Enginn lærdómur dreginn af hruninu
- Published in Frá Hagsmunasamtökum heimilanna
Við losun fjármagnshafta eru engar sértækar aðgerðir boðaðar að hálfu Seðlabankans til þess að standa vörð um hag neytenda, þeirra fjölmörgu Íslendinga sem bundnir eru verðtryggðum lánum. Þetta er ljóst af svari bankans við fyrirspurn Hagsmunasamtaka heimilanna um fyrirhugaðar aðgerðir við losun fjármagnshafta. Það er því mat Hagsmunasamtaka heimilanna að enginn lærdómur hafi verið dreginn af hruninu fyrir neytendur og heimilin í landinu. Ennþá hvílir meginþungi áhættunnar á lánamarkaði af sveiflum verðbólgunnar á neytendum og verðtryggðum lánum þeirra.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á þessari brotalöm í aðgerðum bankans og hvetur stjórnvöld til að bæta úr og draga lærdóm af hruninu fyrir heimilin í landinu og þannig þjóðarbúið í heild sinni. Heimilin eru ein grunnstoð hagkerfisins og óeðlilegt að þau beri þungan af áhættunni af sveiflum verðbólgunnar með verðbótum sem óljósri stærð í lántökukosnaði. Nauðsynlegt sé að verja heimilin ef til mikillar gengislækkunar krónunnar komi. Hagmunasamtök heimilanna hvetja til þess að stjórnvöld sýni fyrirhyggju til varnar heimilunum, svo sagan frá 2008 endurtaki sig ekki.