Menu
RSS

Áskorun frá Hagsmunasamtökum heimilanna til stjórnmálaflokka

Eftirfarandi áskorun hefur verið send stjórnmálaflokkunum frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna alla flokka, sérstaklega þá sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum, á hagsmuni heimilanna.

Allt of oft verða hagsmunir heimilanna, almennings í landinu, að afgangsstærð hjá stjórnmálamönnum.

Það eru hagsmunir heimilanna að verðtrygging sé afnumin á neytendalánum.

Afnám verðtryggingar myndi færa almenningi þá bestu kjarabót sem sögur fara af.

Engin rök eru fyrir því að heimili á Íslandi borgi 92.000 krónum meira af verðtryggða 25 milljóna húsnæðisláninu sínu í hverjum mánuði en heimili í Danmörku af jafnháu láni.

Til að eiga fyrir 92.000 krónum ofan á hverja einustu afborgun lánsins þurfa íslensk heimili að vinna sér inn fyrir 175.000 krónum aukalega í hverjum mánuði!

Orð eins og fjárkúgun, sjálftaka og rán koma óhjákvæmilega upp í hugann í þessu sambandi.

Höfum í huga að allt þetta auka fé fer beint inn í bankana engum til gangs, nema þá vogunarsjóðunum sem eru um það bil að fá þá á silfurfati, komi ný ríkisstjórn ekki í veg fyrir það!

Það er ljóst að afnám verðtryggingar á lánum heimilanna myndi auka ráðstöfunarfé heimilanna til mikilla muna og þannig væntanlega liðka mikið fyrir komandi kjarasamningum.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnmálamenn til að kynna sér það sem Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur sagt um verðtrygginguna og hvernig hún skekkir hagkerfið og dregur verulega úr áhrifamætti þeirra tækja sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða til að halda verðbólgu í skefjum.

Hagsmunasamtök heimilanna beina því til Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins að standa að alvöru velferðarstjórn og afnema/banna verðtryggingu á lánum heimilanna í eitt skipt fyrir öll.

Afnám verðtryggingar myndi lækka húsnæðiskostnað almennings verulega og þar með auka velferð og hagsæld heimilanna með raunhæfum hætti.

Afnám verðtryggingar er ekki flókin aðgerð ekki frekar en setning hennar var. Hún krefst ekki nýs gjaldmiðils, inngöngu í Evrópusambandið eða nokkurs annars.

Það eina sem þarf til að afnema verðtryggingu lána til neytenda er að bæta svohljóðandi setningu við 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001: “Neytendalán og fasteignalán til neytenda falla ekki undir ákvæði þessa kafla.”

Það eina sem til þarf er pólitískur vilji og stjórnmálamenn sem standa í lappirnar og taka þarfir almennings fram yfir þarfir fjármálafyrirtækja.

Þetta þarf ekki að setja í neina nefnd. Staðreyndirnar liggja fyrir og nú er kominn tími á framkvæmdir.

Ný stjórn gæti fært vísitölufjölskyldunni tugþúsunda kjarabætur í hverjum mánuði með einfaldri lagabreytingu.

Heimilin þurfa ríkisstjórn sem skilur að almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

F.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
Vilhjálmur Bjarnason, varaformaður

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla yfirlýsingu forsætisráðherra

Í viðtali við Ríkissjónvarpið í fréttum í gærkvöldi lýsti forsætisráðherra því yfir að hann hefði ástæðu til þess að vera bjartsýnn fyrir hönd flokksins, þrátt fyrir ólgutíma í pólitík. Það sagðist hann gera með því að byggja á því sem flokkurinn: „hafi gert, sagst ætla að gera...og síðan framkvæmt“.

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla þessari yfirlýsingu forsætisráðherra og minna á að helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins var að afnema verðtryggingu neytendalána. Þetta helsta kosningaloforð flokksins hefur hinsvegar ekki verið framkvæmt. Framsetning forsætisráðherra um verk flokksins í viðtali við RÚV, er því hvorki rétt né heiðarleg gagnvart heimilum landsins. Ríkisstjórnin hefur framkvæmt ýmis verk á kjörtímabilinu sem komið hafa heimilunum vel. Hins vegar hefur Framsóknarflokkurinn svikið kjósendur sína um sitt megin kosningaloforð sem átti að verða grundvöllur að bættum fjárhag heimilanna.

Read more...

Afskriftatími krafna vegna lána Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu styttur í þrjú ár

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli þeirra sem misst hafa fasteignir á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs og sem sótt hafa um Leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, á nýlegri breytingu á reglugerð um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, þar á meðal í þeim tilvikum sem kröfur sjóðsins hafa verið hærri en endurheimtur þeirra af söluandvirði fullnustueignar við nauðungarsölu. Með reglugerð nr. 359/2010 var stjórn Íbúðalánasjóðs heimilað að afskrifa slíkar kröfur að liðnum fimm árum frá sölu fasteignar. Í júní síðastliðnum stytti félags- og húsnæðismálaráðherra þann tíma hinsvegar niður í þrjú ár með nýrri reglugerð nr. 534/2015 á grundvelli 47. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Breytingin getur haft þýðingu fyrir hundruðir einstaklinga og fjölskyldna sem hafa misst heimili sín á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs á undanförnum fimm árum, þar sem leiða má að því líkur að í hluta þeirra tilfella séu nú þegar liðin þrjú ár eða meira frá nauðungarsölu og skilyrði fyrir afskriftum séu þar með uppfyllt. Hlutaðeigandi er bent á að einfalt er að sækja um slíkar afskriftir með því að fylla út þar til gert eyðublað sem hægt er að nálgast á heimasíðu Íbúðalánasjóðs og senda umsóknina til sjóðsins. Rétt er að benda á að í eyðublaðinu er vitnað í eldra orðalag brottfallinnar reglugerðar nr. 119/2003, þar sem var viðbótarskilyrði fyrir afskrift að skuldari hefði ekki fjárhagsgetu til að greiða kröfuna vegna ófyrirséðra eða óviðráðanlegra atvika. Með núgildandi reglugerð hefur það skilyrði hinsvegar verið fellt brott og er nú eingöngu skilyrði að þrjú ár séu liðin frá sölu fasteignar. Þá skal áréttað að úrræðið nær aðeins til lána Íbúðalánasjóðs en ekki annarra lánveitenda.

Sérstaklega getur þessi breyting haft þýðingu fyrir þá sem hafa sótt um leiðréttingu lána sem glatað hafa veðtryggingu, en hafa ekki fengið endanlegar niðurstöður birtar, til dæmis vegna endurupptöku eða athugasemda við fyrri niðurstöður sem eru til úrlausnar hjá embætti Ríkisskattsjóra eða hafa verið kærðar til úrskurðarnefndar. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum hafi þær ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda, en samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sbr. breytingu með reglugerð nr. 1160/2014, skal framkvæmdin miðast við eftirstöðvar krafna á samþykktardegi leiðréttingar. Þeir sem bíða enn eftir endanlegum niðurstöðum vegna leiðréttingarinnar og hafa misst fasteign á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs fyrir meira en þremur árum, eru þar af leiðandi hvattir til þess að sækja um afskrift á eftirstandandi skuldum við Íbúðalánasjóð áður en lokið verður við ákvörðun og samþykki leiðréttingar.

Hér má nálgast umsóknareyðublað Íbúðalánasjóðs.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna