegu tölu eru nokkrir tugir þúsunda einstaklinga sem hafa verið svipt „fjárhagslegum réttindum“ sínum, þau eiga þannig ekki kost á lánafyrirgreiðslum, kreditkortum eða nokkru því sem þarf til að geta verið virkur þátttakandi í samfélaginu.

Þetta veist þú og þú ættir einnig að vita að þessum aðgerðum fjármálafyrirtækjanna er ekki enn lokið, þau eru enn þá að valta yfir heimili landsins í krafti yfirburðastöðu sinnar.

Við viljum líka minna á að fjárhagsleg, sem og andleg áhrif þessara aðgerða fjármálafyrirtækjanna á einstaklinganna sem fyrir þeim urðu, eru langvarandi. Margir, meðal annars þínir skjólstæðingar, munu sitja uppi með afleiðingarnar allt sitt líf og við sjáum þær einnig í auknum kvíða hjá bæði  börnum og fullorðnum, ásamt kulnun, svo ekki sé minnst á skelfilegan leigumarkað sem mörg fórnarlömb fjármálafyrirtækjanna eru föst á.

Með fyrirhuguðum morgunverðarfundi ert þú að taka þér stöðu við hlið Samtaka fjármálafyrirtækja því hann er svo til algjörlega í höndum þeirra:

Yfirlögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja setur fundinn
Sviðstjóri hjá Arion banka heldur erindi og situr í pallborði
Framkvæmdarstjóri Framtíðarinnar, lánafyrirtækis í eigu Gamma, heldur erindi
Stjórnarformaður Creditinfo heldur erindi og er í pallborði
Verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja stýrir pallborðsumræðum
Framkvæmdarstjóri Almenna lífeyrissjóðsins er fundarstjóri

Fulltrúar neytenda eru eftirfarandi:

Umboðsmaður skuldara
Formaður neytendasamtakanna
Sviðsstjóri hjá Neytendastofu

6 – 3 fyrir fjármálafyrirtækjunum!

Fyrir utan það að staðan sé augljóslega Samtökum fjármálafyrirtækja í vil, þá verður því miður að segjast að engin ykkar sem eruð talsmenn neytenda í þessum fundi, hafið verið talsmenn réttinda  neytenda á fjármálamarkaði hingað til.

Formaður Neytendasamtakanna á meira að segja rætur að rekja til fjármálafyrirtækjanna sem lengi vel voru helstu stuðningsaðilar hans.

Öllum sem fylgst hafa fylgst með málum ætti að vera það fullljóst að þeir einu sem virkilega hafa barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði frá hruni eru Hagsmunasamtök heimilanna.

Þeim var ekki boðin þátttaka og hafa ekki einu sinni fengið boð um að mæta á þennan fína fund.

Hvernig getur þú Ásta Sigrún, í ljósi sögunnar og hlutverks embættis Umboðsmanns skuldara, varið þetta samstarf með Samtökum fjármálafyrirtækja?

Þessi fundur er eins og blaut tuska framan í skjólstæðinga þína og alla þá sem lent hafa í “aðgerðum” fjármálafyrirtækjanna frá hruni.

Með þessu samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja er embætti Umboðsmanns skuldara að taka sér stöðu með þeim sem valdið hafa bæði skjólstæðingum þess, félagsmönnum Hagsmunasamtakanna heimilanna og raunar landsmönnum öllum ómældum skaða sem mun seint eða aldrei verða að fullu bættur.

Hagsmunasamtök heimilanna

Read more...

Niðurstöður aðalfundar Hagsmunasamtaka heimilanna 2019

Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2019 var haldinn 26. febrúar síðastliðinn. Á fundinum var kosin ný stjórn sem hefur nú skipt með sér verkum og er skipuð þannig:

  • Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður
  • Vilhjálmur Bjarnason varaformaður
  • Guðrún Bryndís Harðardóttir gjaldkeri
  • Einar Valur Ingimundarson ritari
  • Guðrún Indriðadóttir meðstjórnandi
  • Hafþór Ólafsson meðstjórnandi
  • Róbert Þ Bender meðstjórnandi

Varamenn: Sigríður Örlygsdóttir, Björn Kristján Arnarson, Þórarinn Einarsson, Ragnar Unnarsson, Sigurbjörn Vopni Björnsson og Stefán Stefánsson.

Þau hafa öll starfað áður í stjórn samtakanna.

Aðalfundurinn samþykkti að félagsgjöld 2019 skuli vera 4.900 kr. og valkvæð sem fyrr.

Þá voru skoðunarmenn reikninga samtakanna, Sigfríð Gerður Hallgrímsdóttir og Sólveig Sigurgeirsdóttir, endurkjörnar.

Loks samþykkti aðalfundurinn eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna ítrekar áskorun samtakanna til stjórnvalda um að láta fara fram óháða rannsókn á þeim aðgerðum sem stjórnvöld stóðu fyrir eftir hrun. Brýn þörf er á sambærilegri rannsóknarskýrslu og þeirri sem gerð var um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna en nú þarf að fjalla um aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins og afleiðingar þeirra fyrir heimili landsins.

Við höfum beðið réttlætis í 10 ár og nú er nóg komið. Við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Read more...

Ársskýrsla HH 2018-2019

Samkvæmt venju eru fundargögn birt á heimasíðu samtakanna í aðdraganda aðalfundar í formi ársskýrslu sem inniheldur jafnframt allar upplýsingar um efni aðalfundarins samkvæmt boðaðri dagskrá.

Félagsmenn eru minntir á aðalfundinn kl. 20:00 þriðjudaginn 26. febrúar 2019, á Hótel Cabin Borgartúni 32 (7. hæð).

Þegar framboðsfrestur rann út höfðu borist eftirfarandi tilkynningar um framboð.

Aðalstjórn:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Einar Valur Ingimundarson
Guðrún B. Harðardóttir
Guðrún Indriðadóttir
Hafþór Ólafsson
Róbert Þ Bender
Vilhjálmur Bjarnason

Varastjórn:

Björn Kristján Arnarson
Ragnar Unnarsson
Sigríður Örlygsdóttir
Sigurbjörn Vopni Björnsson
Stefán Stefánsson
Þórarinn Einarsson

Ársskýrsla Hagsmunasamtaka heimilanna 2018-2019

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna