Menu
RSS

Stærsta skaðabótamál Íslandssögunnar

Málflutningur í skaðabótamáli gegn Íslenska ríkinu, í máli nr. E-514/2018, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur miðvikudaginn 30. janúar kl. 13:15 í dómsal 201.

Nú er loksins komið að málflutningi í skaðabótamáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðra neytendalána gegn íslenska ríkinu. Það er óumdeilt og var staðfest af EFTA dómstólnum árið 2014, að reglur um upplýsingagjöf til neytenda sem tóku verðtryggð lán, voru þverbrotnar á árunum 1994-2013, þar á meðal í húsnæðislánum frá 2001. Öll verðtryggð neytendalán sem voru veitt á þessu tímabili eru því undir í málinu, en ljóst er að þau skipta tugum þúsunda.

Eftir dóm EFTA dómstólsins árið 2014 um að brotið hefði verið á neytendum, kom Hæstiréttur Íslands sér undan því að úrskurða neytendum í vil með því að vísa ábyrgðinni yfir á Alþingi. Sá dómur gerði þó ekki annað en að tefja málið því hvort sem Hæstiréttur er ábyrgur fyrir brotinu eða Alþingi, hlýtur niðurstaðan að vera sú sama: Brotið var á neytendum og ríkið er ábyrgt á hvorn veginn sem er.

Að ríkið sé orðið skaðabótaskylt í staðinn fyrir bankana er ekki það sem stefnt var að í byrjun, fyrir allt of mörgum árum síðan, þegar málið var höfðað gegn lánveitanda, en fyrst svo er komið má ekki selja bankana frá ríkinu fyrr en búið er að gera þetta mál upp við lántakendur.

Þegar niðurstaða er komin í þetta stærsta hagsmunamál íslenskra heimila, gerum við ráð fyrir að verðtrygging á lánum heimilanna verði afnumin á Íslandi þannig að láns- og vaxtakjör verði hér sambærileg og í þeim löndum sem við miðum okkur almennt við. Enda þekkist verðtrygging ekki á lánum heimilanna sem megin lánakostur í þessum löndum. Annars vegar vita stjórnvöld þeirra landa að ef verðtrygging yrði sett almennt á lán heimilanna myndu hagkerfi þeirra hrynja og aðalstjórntæki seðlabanka þeirra ekki virka. Hins vegar myndi almenningur í þessum löndum ALDREI láta bjóða sér verðtryggð lán til heimila með okurvöxtum þar ofan á.

Þetta er kjarni málsins, eins og var nánar rakið í fréttatilkynningu sem var upphaflega send fjölmiðlum 14. nóvember sl. áður en aðalmeðferð málsins var frestað af dómskerfinu.

Read more...

Kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu

Hagsmunasamtök heimilanna leita nú réttlætisins á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu. Kæra hefur verið verið send til dómstólsins vegna úrlausnar mála er varða gengistryggð lán af hálfu íslenskra stjórnvalda og dómstóla.

Með því að víkja sérstökum lögum um neytendalán til hliðar í trássi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES samningnum og leggja margfalt hærri vexti en um var samið á lán sem voru með ólöglegri gengistryggingu, hafa íslenskir neytendur verið sviptir mikilvægum grundvallarréttindum sínum. Kæran byggist á því að með þeim hætti hafi verið brotið gegn þeirri friðhelgi sem eignarréttur skal njóta samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og 72 gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem ekki hafi verið gætt jafnræðis við úrlausn slíkra mála.

Áður en hægt er að skjóta máli til Mannréttindadómstóls Evrópu þarf að vera búið að láta reyna á öll möguleg úrræði innan lands. Margoft hefur verið látið reyna á sérstök réttindi neytenda í málum sem þessum fyrir íslenskum dómstólum, en að mati samtakanna var það fullreynt með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 636/2017. Þar sem það hafði verið metið sem ákjósanlegt fordæmismál var ákveðið að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Kæran var send í vikunni fyrir jól og afhent til dómstólsins í dag, aðfangadag 24. desember 2018. Með því að koma slíku máli fyrir erlendan fjölþjóðlegan dómstól, hafa samtökin náð mikilvægum áfanga í baráttu sinni fyrir réttindum íslenskra neytenda á fjármálamarkaði.

Fyrsta skrefið í málsmeðferð dómstólsins er að kanna hvort málið uppfylli nauðsynleg skilyrði til að hljóta efnislega úrlausn. Erfitt er að segja til um hvenær ákvörðun um það muni liggja fyrir, en vonast er til að það skýrist nánar snemma á nýju ári 2019. Nánari upplýsingar munu Hagsmunasamtök heimilanna veita á heimasíðu samtakanna www.heimilin.is eftir því sem framvinda málsins gefur tilefni til.

ATH! Málarekstur sem þessi er kostnaðarsamur og verður enn kostnaðarsamari ef til efnislegrar málsmeðferðar kemur, eins og vonir standa til. Við minnum því á að beina má frjálsum framlögum í málskostnaðarsjóð Hagsmunasamtaka heimilanna með því að leggja inn á reikning nr. 1110-05-250427, kt. 520209-2120. Öll framlög stór sem smá nýtast til að leita réttlætis fyrir neytendur á íslenskum fjármálamarkaði.

Read more...

Málflutningur í skaðabótamáli vegna verðtryggðra neytendalána

ATH. Fréttin hefur verið uppfærð: Þann 15. nóvember tilkynnti Héraðsdómur Reykjavíkur að fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins nr. E-514/2018 yrði að fresta af óviðráðanlegum orsökum.

Síðan framangreind breyting var gerð hafa borist þær upplýsingar í millitíðinni að ný tímasetning aðalmeðferðar sé komin á dagskrá héraðsdóms þann 30. janúar 2019 kl. 13:15.

Málflutningur í skaðabótamáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðra neytendalána og vanrækslu á upplýsingaskyldu fjármálastofnana um kostnað vegna verðtryggingar, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 16. nóvember.

Sérstaða málsins felst í því að á hvorn veginn sem málið fer verður niðurstaðan Hagsmunasamtökum heimilanna í vil. Aðeins þarf að fá úr því skorið hvort innleiðing Alþingis á þeim neytendarétti sem um ræðir í málinu hafi verið röng sem gerir Alþingi ábyrgt eða þá að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 hafi verið rangur sem gerir Hæstarétt og dómskerfið ábyrgt.

Málið er höfðað vegna hins fyrrnefnda dóms Hæstaréttar Íslands þar sem reyndi á afleiðingar þess að við lántöku höfðu ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif verðtryggingar á lánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum um neytendalán. Þrátt fyrir að EFTA-dómstólinn teldi að taka yrði mið af áhrifum verðtryggingar við útreikning lánskostnaðar, ákvað Hæstiréttur Íslands hins vegar að túlka íslensk lög þveröfugt þannig að ekki hefði þurft að veita neinar upplýsingar um kostnað af völdum verðtryggingar.

Hvort sem um er að ræða ranga túlkun Hæstaréttar eða að íslensk lög hafi verið í beinni andstöðu við tilskipun EES um neytendalán, eru slík brot gegn EES reglum almennt skaðabótaskyld. Hefðu þær reglur sem um ræðir komist rétt til framkvæmda hefði átt að vera óheimilt að innheimta þann kostnað sem ekki var réttilega upplýst um. Tjón lántakenda er bein afleiðing þess að þeir hafi ekki notið þeirrar verndar sem í þessu átti að felast þegar á reyndi. Fyrir dómi er því krafist skaðabóta sem nema öllum aukakostnaði sem greiddur hefur verið vegna verðtryggingar viðkomandi láns.

Málarekstur þessi er beint framhald af dómsmáli sem var fyrst höfðað árið 2012 og hefur nú leiðst í þennan farveg. Markmið Hagsmunasamtaka heimilanna með þessum málarekstri hefur verið að ná fram fordæmisgefandi dómi um fulla leiðréttingu ólögmætrar verðtryggingar. Allar líkur eru á því að fordæmisgefandi dómur um þetta úrlausnarefni geti haft verulega þýðingu fyrir neytendur sem tóku almenn neytendalán frá og með árinu 1994 og þar með talin húsnæðislán frá og með 2001.

Málarekstur sem þessi er dýr og öll framlög eru vel þegin til að styðja Hagsmunasamtökin hagsmunabaráttu heimilanna frammi fyrir dómstólum. Tekið er við framlögum í málskostnaðarsjóð Hagsmunasamtaka heimilanna með millifærslum á reikningsnúmer 1110-05-250427 kt. 520209-2120.

Málflutningur í málinu nr. E-514/2018, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 16. nóvember kl. 13:15 – 16:00 í dómsal 201.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna