Error
  • JUser: :_load: Unable to load user with ID: 689
Menu
RSS

Telur Hæstiréttur íslenska ríkið bera ábyrgð á óréttmæti verðtryggingar?

Hæstiréttur Íslands kvað þann 13. maí síðastliðinn upp dóm í máli 160/2015 þar sem tekist var á um fjárnám á grundvelli verðtryggðs fasteignaláns. Þá um kvöldið var svo fullyrt í umfjöllun fjölmiðla, þar á meðal RÚV, að með dómnum hefði verðtryggingin staðist áhlaup af hendi Hagsmunasamtaka heimilanna. Daginn eftir var nánast fullyrt, og aftur af hálfu RÚV, að málið væri fordæmisgefandi fyrir ōll ōnnur dómsmál gegn verðtryggingunni. Eftir að hafa kynnt okkur dóminn telja Hagsmunasamtök heimilanna hinsvegar að fullyrðingar í þá átt séu ótímabærar, og þvert á móti sé mörgum spurningum enn ósvarað. Rétt er að taka fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa enga aðkomu að því máli sem dæmt var um, heldur mun mál sem félagsmenn í samtökunum eiga aðild að líklega verða flutt fyrir Hæstarétti með haustinu.

Það mál sem hér um ræðir sneri að miklu leyti að því hvort verðtrygging sem slík gæti talist óréttmætur skilmáli samkvæmt reglum á sviði neytendaverndar sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Niðurstaðan er að svo sé ekki sem kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ávallt lagt áherslu að þó að heimilað sé með lögum að veita verðtryggð lán sé þó ekki þar með sjálfgefið að öll slík lán hljóti að vera lögleg.

Málatilbúnaður samtakanna hefur fyrst og fremst beinst að útfærslu verðtryggingar neytendalána og þeirri upplýsingaskyldu um kostnað vegna hennar sem EES-reglur um neytendalán og lög sem innleiða þær reglur hér á landi kveða á um. Hæstiréttur tekur undir það í dómi sínum að lögmæti slíkra lána sé einmitt háð þessum sömu skilyrðum, en beygir hinsvegar af leið með því að skýra ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 á þá leið að í því hafi falist það skilyrði að miða skyldi greiðsluáætlun við 0% verðbólgu. Þetta er hinsvegar í andstöðu við Tilskipun 87/102/EBE um neytendalán eins og hún varð skýrð með ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/13.

Þessi niðurstaða skýtur skökku við, því ákvæðið sem um ræðir kveður skýrt á um að veita skuli greinargóðar upplýsingar um allan kostnað og gjöld sem neytandi muni þurfa að greiða vegna lántöku. Þar með taldar hljóta að vera verðbætur, sem eru ávallt þekktar á lántökudegi því lögum samkvæmt skal miða við vísitölu síðasta mánaðar og auk þess eru breytingar á henni undanliðna 12 mánuði ávallt þekktar, þ.e. ársverðbólga. Þannig hefðu upplýsingar um kostnaðinn með réttu átt að endurspegla slíkan veruleika, en á hinn bóginn er tæpast raunhæft að miða við 0% verðbólgu, enda var það varla ætlan löggjafans á sínum tíma miðað við fyrirliggjandi gögn þar að lútandi.

Enn fremur telja Hagsmunasamtök heimilanna það áhyggjuefni að í dómi Hæstaréttar skuli ekki gerður skýrari greinarmunur en raun ber vitni á annars vegar vísitölu neysluverðs sem mælikvarða, og hinsvegar þeim fjárhæðum sem neytendur þurfa að greiða í verðbætur af verðtryggðum lánum vegna breytinga á þeim mælikvarða, sem til langs tíma hefur nánast alltaf verið til hækkunar og verið íþyngjandi fyrir neytendur. Loks er það varhugavert að í dómnum er því beinlínis haldið fram að óréttmæti verðtryggðra neytendalána hér á landi sé rangri innleiðingu EES-tilskipunar um að kenna, sem getur mögulega leitt til skaðabótaskyldu ríkisins. Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að lánveitendur hefðu mátt vita betur um hvernig þeim væri skylt að haga upplýsingagjöf til neytenda um kostnað í formi verðbóta, og verði því að axla ábyrgð á því að hafa brotið gegn þeim skyldum. Það geti því ekki talist sanngjörn útkoma að leggja þá ábyrgð á herðar íslenska ríkisins.

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna ósátt við ítrekaðar frávísanir neytendamála

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að máli vegna kvörtunar sem samtökin beindu til Neytendastofu, hefur verið vísað frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Frávísunin byggist á því mati að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki lögvarða hagsmuni af aðild að slíku máli. Þar með hefur HH verið gert erfitt fyrir að verja hagsmuni þeirra sem til samtakanna leita. HH hafa ítrekað reynt að koma kvörtunum og málum er varða neytendavernd á framfæri til úrlausnar, en oftar en ekki hefur slíkum málum verið vísað frá hlutaðeigandi stofnunum og dómstólum.

Kvörtunin sneri að svokölluðu vaxtagreiðsluþaki Íslandsbanka, sem er þó ekki þak heldur einskonar greiðslujöfnun eða greiðsludreifingu vaxta, og er hugtakið því villandi að mati HH. Með ákvörðun nr. 24/2014 þann 16. maí 2014, féllst Neytendastofa ekki á að svo væri og taldi þar af leiðandi ekki ástæðu til að grípa til aðgerða. HH áfrýjuðu ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar neytendamála, en með úrskurði sínum þann 24. mars vísaði nefndin málinu nr. 12/2014 frá sér eins og áður segir.

HH eru afar ósátt við frávísunina, sem er enn ein birtingarmynd þess hve erfitt samtökum á sviði neytendaverndar er gert að leita réttar fyrir hönd félagsmanna sinna og neytenda almennt. Þó svo að niðurstaða nefndarinnar sé vel rökstudd með vísan til gildandi laga, þá er það fyrst og fremst merki um að gera þurfi úrbætur á þeim lögum. Helsti ávinningur málsins er því að hafa upplýst vel um þau atriði sem er ábótavant í lögum á þessu sviði og þarfnast úrbóta.

Samkvæmt reglum um neytendavernd sem gilda hér á landi á grundvelli EES-samningsins, ber að sjá til þess að neytendum og samtökum þeirra standi til boða skilvirk úrræði til þess að gæta réttinda neytenda með atbeina stjórvalda og dómstóla. Það veldur HH verulegum vonbrigðum að þær reglur skuli ekki hafa náð að koma til framkvæmda hér á landi af þeim myndarskap sem vonast hefði mátt til.

Hagsmunasamtök heimilanna harma það skeytingarleysi gagnvart EES-samningnum sem í þessu birtist, ekki síst í ljósi þeirrar yfirlýstu stefnu núverandi ríkisstjórnar að byggja eigi samstarf Íslands við önnur Evrópuríki fyrst og fremst á grundvelli EES-samningsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem litið er framhjá hagsmunum neytenda og harmar HH að ekki skuli vera meiri vilji af hálfu opinberra aðila til að verja almennan rétt neytenda og framfylgja alþjóðlegum reglum á því sviði.

Þrátt fyrir að almennt sé hægt að bera ákvarðanir og úrskurði stjórnvalda undir dómstóla stendur ekki til að gera það í þessu tilviki, enda eru hverfandi líkur á að það myndi leiða til annarrar niðurstöðu. Hinsvegar munu samtökin beita sér fyrir og gera tillögur um úrbætur á hlutaðeigandi lögum, með hliðsjón af nytsamlegum athugasemdum um þau sem koma fram í úrskurði nefndarinnar.

Read more...

Dómsmáli HH um verðtryggð neytendalán áfrýjað til Hæstaréttar

Dómsmáli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka fyrir hjón sem eru félagsmenn í HH hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Málið var upphaflega höfðað árið 2012 gegn Íbúðalánasjóði og er tilgangurinn með því að láta reyna á lögmæti kynningar verðtryggðra neytendalána. Þess er krafist í málinu að skilmálar láns hjónanna um verðtryggingu verði dæmdir óskuldbindandi þar sem þeim var ekki kynntur heildarlántökukostnaður lánsins við lántökuna líkt og lög gerðu ráð fyrir.

Þess má geta að samkvæmt niðurstöðum þjóðmálakönnunar Félagsvísindastofnunar HÍ í júni 2014 töldu 89% aðspurðra mjög eða frekar mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu um það fyrir dómstólum hvort verðtrygging neytendalána kunni að hafa verið ólöglega framkvæmd og kynnt frá árinu 2001 eftir að húsnæðislán voru þá sett inn sem neytendalán.

Ljóst er að niðurstaða málsins gæti leitt til verulegrar lækkunar húsnæðisláns stefnenda, ef fallist yrði á kröfur þeirra. Til merkis um það má nefna að sá héraðsdómari sem málinu var úthlutað til, vildi í fyrstu segja sig frá því vegna vanhæfis, þar sem hann væri væri sjálfur með verðtryggt húsnæðislán og ætti því verulegra hagsmuna að gæta af málinu. Sá úrskurður var kærður til Hæstiréttar sem sneri honum við og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Eftir að málið hófst árið 2012 var því fyrst vísað frá dómi af tæknilegum ástæðum. Með breyttum málatilbúnaði var því svo endurstefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í nóvember 2013. Eftir ítrekaðar tafir og bið eftir ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins í tveimur sambærilegum málum, var mál hjónanna loks tekið til efnislegrar aðalmeðferðar 5. janúar síðastliðinn. Þann 6. febrúar kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í málinu, þar sem var í meginatriðum fallist á allar helstu málsástæður okkar í málinu. Dómurinn taldi einhverra hluta vegna þær ástæður ekki nægilega veigamiklar til þess að leiða til ógildingar verðtryggingarskilmálanna, en með áfrýjun mun það koma til kasta Hæstaréttar Íslands að skera úr um afleiðingar þess að lánið sem um ræðir hafi verið ólöglega úr garði gert.

Hagsmunasamtök heimilanna munu fyrir 13. maí skila greinargerð sinni til Hæstaréttar, og  Íbúðalánasjóður fær þá líklega frest fram að 11. júní til að skila sinni greinargerð. Málið verður í kjölfarið sett á dagskrá Hæstaréttar, og tekið til meðferðar þar síðar á þessu ári, en búast má við að dómur geti fallið í Hæstarétti með haustinu. Hagsmunasamtök heimilanna binda að sjálfsögðu vonir við að fallist verði á málsástæður og kröfur stefnenda málsins, enda gæti það leitt til verulegrar lækkunar verðtryggðra neytendalána, og stuðlað að því að leysa þann skuldavanda sem íslensk heimili hafa mátt glíma við allt frá fjármálahruninu sem varð árið 2008.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna