Menu
RSS

Samþykktir HH frá 15. maí 2014

Eftirfarandi samþykktir voru samþykktar með breytingum á aðalfundi Hagsmunasamtaka heimilanna 27. apríl. 2010, 31. maí 2012 og 15. maí 2014. Þær eiga uppruna sinn að rekja til stofnsamþykkta samtakanna frá 15. janúar 2009 með þeim breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi 2009.

1. gr. Heiti, varnarþing og félagssvæði

 • Samtökin heita Hagsmunasamtök heimilanna, skammstafað HH.
 • Heimili samtakanna, skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.
 • Félagssvæði samtakanna nær til alls landsins.

2. gr. Forsendur

 • Samtökin eru frjáls og óháð stjórnmálaflokkum og öðrum hagsmunaaðilum.
 • Samtökin starfa á lýðræðislegum grunni með það að leiðarljósi að félagar hafi jafnan rétt til  áhrifa.

3. gr. Tilgangur

 • Samtökin eru vettvangur fyrir fólkið í landinu til að verja og bæta hagsmuni heimilanna í landinu.
 • Samtökin eru málsvari og talsmaður félagsmanna í umræðu um hagsmuni heimilanna til skemmri og lengri tíma.

4. gr. Markmið

 • Markmið samtakanna er að beita sér fyrir lagabreytingum og / eða lagasetningum til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.
 • Markmið samtakanna er að stuðla að leiðréttingu veðlána heimilanna vegna forsendubrests, jafna ábyrgð milli lántaka og lánveitenda, bæta réttarstöðu neytenda í lánaviðskiptum og stuðla að réttlátum og sanngjörnum lánskjörum fyrir neytendur.
 • Markmið samtakanna er að efla vitund neytenda um réttarstöðu sína og samtakamátt.    
 • Samtökin vinna að tilgangi sínum og markmiðum eftir öllum lögmætum leiðum og með réttmætum samtakamætti.

5. gr. Aðild og úrsögn

 • Aðild að samtökunum er einstaklingsbundin og miðast við að lágmarki 18 ára aldur.
 • Umsókn um aðild skal vera skrifleg, til dæmis með rafrænni skráningu á heimasíðu samtakanna, fyllt út á félagsfundi og/eða með öðrum skriflegum sannanlegum hætti. Sama á við um úrsögn úr samtökunum.

6. gr. Aðalfundur

 • Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið.
 • Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir félagsmenn samtakanna. Boða skal til aðalfundar með tölvupósti og opinberri tilkynningu á heimasíðu samtakanna, www.heimilin.is, með minnst 14 daga fyrirvara. Fundargögn skulu vera aðgengileg félagsmönnum minnst 3 dögum fyrir fund. Stjórn er heimilt að verða við óskum félagsmanna um fundarboðun með pósti greiði viðkomandi félagsmaður sendingarkostnað sem hlýst af fundarboðun.

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Reikningar félagsins
 3. Lagabreytingar
 4. Kosning stjórnar
 5. Kosning varamanna
 6. Kosning skoðunarmanna
 7. Önnur mál
 • Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað. Stjórn er heimilt að bjóða öðrum áheyrn með fundarsetu.
 • Á aðalfundi skal stjórn gefa skýrslu ársins um starf og árangur samtakanna.     
 • Ársreikning skal staðfesta með áritun meirihluta aðalstjórnar að minnsta kosti. Formaður og gjaldkeri skulu ávallt staðfesta ársreikning með áritun sinni. Ársreikning skal leggja fyrir á aðalfundi.
 • Heimilt er að halda fundi með rafrænum hætti. Þá er heimilt að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti.
 • Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar ef fyrir liggja brýn málefni sem ekki geta beðið reglulegs aðalfundar, eða ef 20% félagsmanna fara fram á slíka boðun með tillögu um dagskrá.

7. gr. Almennir félagsfundir og vinnufundir

 • Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem stjórn samtakanna telur ástæðu til. Boða skal til félagsfundar með að lágmarki þriggja daga fyrirvara.
 • Stjórn skal ætíð boða til félagsfundar innan 14 daga komi fram ósk um það frá meirihluta stjórnarmanna eða 20% félagsmanna.
 • Vinnufundir skulu kynntir á heimasíðu félagsins.

8. gr. Afgreiðsla mála

 • Á aðalfundum og öðrum félagsfundum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum. Komi fram ósk um skriflega atkvæðagreiðslu skal orðið við því.
 • Heimilt er að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti. Þá er heimilt að hafa opið fyrir atkvæðagreiðslu í allt að þrjá daga frá lokum fundar.
 • Heimilt er stjórn að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um málefni án þess að fyrst hafi verið boðað til fundar nema samþykktir kveði á um annað.

9. gr. Stjórn

 • Stjórn samtakanna skal skipuð minnst 10 en mest 14 manns, þar af 7 aðalmönnum og 3-7 varamönnum, sem kosnir skulu á aðalfundi samtakanna. Stjórnin kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi.
 • Stjórnarmaður sem setið hefur full fimm kjörtímabil skal taka hlé á stjórnarsetu í það minnsta eitt kjörtímabil. Að því loknu getur viðkomandi boðið sig fram til stjórnarsetu á ný. Ákvæðið gildir ekki um kjörtímabil varamanna.
 • Stjórnarstörf eru ólaunuð, svo og þau verkefni sem stjórnarmenn taka að sér fyrir samtökin. Þó er heimilt að greiða fyrir útlagðan kostnað sem til fellur vegna rekstrar samtakanna.
 • Stjórnin skal koma saman til fundar að minnsta kosti mánaðarlega og skal hún halda fundargerðir. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til fundar í stjórninni þegar tveir stjórnarmenn óska þess.
 • Stjórnarmenn skulu boða forföll, komist þeir ekki á stjórnarfund. Nú sækir aðalmaður ekki stjórnarfundi um tveggja mánaða skeið. Afsali hann sér þá sæti sínu í stjórn, nema um lögmæta ástæðu sé að ræða, taki sæti síðasta manns í varastjórn og fyrsti varamaður taki sæti í stjórn í hans stað.

10. gr. Verkefni stjórnar

 • Stjórn samtakanna fer með æðsta vald í málefnum þeirra milli aðalfunda. Hún undirbýr aðalfund og aðra félagsfundi. Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti. Stjórnarfundir eru lögmætir ef mættur er meirihluti stjórnarmanna.     
 • Við afgreiðslu mála á stjórnarfundum fer hver stjórnarmaður með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns fundarins. Varamaður hefur aðeins tillögurétt á stjórnarfundi nema hann leysi af stjórnarmann.
 • Stjórn semur stefnuskrá hvers starfsárs. Stjórn skal hafa yfirumsjón með daglegri starfsemi samtakanna eða ræður sérstakan aðila til þess og til sértækra verkefna.
 • Stjórn setur nefndum samtakanna reglur þar sem fram kemur hlutverk nefndanna.
 • Fastráðnir starsmenn samtakanna skulu ekki samhliða gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.

Í samþykktum þessum eru stjórnmálasamtök skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Trúnaðarstörf fyrir stjórnmálasamtök eru störf í stjórnum, ráðum og nefndum og önnur sambærileg störf á vegum eða í þágu stjónrnmálasamtaka. Formlegir talsmenn stjórnmálasamtaka, frambjóðendur þeirra, starsmenn og kjörnir fulltrúar teljast einnig gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.

11. gr. Staðbundnar deildir og nefndir

 • Félagsmönnum er heimilt að stofna staðbundnar deildir sem starfa sjálfstætt á ákveðnum svæðum landsins, en þó eftir samþykktum og stefnuskrá samtakanna.
 • Innan samtakanna starfa málefnanefndir sem annast upplýsingaöflun, greiningu, úrvinnslu og málefnauppbyggingu einstakra málefna samkvæmt stefnuskrá.
 • Stjórn skipar formenn nefnda.
 • Stjórn hefur heimild til að skipta út formönnum nefnda ef þurfa þykir.
 • Aðeins félagsmenn geta verið nefndarmenn. Nefndarmönnum er þó heimilt að leita sér sérfræðiaðstoðar og álits utan samtakanna.
 • Nefndarstörf eru ólaunuð.

12. gr. Fjármál

 • Stjórn ber fram tillögur um félagsgjöld til samþykktar á aðalfundi.
 • Gjaldkera er heimilt með fyrirfram samþykki stjórnar að endurgreiða stjórnarmönnum eða nefndarmönnum sannanlega útlagðan kostnað vegna sérstakra verkefna í þágu félagsins.
 • Stjórn er heimilt að stofna til kostnaðar innan fjárhagsramma samtakanna vegna daglegs reksturs, fundahalda og aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar.
 • Samtökunum er heimilt að taka við frjálsum fjárframlögum frá öðrum en stjórnmálaflokkum / hreyfingum og fjármálastofnunum. Fjárframlög veita fjárveitanda ekki rétt til ítaka eða áhrifa í samtökunum. Samtökunum er heimilt að sækja um styrki í opinbera sjóði.
 • Berist samtökunum frjáls fjárframlög er stjórn heimilt, innan fjárframlaga, að stofna til kostnaðar vegna húsnæðisleigu vegna aðalfunda og almennra félagsfunda og aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar, þjónustu eða vöru.
 • Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn úr hópi félagsmanna.

13. gr. Breytingar

 • Samþykktum þessum verður ekki breytt nema breytingatillaga hafi verið rædd á aðalfundi og að minnsta kosti 2/3 fundarmanna séu samþykkir tillögunni. Fyrirhuguð breyting skal kynnt í fundarboði og liggja fyrir í fundargögnum.

14. gr. Slit

 • Samtökunum verður aðeins slitið með samþykki eftir umræðu á löglega boðuðum aðalfundi.
 • Geta skal sérstaklega tillögu um félagsslit í fundarboði. Tillagan telst samþykkt, ef 2/3 hlutar fullgildra félagsmanna eru á aðalfundi og 2/3 fundarmanna greiða tillögunni atkvæði sitt. Ef ekki eru nægilega margir félagsmenn á fundinum, skal boða til aukaaðalfundar innan mánaðar. Við boðun þess fundar skal þess sérstaklega getið, að fyrir fundinum muni liggja tillaga um félagsslit. Á aukaaðalfundi þarf tillagan stuðning 4/5 hluta atkvæðisbærra mættra félaga til að hljóta samþykki óháð mætingu.
 • Heimilt er að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti.     
 • Verði samtökin lögð niður, skal eignum þeirra ráðstafað til líknarstarfa.     


Athugasemdir:

Samþykktir þessar voru lagðar fyrir á stofnfundi Hagsmunasamtaka heimilanna þann 15. janúar 2009 og þar lagt í hendur stjórnar að útfæra frekar og þær samþykktar af stjórn þann 4. febrúar 2009. Á öðrum aðalfundi samtakanna, 27. apríl 2010 voru samþykktar breytingar á 4. grein (Markmið) og 6. grein (Aðalfundur). Á fjórða aðalfundi samtakanna 31. maí 2012 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn) og 10. grein (Verkefni stjórnar). Á sjötta aðalfundi samtakanna 15. maí 2014 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn). Samþykktirnar hafa verið uppfærðar til samræmis við breytingarnar.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í Reykjavík, 15. maí 2014

Í tilefni 1. maí

Hagsmunasamtök heimilanna skora á verkalýðsöfl í landinu að hugsa nýjar leiðir í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum.

Það er tillaga okkar að meðal krafna í kjarasamningsviðræðum sé  að veðlán heimilanna verði leiðrétt með réttmætum, sanngjörnum og almennum hætti. Enda er það er algerlega ljóst öllu sanngjörnu fólki að þegar verðbætur á lán rjúka upp án nokkurra takmarkana þá er um óréttmæta eignatilfærslu að ræða, og einungis eðlilegt að tryggja að á þeim sé fyrirfram skilgreint þak eins og samtökin hafa áður lagt til.

Read more: Í tilefni 1. maí

Málskostnaðartryggingar lántaka

Áríðandi tilkynning vegna málskostnaðartryggingar lántaka

Hagsmunasamtök heimilanna vilja árétta við þá sem ætla í málaferli vegna húsnæðislána sinna, að málskostnaðartrygging er oft til staðar í heimilistryggingum. Í mörgum tilvikum ættu þessar tryggingar að ná til málaferla vegna húsnæðislána heimilanna, þótt skilmálar geti verið mismunandi. Rétt er að fólk athugi slíkt og leiti réttar síns, hvort sem um ræðir gengisbundin lán eða verðtryggð.

Read more: Málskostnaðartryggingar lántaka

Ný stjórn HH

Ný stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna var kjörin á aðalfundi 31. mars 2011. Stjórnin skiptir með sér verkum og á fundi nýrrar stjórnar 6. mars var Andrea J. Ólafsdóttir kjörin formaður samtakanna og Elías Pétursson varaformaður. Andrea hefur starfað með samtökunum frá því þau voru stofnuð árið 2009 og sinnti hlutverki gjaldkera á síðasta starfsári ásamt aðkomu að ýmsum öðrum verkefnum stjórnar, en Elías kemur nýr að stjórn samtakanna ásamt þremur öðrum í aðalstjórn.

Read more: Ný stjórn HH

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna