Menu
RSS

Yfirlýsingar Lýsingar hf. í dómsmáli teknar gildar sem trygging fyrir hagsmunum neytenda.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) hefur ákveðið að óska eftir endurupptöku hæstaréttar á dómsmáli samtakanna gegn Lýsingu hf., þar sem krafist var lögbanns á innheimtu fyrirtækisins vegna ólögmætra gengislána (mál nr. 519/2013). Hæstiréttur kvað upp dóm þann 19. september og staðfesti þá úrskurð héraðsdóms í málinu um að hafna kröfu HH um lögbann.

Samtökin hafa heimild til lögbannsaðgerða í þágu heildarhagsmuna neytenda (á grundvelli laga nr. 141/2001) og reistu lögbannskröfu sína á þeirri heimild. Hér er um að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir lántakendur þar sem Lýsing hefur þráast við að endurreikna lán í kjölfar gengislánadóma hæstaréttar (t.d. nr. 600/2011 og nr. 464/2012) og haldið því fram að dómarnir hefðu ekki fordæmisgildi fyrir samninga fyrirtækisins.

Hæstiréttur telur að hagsmunir neytenda í þessu máli séu nægilega tryggðir með skaðabótarétti og byggir það mat á yfirlýsingum Lýsingar um meintan varasjóð í þágu skuldara, en í dómnum segir að varnaraðili (Lýsing) hafi:

“lýst því yfir að hann hafi, eftir tilmælum Fjármálaeftirlitsins 1. mars 2012 um varúðarráðstafanir í þágu skuldara vegna réttaróvissu, gripið til sérstakra öryggisráðstafana til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna sinna með stofnun varasjóðs í þágu skuldara vegna óvissu um mögulegar ofgreiðslur og að hann muni ekki ráðstafa honum fyrr en réttaróvissu hafi verið eytt. Þá hefur varnaraðili lýst því yfir í kjölfar dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, sem varði bílasamning, að hann hafi hafið undirbúning nýs útreiknings hluta samninga sinna sem áður voru gengistryggðir. Felst í yfirlýsingum þessum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir”.

Það er óneitanlega sérstakt að æðsti dómstóll landsins telji yfirlýsingar hins meinta brotlega aðila næga tryggingu fyrir því að hagsmunir meints brotaþola séu ekki fyrir borð bornir. Það skal skýrt tekið fram að Lýsing lagði engar sannanir fram um tilvist hins meinta varasjóðs eða stöðu hans. Hæstiréttur heldur því jafnframt fram í dómi sínum að Hagsmunasamtök heimilanna hafi engin haldbær gögn lagt fram sem sýni að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila. Þetta er einfaldlega rangt því samtökin lögðu einmitt fram ítarlega greinargerð þessu til stuðnings, sem byggðist meðal annars á ársreikningum Lýsingar. Þá vekur furðu að því hafi hreinlega verið hafnað að málið yrði leitt til efnislegrar niðurstöðu.

Jafnframt byggist endurupptökubeiðni HH á nýtilkomnum dómi hæstaréttar í máli Lýsingar gegn lántakanda (nr. 672/2012) og viðbrögðum Lýsingar við honum. Hæstiréttur dæmdi fyrirtækið þar til að endurgreiða lántakanda ofgreiðslur í samræmi við lög um neytendalán. Lýsing hefur skilgreint fordæmisgildi þessa dóms afar þröngt og í þeim fáu tilfellum sem fyrirtækið hefur fallist á að endurreikna samninga hefur það ekki verið gert að fullu leyti í samræmi við ítrasta rétt neytenda, samkvæmt gögnum sem samtökunum hafa borist frá neytendum.

Hér má sjá sýnishorn af skilmálum og starfsháttum Lýsingar

Read more...

Opinber tilmæli um seðlabankavexti brutu í bága við reglur

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða nr. 20/2010 frá 30. júní 2010 hafi ekki samræmst reglum um útgáfu óskuldbindandi og leiðbeinandi tilmæla af hálfu stjórnvalda og þannig brotið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Meðal þess sem umboðsmaður reifar í niðurstöðu sinni er að slíka einhliða breytingu á skilmálum lánssamninga einkaaðila sé stjórnvöldum ekki heimilt að kveða á um án fyrirliggjandi lagaheimildar, en eins og Hagsmunasamtök heimilanna vöktu athygli á og gagnrýndu harðlega á sínum tíma var slík heimild hvergi fyrir hendi, í það minnsta ekki þannig að gæti átt við um lánssamninga neytenda.

Framangreind niðurstaða umboðsmanns í kjölfar ítrekaðara dóma þar sem álagning svokallaðra seðlabankavaxta í stað samningsvaxta hefur ítrekað verið dæmd óheimil, eru enn eitt tilvikið í langri röð áfellisdóma yfir vinnubrögðum stjórnsýslunnar og sýnir hversu alvarlega hefur skort á að gætt sé að hagsmunum almennings gagnvart fjármálastofnunum. Einnig segir í niðurstöðunni að með tilmælunum kunni Seðlabankinn og FME að hafa skapað ríkinu skaðabótaskyldu. Af því tilefni er rétt er að benda á að álagning hærri vaxta en skuldbinding nær til var fyrst og fremst íþyngjandi fyrir lántakendur og þeir kynnu því að eiga rétt til skaðabóta, en hærri vextir hafa aftur á móti ekki valdið kröfuhöfum neinu tjóni heldur þvert á móti aukið hagnað þeirra. Þannig er málið og niðurstaða þess ekki aðeins dæmi um alvarlega vanrækslu og skort á eftirliti eins og skrásett hefur verið í langar skýrslur að undanförnu, heldur allt að því óviðurkvæmilega meðvirkni viðkomandi eftirlitsstofnana með starfsháttum sem eru efnahagslega skaðlegir heimilum landsmanna.

Ítarefni:

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6077/2010

Upptaka frá borgarafundi í Iðnó 28. júní 2010 í tilefni af gengislánadómum Hæstaréttar

Fréttatilkynning HH frá 30. júní 2010 vegna tilmæla SÍ og FME um sk. seðlabankavexti

Read more...

Áskorun til Fjármálaeftirlitsins

Hagsmunasamtök heimilanna hafa kannað úrtak endurútreikninga áður gegnistryggðra lána frá lánastofnunum og fyrirtækjum í slitameðferð. Ljóst er að endurútreikningar eru rangir í meirihluta tilfella þar eð brotið er á rétti skuldarans til seðlabankavaxta af ofgreiddum afborgunum. Munað getur töluverðum upphæðum ef ofgreiðslur áttu sér stað yfir langt tímabil. Skuldarinn á rétt á svokölluðum seðlabankavöxtum af þeirri fjárhæð sem var umfram réttmæta afborgun frá þeim degi sem ofgreiðsla fór fram. Ekki er ásættanlegt að draga endurgreiðsluna einungis frá höfuðstól þar sem skuldarinn er þá hlunnfarinn um mismun á milli þeirra vaxta er greiddir voru af láninu og seðlabankavaxta sem falla eiga í hlut lántaka. Fjármálafyrirtæki eru hér með áminnt um að þau lög sem gilda um þennan hluta endurútreikninganna, eru einkum lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 en þar segir:

18. gr. (1. mgr.)

Ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við. Hið sama á við ef samningur kveður á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja er ógilt, og skulu þá bæði ákvæði samningsins um vexti og verðtryggingu fara eftir því sem kveðið er á um í 4. gr. og því sem greinir nánar í þessari grein.

18. gr (3. mgr.)

Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.

2. gr.

Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

3. gr.

Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

4. gr.

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

7. gr.

Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.

12. gr.

Sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Ekki skal bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana.

18. gr (5. mgr.)

Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar skal upphaflegur höfuðstóll skuldar vaxtareiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr. Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar.

Sýslumönnum er góðfúslega bent á að aðfararbeiðnir sem byggðar eru á þeim endurútreikningum sem hér um ræðir, eru tilhæfulausar nema kröfuhafi geti sýnt fram á að endurreiknað hafi verið í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 með síðari breytingum sbr. lög nr. 151/2010 ásamt lögum um neytendalán nr. 121/1994 og öðrum ákvæðum laga um neytendavernd. Jafnframt þarf að taka tillit til Hæstaréttardóma  600/2011, 464/2012 um fullnaðargildi kvittana og bann við afturvirkum vaxtavöxtum.

Það verður að teljast nokkuð bíræfið af lánastofnunum að ganga enn og aftur á rétt skuldara, en reikna má með að fjármálastofnanir verði gerðar afturreka með útreikningana þar til þeir hafa verið rétt framkvæmdir. Nýverið gaf FME út tilmæli til lánastofnana um að rökstyðja/sanna lögmæti gengisbundina lánasamninga (sem í tilmælunum eru nefnd erlend lán).

Hagsmunasamtök heimilanna skora hér með á Fjármálaeftirlitið að ganga skrefinu lengra og stöðva allar innheimtur áður gengistryggðra lána þar til lánastofnanir geta sannað að lánin séu reiknuð með réttarhagsmuni skuldara að leiðarljósi. Svo augljós brot gegn skuldurum sem að ofan greinir taka af allan vafa um einbeittan brotavilja kröfuhafa að mati samtakanna. Löngu er tímabært að byrði sönnunar sé færð yfir á kröfuhafa í ljósi stórfelldrar misnotkunar á aðstöðumun gagnvart skuldurum.

f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna

Ólafur Garðarsson
Formaður stjórnar HH

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna