Menu
RSS

Nýtt húsnæðislánakerfi

Brjótum heimilunum leið út úr kreppunni

  • Eitt brýnasta hagsmunamál heimilanna er að nýju húsnæðiskerfi verði komið á fót

  • Tryggir að rekstur þeirra hvíli framvegis á traustari grunni

  • Ekki framkvæmanlegt nema stökkbreytt lán verði leiðrétt og verðtryggingin afnumin

  • Ein helsta forsenda þess að við brjótum okkur leið út úr kreppunni


Hagsmunasamtök heimilanna leggja til að íslensku húsnæðislánakerfi verði breytt verulega og varanlega. Hið nýja fyrirkomulag nái einnig til núverandi húsnæðislána þannig að fólki verði gert kleift án tilkostnaðar að breyta yfir í nýtt lán.

Ekki er gert ráð fyrir að haldið verði áfram að bjóða önnur form húsnæðislána, enda er það meðal annars markmiðið með hinu nýja kerfi að lán og lánskjör í íslenskum krónum verði fyllilega samkeppnishæf við okkar samanburðar- og samkeppnislönd.
Tillagan krefst víðtækrar samvinnu stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, fulltrúa neytenda, samtaka atvinnulífs og launþega um kerfisbreytingu og innleiðingu.

  1. Verðtryggð húsnæðislán:
    Hætt verði að veita verðtryggð lán til einstaklinga vegna húsnæðiskaupa.
  2. Óverðtryggð húsnæðislán:
    Sett verði 5 - 6% þak á óverðtryggða vexti húsnæðislána. Vextir ákvarðist í samningi milli lánveitanda og lántaka, samið verði til 3 til 5 ára í senn, þó mánaðarleg greiðslubyrði lánanna miði við lán til lengri tíma. Vextir geti verið breytilegir samkvæmt nánari ákvæðum samningsins; fljótandi í samræmi við fyrirfram ákveðið viðmið eða fastir. Hámarksvextir verði 6%.
  3. Aukin samkeppni um ný og þegar tekin húsnæðislán.
    Öll áhvílandi lán greiðist upp við eigendaskipti á húsnæði, þannig að eitt kauplán hvíli á fasteign. Við þetta styttist sá tími sem lánveitandi þarf að fjármagna útlán sín. Að meðaltali má gera ráð fyrir að hver eign hér á landi skipti um eiganda á tæplega 7 ára fresti. Styttri fjármögnun er háð minni óvissu og kostar almennt minna en fjármögnun til lengri tíma, sem ætti að leiða til lægri vaxta.

Við endurákvörðun vaxta verði lántaka heimilt að færa húsnæðislán sín til annars fjármálafyrirtækis, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða, án uppgreiðslugjalda. Slíkt ætti að leiða til samkeppni um viðskipti, ekki bara hvað varðar húsnæðislán heldur líka um önnur viðskipti viðkomandi lántaka.

Stimpilgjald verði aflagt eða verði föst, hófleg umsýsluþóknun óháð fjárhæð láns. Það verði ekki af lántöku þegar lánsviðskipti eru flutt frá einu fjármálafyrirtæki til annars (endurfjármögnun), þar sem ekki er um nýtt lán lántakans að ræða.
Lántökugjald verði föst, hófleg umsýsluþóknun óháð fjárhæð láns. Það verði ekki eða mjög óverulegt af lántöku þegar lánsviðskipti eru flutt frá einu fjármálafyrirtæki til annars (endurfjármögnun).

Ávinningurinn af breyttu lánakerfi
Ávinningurinn af nýju og breyttu lánakerfi er meðal annars:
Með tilfærslu yfir í óverðtryggt lánakerfi eru fjármálafyrirtæki gerð virkari þátttakendur í að koma á fjármálastöðugleika á Íslandi. Við núverandi aðstæður getur óstöðugleiki og þensla í sumum tilvikum haft jákvæð áhrif fyrir afkomu fjármálafyrirtækja. Hvoru tveggja veldur verðbólgu sem skilar sér í verðbótum á verðtryggða lánasamninga. Með óstöðugleika og þenslu geta fjármálafyrirtækin tryggt sér hagnað af rekstri. Þetta sást vel árið 2008, þegar hagnaður fjármálafyrirtækja virtist á víxl stafa af veikingu krónunnar og verðbótum ofan á lánasamninga.

Hagsmunasamtök heimilanna telja mjög mikilvægt fyrir hagkerfið, að allir stærri leikendur taki þátt í að halda niðri verðbólgu og stuðla að stöðugleika. Benda má á að tillögur samtakanna hafa til dæmis engin áhrif á afkomu fjármálafyrirtækja, ef verðbólga er lægri en þakið. Sé verðbólga lág geta 5 – 6% vextir gefið góða raunávöxtun. Með 1,5% verðbólgu myndu til dæmis lífeyrissjóðunum duga 5% óverðtryggðir vextir til að ná markmiði laga um 3,5% raunávöxtun. Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna fela því í sér innbyggðan hvata til að viðhalda stöðuleika og lágri verðbólgu. Telja samtökin að fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur muni sjá hag sínum best borgið með því að halda verðbólgunni niðri og stuðla þannig að jákvæðri raunávöxtun útlána sinna.

Mikilvægi lækkunar ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða og vaxta ríkisskuldabréfa
Samhliða þessu telja Hagsmunasamtök heimilanna að endurskoða þurfi rökin fyrir reglugerðarkröfu um 3,5% raunávöxtun eigna lífeyrissjóða. Vaxtastig í landinu tekur að mjög miklu leyti mið af þessari ávöxtunarkröfu og gerir það að verkum að íslenskum húsnæðislántökum bjóðast ekki eins hagstæð lán og húsnæðiskaupendum í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Samtökin telja nauðsynlegt að þetta viðmið verði lækkað eða að minnsta kosti hvað varðar ríkistryggð skuldabréf og húsnæðisbréf Íbúðalánasjóðs. Horfa verður til þess að vextir sem ríkissjóður og Íbúðalánasjóður greiða til lífeyrissjóðanna koma nánast að öllu leyti frá sjóðfélögum. Há ávöxtunarkrafa vegna slíkra skuldabréfa gerir því lítið annað en að færa fé frá einum vasa sjóðfélaga til annars með ára- eða áratuga bið. Eins og góð ávöxtun lífeyrissjóðanna er mikilvæg, hljóta heildarhagsmunir sjóðfélaga að vega þyngra. Vissulega eru ekki allir sjóðfélagar greiðendur húsnæðislána hjá Íbúðalánasjóði, en stærsti hlutinn er það.  Samtökin telja einnig að endurskoða þurfi ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða til að tryggja betur að lífeyrissjóðir séu fjárfestar til langs tíma.  Breytingar á áunnum lífeyrisréttindum, sem verða vegna góðrar eða slakrar afkomu viðkomandi sjóðs, skuli einnig gera með langtíma breytingar á afkomu í huga.  Með þessu er dregið úr sveiflum, eins og þeim sem margir lífeyrisþegar hafa upplifað á tekjum sínum á síðustu árum.

Til að lækka enn frekar vaxtastig í landinu, telja Hagsmunasamtök heimilanna nauðsynlegt að setja þak á vexti ríkisskuldabréfa. Vextir ríkisskuldabréfa eiga alltaf að senda þau skilaboð út til fjárfesta, að hér á landi sé búist við stöðugleika. Ríkissjóður á því ekki að þurfa og á jafnvel að vera óheimilt að gefa út skuldabréf með hærri en 5% óverðtryggðum vöxtum. Takist ríkissjóði ekki að selja skuldabréf með slíkum vöxtum án þess að því fylgi mikil afföll, þá verður ríkið einfaldlega að draga saman í útgjöldum. Vextir ríkisskuldabréfa setja neðri mörk þeirra vaxta sem atvinnulífið og fjármálakerfið getur boðið á sínum skuldabréfum. Í flestum tilfellum verður atvinnulífið meira að segja að bjóða 2 - 4% hærri vexti á sínum skuldabréfum til að fjárfestar líti við þeim. Það veldur meðal annars hærra vöruverði og þar með meiri verðbólgu. Fjármálafyrirtæki telja sig síðan geta elt ríkissjóð með sína vexti sem skilar sér í hærri vöxtum Seðlabanka Íslands, hærri fjármögnunarkostnaði bæði atvinnulífs og heimila, hærra vöruverði og loks endar þetta allt í verðbótum verðtryggðra lána, eins og framkvæmd verðtryggingarinnar er því miður í dag.

Taka þátt í undirskriftasöfnuninni

Fara á Hvers vegna - aðdragandi og markmið undirskriftasöfnunarinnar


Fara á Hvernig - nokkrar leiðir til leiðréttingar

Eignarnámsleið

Með svokölluðum neyðarlögum nr. 125/2008 var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að kaupa húsnæðislán bankanna og ráðherra ætlað að útfæra það nánar með reglugerð. Með minniháttar breytingum á núgildandi reglugerð væri hægt að kveða á um að Íbúðalánasjóður skuli taka húsnæðislán landsmanna eignarnámi, “enda séu kaupin til þess fallin að tryggja öryggi lána á íbúðalánamarkaði og hagsmuni lántakenda” eins og segir í 1. gr. reglugerðarinnar nr. 1081/2008 sem sett var af þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Samkvæmt lögum og reglum sem lúta að eignarrétti er slíkt eignarnám heimilt teljist það í þágu almannahagsmuna, en þá þurfi að koma sanngjarnt verð fyrir. Þessi aðferð á það sameiginlegt með svokallaðri gerðardómsleið samkvæmt tillögu Talsmanns Neytenda að hingað til hefur þótt erfitt að leggja mat á hvað teljist sanngjarnt verð og þar af leiðandi kostnað við aðgerðina og önnur hagræn áhrif. Það sem af er þessu ári hafa hins vegar bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaráðuneytið birt gögn þar sem kemur fram að útlán bankakerfisins til heimila voru metin á rúmlega hálfvirði þegar þau voru færð yfir í nýju bankana. Þar með er kominn mælikvarði á sanngjarnt endurgjald fyrir eignarnámið.

Eftir að öll húsnæðislán landsmanna væru komin undir hatt Íbúðalánasjóðs myndi svigrúm til niðurfærslu aukast enn vegna lægri kröfu um eiginfjárhlutfall, og um leið yrði mun einfaldara að láta jafnt yfir alla ganga. Það afskriftasvigrúm sem er til staðar í lánasöfnunum mætti nýta og láta það ganga að fullu áfram til lántakenda og dreifast til þeirra með sanngjörnum hætti. Mat á kostnaði við þessa aðgerð bendir til þess að hún gæti verið ríkinu nánast að kostnaðarlausu. Dugi það svigrúm sem við þetta skapast til almennra leiðréttinga ekki fyrir þá sem verst eru staddir mætti hugsa sér að samtvinna það blönduðum úrræðum, til dæmis eins og lýst er í skattaleiðinni.

Hvers vegna?

Aðdragandi og markmið undirskriftasöfnunarinnar:

  • Hagsmunasamtökin hafa frá stofnun leitað eftir samningum við stjórnvöld
    í lánamálum heimilanna

  • Almenn leiðrétting stökkbreyttra lána og afnám verðtryggingar er eina lausnin
    á lánamálum heimilanna sem er bæði skynsöm og réttlát út frá almannahagsmunum

  • Því hafa stjórnvöld hafnað, bæði almennum lánaleiðréttingum og afnámi verðtryggingar

  • Við teljum af þessum sökum brýnt að almenningur fái að segja hug sinn milliliðalaust

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 í þeim tilgangi að berjast fyrir almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar. Þann 12. febrúar 2009 litu tillögur samtakanna um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar dagsins ljós. 

Tillögurnar fólu meðal annars í sér ofangreindar kröfur. Samtökin lögðu frá upphafi áherslu á að vinna með stjórnvöldum að lausn mála til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni, enda gerðu samtökin sér vonir um að stjórnvöld myndu hafa milligöngu um samninga við lánveitendur og kröfuhafa vegna þess tjóns sem lántakendur urðu fyrir. 

Þrátt fyrir að samtökin hafi fljótlega eftir stofnun þeirra og allar götur síðan fengið umtalsverða áheyrn stjórnvalda hefur ávallt staðið á almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar þrátt fyrir þann víðtæka samfélagslega stuðning sem fyrir liggur, sjá t.d. hér, hér og hér.

Fjölmörg önnur úrræði hafa aftur á móti verið kynnt til sögunnar af hálfu stjórnvalda. Þau úrræði gagnast fólki misvel og hafa réttilega verið gagnrýnd fyrir það að taka ekki á rót vandans. Hvernig sem á málin er litið hefur sá forsendubrestur sem lántakendur urðu fyrir vegna þeirra aðgerða lánveitenda og stjórnvalda sem leiddu til hruns efnahagskerfisins ekki verið leiðréttur. Sú niðurstaða er bæði óréttlát og óásættanleg.

Vaxandi óánægju meðal almennings hefur gætt vegna framgöngu stjórnvalda og fjármálastofnana í þessum málaflokki. Þann 4. október 2010 sauð upp úr þegar ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar áttu sér stað. Mörg þúsund manns komu saman á Austurvelli og tunnur voru barðar. Í kjölfarið sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fjöldann allan af sérfræðingum úr stjórnkerfinu og fjármálageiranum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu koma til með að kosta og hvernig þær myndu gagnast fólki. 

Þannig keyptu stjórnvöld sér frest fram yfir jól og áramót þar til reiðiöldurnar lægði. Á tímabili var látið líta svo út fyrir að allt kæmi til greina af hálfu stjórnvalda. Meira að segja almenn leiðrétting lána eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað mælt fyrir. Að endingu fór hins vegar svo að sjónarmið samtakanna voru blásin út af borðinu og fulltrúi samtakanna sá sig tilneyddan til að skila séráliti sem stjórnvöld hafa neitað að birta.

Þegar á hólminn var komið höfnuðu lánveitendur samkomulagi við lántakendur um sanngjarna og skynsamlega niðurstöðu. Stjórnvöld létu svo hjá líða að bregðast við forherðingu fjármálastofnana með nauðsynlegu boðvaldi. Á bak við þá afstöðu skýldu stjórnvöld og lánveitendur sér með því að vísa til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda kröfuhafa og höfðu þannig eignarrétt húsnæðiseigenda að engu.

Af þessu er ljóst að kröfur samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar munu ekki ná fram að ganga með samningum líkt og samtökin vonuðust upphaflega til. Viðurkenning á forsendubresti þarf að eiga sér stað til þess að viðurkenna þörfina fyrir leiðréttingum lána.

HH kalla eftir að þessi viðurkenning komi frá stjórnvöldum og að ekki þurfi að leita til dómstóla með öll mál til að útkljá svo augljósa staðreynd. Sú leið sem á endanum verður valin til leiðréttingar er og verður alltaf pólitísk ákvörðun. Til þess að ganga fram fyrir hönd heimilanna og færa til baka þá eignatilfærslu sem átt hefur sér stað frá heimilunum til fjármagnseigenda þarf pólitískt hugrekki, kjark og þor.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa því, í nafni almannahagsmuna, ákveðið að blása nýju lífi í kröfur sínar með breyttri nálgun. Samtökin telja brýna þörf á því að fólki gefist tækifæri til að segja hug sinn í þessum efnum með undirskrift sem tekur undir kröfuna um almenna leiðréttingu lána heimilanna og afnám verðtryggingar og jafnframt um þjóðaratkvæðagreiðslu, verði stjórnvöld ekki við þessum kröfum.

Samhliða þessari undirskriftasöfnun kynna samtökin fjórar ólíkar leiðir til leiðréttingar, sem þau telja mögulegar og gætu fallist á. Þessar fjórar leiðir eru hugsaðar sem grundvöllur fyrir umræðu og er því ekki um tæmandi lista að ræða. Samtökin minna á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og nú er brýn þörf fyrir pólitíska ákvörðun sem skilar sér alla leið til heimilanna í landinu.

Taka þátt í undirskriftasöfnuninni


Fara á Hvernig - nokkrar leiðir til leiðréttingar

Fara á Framtíðarsýn - nýtt húsnæðislánakerfi

Hvernig?

Nokkrar leiðir til að leiðrétta stökkbreytt lán og afnema verðtryggingu

  • Stjórnvöld eiga greiða aðkomu að bæði almennri leiðréttingu stökkbreyttra  lána og afnámi verðtryggingar
  • Allt sem þarf er pólitískur vilji til verksins
  • Því til áréttingar birta Hagsmunasamtök heimilanna umfjöllun um fjórar mismunandi leiðir að þessu marki

Hagsmunasamtök heimilanna hafa, í þágu almannahagsmuna, ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar til stuðnings kröfunni um leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnáms verðtryggingar í núverandi mynd.

Samtökin telja mikilvægt að almenningi gefist með þessu móti, tækifæri til að segja milliliðalaust hug sinn í þessu brýna þjóðfélagsmáli.

Undirskrift jafngildir einnig kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu, hafi söfnunin ekki skilað tilætluðum árangri fyrir árslok. Verði það niðurstaðan mun reyna á lýðræðislegan rétt fólks til að knýja á um stjórnvaldsaðgerðir í þágu almannaheill.

Staðreyndin er sú, að stjórnvöld eiga greiða aðkomu að bæði almennri leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnámi verðtryggingar. Samhliða þessari undirskriftasöfnun eru því kynntar nokkrar færar leiðir. Þær eru ugglaus fleiri, en ákveðið var að leggja þessar fjórar fram málflutningi samtakanna til stuðnings.

Samhliða öllum leiðréttingarleiðum, óháð því hvaða leið yrði fyrir valinu, verði öllum lánveitendum gert að bjóða upp á endurfjármögnun húsnæðislána sem miðar við að boðið verði upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum til að minnsta kosti 3ja ára. Stimpilgjöld verði felld niður og innleitt bann við sérstökum uppgreiðslugjöldum. Jafnframt að þak verði sett á bæði fasta og breytilega vexti. Heimilin gætu þá breytt gömlu verðtryggðu húsnæðisláni yfir í nýtt lán án uppgreiðslu- eða stimpilgjalda til að auðvelda breytinguna yfir í nýtt lánakerfi.

Hagsmunasamtök heimilanna minna á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Nú ríður á að stjórnvöld taki stöðu með heimilum landsins, undirstöðu samfélagsins og veiti með ábyrgum hætti pólitíska forystu út úr þeim miklu ógöngum sem lánamál þjóðarinnar hafa ratað í.

Skiptigengisleið
Upptaka nýs eða annars gjaldmiðlis á mismunandi skiptigengi.

Eignarnámsleið
Lánasöfn bankanna verði færð í Íbúðalánasjóð og afsláttur nýttur til leiðréttinga.

Vísitöluleiðrétting
Vísitala verði leiðrétt og færð niður til þess gildis sem var 1.1. 2008 í 282 stig.

Leiðréttingarskattur í eitt skipti
Leiðréttingarskattur í eitt skipti verði lagður á banka, lífeyrissjóði og auðlegðarskattur á einstaklinga.

Taka þátt í undirskriftasöfnuninni [tengill óvirkur - undirskriftasöfnun er lokið]

Hér má sjá upplýsingarit um undirskriftasöfnunina og aðferðir við að leiðrétta stökkbreytt lán:

Fara á Hvers vegna - aðdragandi og markmið undirskriftarsöfnunarinnar

Fara á Framtíðarsýn - nýtt húsnæðislánakerfi

Bankareikningur samtakanna

Hagsmunasamtök heimilanna hafa opnað bankareikning hjá Sparisjóði Suður Þingeyinga - Laugum. Samtökin óska eftir frjálsum framlögum til styrktar starfinu. Reikningurinn er: 1110-26-5202  kt. 520209-2120

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna