Menu
RSS

Vegna bilunar í póstkerfi Vodafone hefur fundarboð um aðalfund HH ekki borist öllum félagsmönnum

Stjórn HH hefur verið gert viðvart um að sumir félagsmenn hafi ekki fengið fréttabréf sem sent var út til að boða aðalfund samtakanna. Eftir athugun hefur komið í ljós að vandamálið er bundið við netföng á lénum sem hýst eru hjá Vodafone. Stjórn HH harmar þetta og vonar að tilkynningar um aðalfundinn hafi þrátt fyrir þetta borist viðkomandi félagsmönnum, en þær voru birtar hér á heimasíðunni og á Facebook síðu samtakanna.

Aðalfundur HH 2014 verður sem áður sagði haldinn fimmtudaginn 15. maí kl. 20 í sal Stýrimanna skólans við Háteigsveg. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á fundinn!

 

Read more...

Framboð til stjórnar HH 2014-2015

Framboð í aðalstjórn:

  • Vilhjálmur Bjarnason,
  • Pálmey Gísladóttir,
  • Guðrún Harðardóttir,
  • Páll Böðvar Valgeirsson,
  • Róbert Bender,
  • Sigrún Jóna Sigurðardóttir,
  • Þórarinn Einarsson

 

Framboð í varastjórn:

Guðrún Indriðadóttir,

Jóhann Rúnar Sigurðsson

 

Pálmey Gísladóttir

Ég heiti Pálmey Gísladóttir. Ég gaf kost á mér til stjórnarsetu  á aðalfundi HH í  maí í fyrra og náði kjöri í aðalstjórn.

Ég hef ákveðið að gefa aftur kost á mér til setu í stjórn HH og fæ vonandi að halda áfram því starfi sem við hófum þegar eftir kosningarnar 2013. Ég óska eftir stuðningi ykkar félagsmanna HH til áframhaldandi stjórnarsetu.

Ég, eins og velflestir, hef ekki farið varhluta af ástandinu frá hruni. Atvinnuleysi, eignamissi, baráttu við fjármálastofnanir, úrræðaleysi og vanmætti sem hafa verið fylgifiskar okkar almennings frá því  í október 2008. Ég, eins og þið, hef fylgst með ótrúlegum svikum af hálfu stjórnvalda og fjármálastofnana. Svikum sem virðist ekki ætla að linna. Þar sem gegndarlausum  brotum á réttindum okkar almennings á nánast öllum sviðum stjórnsýslunnar er haldið áfram eins og það sé enginn morgundagur. Eyðilegginguna á lífi almennings, okkar lífi og framtíð landsins. Virðingarleysi fjármálastofnana, stjórnvalda og alþingis.

Það er auðvelt að gefast upp þegar svona er komið en ég tók þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að láta fólk sem væri slétt sama um mig og mína ráða því hvernig mér liði frá degi til dags. Ég ákvað að berjast og leggja mitt af mörkunum svo að við, íslenskur almenningur, náum fram rétti okkar. Aldrei að gefast upp.

Ég hef núna í maí setið í stjórn Hagsmunasamtaka Heimilanna í heilt ár, nánar tiltekið sem varaformaður HH. Þetta hefur verið ákaflega annasamt og lærdómsríkt ár. Maður hefur séð hliðar á samfélaginu sem maður vissi af, en var ekki svo mjög tengdur inn á. Séð hvernig minni stjórnmálamanna hverfur eins og dögg fyrir sólu strax daginn eftir kosningar. Séð hvernig fjármálastofnanir í landinu eru orðnar ríki í ríkinu, skapa sér sín eigin lög og hunsa landslög og dóma. Séð hvernig réttarkerfið og stjórnsýslan bregðast algerlega almenningi.

Víst hefur þetta verið annasamt og stundum erfitt en ég hefði ekki viljað missa af þessu. Ég hef notið þeirra forréttinda að hafa fengið tækifæri til að leggja mitt af mörkunum á þeirri vegferð sem almenningur í landinu er á, vegferð til réttlætis og mannsæmandi lífskjara.

Það hefur mikið áunnist en við eigum líka töluvert eftir. Ég er þess fullviss að við náum okkar málum fram, við megum aldrei efast og aldrei gefast upp. Ég veit að þetta er hægt og einn daginn þegar við lítum til baka þá spyrjum við okkur í forundrun: Hvernig datt einhverjum í hug að við gætum þetta ekki.

Það stendur einhverstaðar að trúin flytji fjöll. Í okkar tilfelli erum það við, íslenskur almenningur sem ætlar að flytja fjöll og ná fram því sem okkur ber.

 

Sigrún Jóna Sigurðardóttir

Kæru félagar.

Ég hef nú setið í varastjórn Hagsmunasambands heimilanna í tvö ár. Á þessum tíma hef ég kynnst baráttumálum samtakanna frá hlið stjórnar og starfi  allra þeirra sem sitja í stjórn. Núna finnst mér ég geta gert meira gagn sem aðalamaður og tekið virkari þátt í því starfi. Sem varamaður hef ég getað sótt stjórnafundi og lagt mitt til málanna. Ég hef lært af því og komist að raun um að það sem ég óttaðist, var hárrétt. Þjóðfélagsmyndin er orðin brengluð af fégræðgi þeirra sem nóg hafa á kostnað þeirra sem minna mega sín. Þessi græðgi ríkir ennþá þrátt fyrir gengdarlausan siðferðisbrest þeirra sem þá réðu.  Nú snýst baráttan um það hvernig þjóðfélag við viljum búa börnum okkar og barnabörnum.

Bakgrunnur minn er mörgum kunnur. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, en menntaði mig  í garðyrkju og settist að í Eyjafjarðarsveit þar sem ég var fjárbóndi um hríð og garðyrjubóndi um 39 ára skeið. Þar ólust börnin okkar upp og menntuðu sig. Stofnuðu heimili víðsvegar um landið, eða svo má segja. Elstu barnabörnin eru nú farin að búa, og ég er flutt aftur til  borgarinnar. Öll erum við með verðtryggð lán og ekkert annað  fyrirsjáanlegt fyrir hin barnabörnin  tíu sem enn eru á barns- og unglingsaldri.

Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að verðtryggingin verði úr sögunni. Ég man vel eftir því þegar henni var komið á, þá voru launin verðtryggð líka. Svo maður hafði ekki áhyggjur, enda var ekkert útskýrt hvernig þessi verðtrygging yrðu útfærð.... svona eins og okurlán sem  voru bönnuð með lögum fáum árum áður, eða þegar ég var að alast upp.

Þegar verðtryggingin var afnumin af launum, þá héldum við að eins yrði með lánin. En svo varð ekki, og hringavitleysan byrjaði. En 2008 varð landið gjaldþrota. Þjóðin krafðist breytinga, bæði af peningavaldinu, stjórn- og eftirlitsvaldinu. Kosningar voru haldnar og baráttan um ólöglegu lánin hófst. Loforð stjórnmálamanna voru ekki efnd frekar en fyrri daginn.  Áfanga var náð með gengislánin þótt ekki hafi enn náðst sigur hjá lántakendum í þeim málum, vegna þess að sumir taka ekki mark á dómsvaldinu og komast upp með það.

Ég vil taka þátt í þessum breytingum í þjóðfélaginu. Ég veit að eldri borgari getur gert gagn og veit ýmislegt sem hinir yngri muna ekki eins vel. Og viljann vantar mig ekki. Mínir hagir hafa breyst frá síðasta aðalfundi að því leiti að ég hef unnið sem  sjálfaboðaliði hjá Fjölskylduhjálp Íslands við vikulegar matarúthlutanir frá  því í byrjun júni á síðasta ári. Þar hyggst ég halda áfram meðan vinnu minnar er þörf.

Ég biðla til félaga í Hagsmunasamtökum heimilanna um að treysta mér til áframhaldandi setu í stjórninni en núna í aðalstjórn samtakanna.

Sigrún Jóna Sigurðardóttir frá Grísará Eyjafjarðarsveit

 

Róbert Þ. Bender

Raf-, lög- og viðskiptamenntaður sáttasemjari.

Ég hef setið í aðalstjórn Hagsmunasamtaka Heimilanna síðastliðið ár. Þar hef ég notið þeirra forréttinda að vinna með góðu fólki að málefnum okkar sem berjumst fyrir því að missa ekki heimilin vegna þess þjóðfélagshruns sem varð árið 2008. Ég er þar engin undantekning og hef beitt öllum þeim vopnum er ég hef haft til að  halda nefinu upp úr vatninu, enda einn af mörgum sem ekki hafa fengið leiðréttingu sinna mála, þrátt fyrir hvern dóminn á fætur öðrum neytendum í hag.

Síðastliðið ár hefur verið ár baráttu sem borið hefur okkur öll áfram til vonar um að brátt fari að sjást til lands fyrir stóran hóp fólks, samanber nýustu fréttir þar um. Við megum ekki gefa neitt eftir og mikilvægt er að hamra járnið og halda fókus þar til við erum öll komin að landi.

Ég býð mig fram til setu í aðalstjórn HH annað ár til að fylgja eftir þeim ávinningi er unnist hefur á þessu ári allt til fullnaðar sigurs. Svo þeirri ánauð er hvílt hefur á heimilum okkar verði aflétt með sigri á réttlæti og trú á framtíðina fyrir okkur öll.

 

 

 

 

 

 

 

 

Read more...

Aðalfundur HH fimmtudaginn 15. maí 2014

Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2014 verður haldinn fimmtudaginn 15. maí kl. 20-23 í sal Stýrimannaskólans við Háteigsveg. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á aðalfundinn!

Dagskrá
1.Skipun fundarstjóra, ritara, og fundarsetning
2.Skýrsla stjórnar (byggð á annál): Vilhjálmur Bjarnason, formaður stjórnar
3.Reikningar samtakanna: Guðrún Harðardóttir, gjaldkeri stjórnar
4.Tillaga stjórnar að breytingu félagsgjalda
5.Tillögur að breytingum á samþykktum
6.Kosning aðalmanna í stjórn
7.Kosning varamanna í stjórn
8.Kosning skoðunarmanna
9.Önnur mál

Framboðsfrestur er til 15. maí kl. 20:00 á fundarstað.

Breytingatillögur við samþykktir HH má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða afhenda fundarstjóra skriflega á fundarstað.

 

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna