Menu
RSS

Skaðabótamál höfðað vegna verðtryggðra neytendalána

Skaðabótamál hefur verið höfðað vegna verðtryggðra neytendalána og vanrækslu á upplýsingaskyldu fjármálastofnana um kostnað vegna verðtryggingar.

Sérstaða málsins felst í því að á hvorn veginn sem málið fer verður niðurstaðan Hagsmunasamtökum heimilanna í vil. Aðeins þarf að fá úr því skorið hvort innleiðing Alþingis á þeim neytendarétti sem um ræðir í málinu hafi verið röng sem gerir Alþingi ábyrgt eða þá að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 hafi verið rangur sem gerir Hæstarétt og dómskerfið ábyrgt.

Málið er höfðað vegna hins fyrrnefnda dóms Hæstaréttar Íslands þar sem reyndi á afleiðingar þess að við lántöku höfðu ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif verðtryggingar á lánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum um neytendalán. Þrátt fyrir að EFTA-dómstólinn teldi að taka yrði mið af áhrifum verðtryggingar við útreikning lánskostnaðar, ákvað Hæstiréttur Íslands hins vegar að túlka íslensk lög þveröfugt þannig að ekki hefði þurft að veita neinar upplýsingar um kostnað af völdum verðtryggingar.

Hvort sem um er að ræða ranga túlkun Hæstaréttar eða að íslensk lög hafi verið í beinni andstöðu við tilskipun EES um neytendalán, eru slík brot gegn EES reglum almennt skaðabótaskyld. Hefðu þær reglur sem um ræðir komist rétt til framkvæmda hefði átt að vera óheimilt að innheimta þann kostnað sem ekki var réttilega upplýst um. Tjón lántakenda er bein afleiðing þess að þeir hafi ekki notið þeirrar verndar sem í þessu átti að felast þegar á reyndi. Fyrir dómi er því krafist skaðabóta sem nema öllum aukakostnaði sem greiddur hefur verið vegna verðtryggingar viðkomandi láns.

Málarekstur þessi er beint framhald af dómsmáli sem var fyrst höfðað árið 2012 og hefur nú leiðst í þennan farveg. Markmið Hagsmunasamtaka heimilanna með þessum málarekstri hefur verið að ná fram fordæmisgefandi dómi um fulla leiðréttingu ólögmætrar verðtryggingar. Allar líkur eru á því að fordæmisgefandi dómur um þetta úrlausnarefni geti haft verulega þýðingu fyrir neytendur sem tóku almenn neytendalán frá og með árinu 1994 og þar með talin húsnæðislán frá og með 2001.

Þar sem mál þetta hefur nú verið höfðað fyrir héraðsdómi má búast við því að í kjölfarið muni það hljóta hefðbundna málsmeðferð í dómskerfinu. Hagsmunasamtök heimilanna munu eins og hingað til senda frá sér tilkynningar um framvindu málsins eftir því sem tilefni gefst til á hverju stigi og leitast sérstaklega við að halda félagsmönnum sínum upplýstum um framgang mála.

Loks má minna á að tekið er við framlögum í málskostnaðarsjóð Hagsmunasamtaka heimilanna með millifærslum á reikningsnúmer 1110-05-250427 kt. 520209-2120. Öll framlög stór sem smá hjálpa til við að veita þessari hagsmunabaráttu heimilanna framgöngu.

Read more...

Guð blessi heimilin: Borgarafundur í Háskólabíói

Guð blessi heimilin
Okurvextir og verðtrygging, mesta böl þjóðarinnar

Undir þessari yfirskrift og í tilefni þess að 9 ár verða liðin frá bankahruninu, hafa Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) og Verkalýðsfélag Akraness (VLFA), boðið Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) og öllum landsmönnum til opins fundar laugardaginn 7. október milli 14:00 og 16:00 í Háskólabíói.

Fundurinn verður haldinn í aðalsal Háskólabíós og einnig verður sjónvarpsskjám komið fyrir í anddyri þannig að sem flestir komist að. Auk þess verður fundinum streymt á netinu svo enginn ætti að missa af honum sem ekki á heimangengt, er búsettur úti á landi eða erlendis. [Opna í sérglugga hér.]

Ræðumenn og fyrirlesarar kvöldsins verða:

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR,

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA,

Ásta Lóa Þórsdóttir formaður HH,

Ólafur Margeirsson, doktor í Hagfræði.

Einnig höfum við boðið Seðlabanka Íslands að senda fulltrúa og mun Már Guðmundsson seðlabankastjóri skýra sitt sjónarmið. Auk þess hefur öllum stjórnmálaflokkum sem bjóða fram til Alþingis hinn 28. október næstkomandi verið boðið að senda formenn eða fulltrúa sína til að kynna hvað þeirra flokkur ætlar að gera varðandi okurvextina og verðtrygginguna á lánum heimilanna og fá þeir 3 mínútur hver til þess.

Áður en við förum vongóð út í haustkvöldið munu feðginin, Magnús Þór Sigmundsson og Þórunn Antonía Magnúsdóttir, syngja með okkur lag Magnúsar "Ísland er land þitt" og þá getur ekkert klikkað.

Fundarstjóri verður Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir.

Nánari upplýsingar um viðburðinn á facebook, sem við hvetjum alla til að deila með sem flestum.

gudblessiheimilin

Uppfært 8. október 2017

Hér má sjá kynningarglærur Ólafs Margeirssonar frá fundinum þar sem ýmsar algengar mýtur um verðtryggingu eru skoðaðar og útskýrt hvers vegna þær eiga ekki við rök að styðjast.

Hér má finna tvær greinar úr Bændablaðinu um efni fundarins:

Uppfært 2. desember 2017 - Umfjöllun um fundinn og viðtal við Ólaf Margeirsson í 4. tbl. VR blaðsins:

Read more...

Hæstiréttur brást neytendum á Íslandi - HH kvarta til ESA

Hæstiréttur Íslands fór gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli Hagsmunasamtaka heimilanna um framkvæmd verðtryggðra neytendalána. Þetta er einsdæmi í sögu dómstólsins. Hæstiréttur dæmdi þvert á alþjóðlega samninga og skuldbindingar ríkisins um upplýsingaskyldu og neytendarétt.

Í nóvember síðastliðnum vógu hagsmunir fjármálastofnanna þyngra en neytendaréttur í æðsta dómsal landsins. Þessi dómur Hæstaréttar (243/2015) varpar ljósi á stöðu neytendaréttar á fjármálamarkaði á Íslandi og þá baráttu sem samtökin hafa staðið frammi fyrir í átta ár fyrir heimili landsmanna. Hagsmunasamtök heimilanna munu leita réttar íslenskra neytenda utan landssteinanna, því ekki er mögulegt að fá úr þessari réttaróvissu skorið hérlendis. Réttindabarátta samtakanna hefur því færst út fyrir landssteinana.

ESAbanner

Innan skamms munu samtökin senda formlega kvörtun til ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) um framkvæmd verðtryggðra neytendalána og brot íslenska ríkisins á alþjóðlegum samningum um neytendarétt. Þetta er fyrsta skrefið í áframhaldandi baráttu samtakanna fyrir rétti neytenda á fjármálamarkaði. Í þjóðmenningarhúsinu þann 14. mars, síðastliðinn, lagði fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna fyrirspurn fyrir Carl Baudenbacher, forseta EFTA dómstólsins um fordæmi þess að farið sé gegn ráðgefandi áliti dómstólsins innan EFTA. Vísaði hann í ofangreindan dóm Hæstaréttar sem einsdæmi í þessu tilliti en við meðferð málsins lá fyrir ráðgefandi álit EFTA dómstólsins. Forseti dómstólsins benti einnig á að með því að fara gegn alþjóðlegum samningum og áliti dómstólsins gæti aðildaríki verið skaðabótaskylt gagnvart brotaþola.

Það er ótækt að fjármálastofnanir hérlendis séu ekki bundnar sambærilegri upplýsingaskyldu og framkvæmd lánasamninga eins og víðast hvar annars staðar. Í þessu tilliti brást Hæstiréttur íslenskum neytendum.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna