Menu
RSS

Nýbirt gögn styðja málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna

Víglundur Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár sendi í gærkvöldi frá sér fréttatilkynningu ásamt miklu magni af gögnum er varða stofnun nýju viðskiptabankanna og yfirfærslur lánasafna frá föllnu bönkunum til þeirra nýju. Gögnin ásamt greinargerð Víglundar um innihald og merkingu þeirra, styðja fyllilega þann málflutning sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa haldið úti svo að segja frá stofnun þeirra fyrir rúmum 6 árum síðan. Það er að segja að við yfirfærslu þessa og þá gjörninga sem tóku við í framhaldi hafi margvíslegum rangindum verið beitt, þannig að hagsmunum heimila og almennings hafi verið stórlega misboðið.

Samtökin hafa á undanförnum árum staðið í margvíslegri gagnaöflun, og reynt með öllum ráðum að komast yfir og gera opinberar sem mestar upplýsingar um þetta ferli allt saman, í nafni gagnsæis og til þess að sýna fram á hversu gróflega framferði fjármálafyrirtækja hafi brotið og sé enn að brjóta gegn lögum og hagsmunum almennings. Ekki má heldur gleyma "hinum" fjármálafyrirtækjunum það er að segja öðrum en stóru bönkunum þremur, til að mynda fjármögnunarfyrirtækjum eða fyrirtækjum á borð við Dróma hf. sem eru jafnvel ekki löglega skráð fjármálafyrirtæki.

Smellið hér til að heimsækja skjalabirtingarsvæði HH á vefbókasafninu Scribd, þar sem finna má mikinn fjölda gagna um framferði bankanna.

Meðal þess sem ráða má af gögnum Víglundar er að ekki aðeins hafi almenningur og margir stjórnmálamenn verið blekktir, heldur hafi jafnvel dómstólar landsins einnig verið beittir blekkingum í tengslum við hin ótalmörgu og gríðarlega umfangsmiklu málaferli sem bankar og aðrir kröfuhafar hafa herjað á heimili og fyrirtæki með undanfarin 6 ár. Því verður varla lýst með nógu sterkum orðum hversu alvarlega slíkt framferði vegur að virðingu dómskerfisins, og þar með að sjálfu réttarríkinu, að eyða svo miklu sem raun ber vitni af takmörkuðum tíma dómstólanna að ófyrirsynju í tilhæfulaus málaferli árum saman.

Ítarlega hefur verið fjallað um afhjúparnir Víglundar í helstu fjölmiðlum í dag, en fyrsta fréttin af þeim birtist á vef Útvarps Sögu nokkru eftir miðnætti í gærkvöldi, ásamt þeim gögnum sem um ræðir. Hér fyrir neðan er tilkynning Víglundar í heild sinni, ásamt tenglum á gögnin sem vísað er til.

Meðfylgjandi þessari fréttatilkynningu er bréf mitt til forseta Alþingis Einars Kristins Guðfinnssonar í dag. Með bréfinu sendi ég honum alla stofnúrskurði FME frá október 2008 um stofnun nýju bankanna þriggja ásamt fylgigögnum um nákvæmar forsendur fyrir flutningi og afskriftum einstakra lána einstaklinga og fyrirtækja við flutning úr gömlu bönkunum í þá nýju. Gögnum þessum hefur til þessa verið haldið leyndum með skipulegum hætti.
 
Í þeim gögnum gefur að lesa nákvæmlega allar forsendur og lista yfir stærstu lánin sem flutt voru yfir og afskriftir þeirra. Þessi gögn staðfesta með óyggjandi hætti það sem lengi hefur verið haldið fram af mörgum aðilum svo sem Hagsmunasamtökum heimilanna, Framsóknarflokknum og fleiri samtökum og einstaklingum að nýju bankarnir eignuðust aldrei neitt annað en afskrifaðar eignir / kröfur á fólk og fyrirtæki. Þannig voru kröfurnar færðar á nettóvirði í bækur hinna nýju banka.
 
Samningar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur undir forystu þáverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar á árinu 2009 leiddu til þess að þessir stofnúrskurðir voru afturkallaðir með ólögmætum hætti í þágu erlendra vogunarsjóða og mjög alvarlegum íþyngjandi efnahagslegum afleiðingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Með því að gera þessa formlegu stjórnvaldsúrskurði Fjármálaeftirlitsins opinbera og öllum aðgengilega þýðir ekki lengur fyrir fyrrverandi ráðherra og embættismenn svo og bankamenn að þræta um málin. Nú verða gögnin með öllum forsendum aðgengileg til skoðunar fyrir alla sem það kjósa. Gögnunum fylgir jafnframt 8 bls. minnisblað þar sem gerð er stutt grein fyrir helstu atriðum þessara gagna. Í seinni hluta minnisblaðsins er síðan fjallað um líkleg lögbrot ráðherra, embættismanna og bankamanna á fjölmörgum íslenskum lögum frá árinu 2009 allt fram á þennan dag. Minnisblaðið fylgir í viðhengi. Þar ber hæst umfjöllun um meint brot á almennum hegningarlögum auk annara laga svo sem stjórnsýslulaga og laga um fjármálafyrirtæki. Sýnist sú samræmda brotastarfssemi hafa verið viðtækari og varað lengur en dæmi eru um svo kunnugt sé og afleiðingarnar alvarlegri fyrir þjóðina en hægt er að ná utan um í tölum einum og sér.
 
Til viðbótar við þessa auðgun vogunarsjóða og erlendra kröfuhafa að fjárhæð á milli 300-400 milljarða eru enn verri þær afleiðingar þessa örlætisgjörnings Steingríms og Jóhönnu að hafa framlengt kreppuna vegna hrunsins um mörg ár með enn alvarlegri afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki.
 
Garðabæ 22.01.2015
Víglundur Þorsteinsson

Hér má sjá bréf Víglundar ásamt minnisblaði:

Hér má jafnframt nálgast öll skjölin sem um ræðir:

Bréf Víglundar til forseta Alþingis
Minnisblað um stofnúrskurði FME
Ákvörðun FME vegna Landsbankans
Ákvörðun FME vegna Kaupþings
Ákvörðun FME vegna Glitnis
Forsendur fyrir skiptingu efnahagsreikninga
Stofnefnahagsreikningur Nýja Landsbankans
Stofnefnahagsreikningur Nýja Kaupþings
Stofnefnahagsreikningur Nýja Glitnis

Read more...

Leiðrétting stjórnvalda eykur flækjustig og sniðgengur neytendarétt

Nú þegar niðurstöður leiðréttinga stjórnvalda á verðtryggðum húsnæðislánum hafa verið birtar, er rétt að hvetja umsækjendur til að kynna sér útkomur þeirra rækilega áður en þeir staðfesta þær og veita samþykki sitt fyrir þeim. Fyrstu athuganir gefa til kynna að niðurstöður séu í mörgum tilvikum langt frá þeim væntingum sem skapaðar hafa verið. Eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á taka leiðréttingar stjórnvalda á engan hátt mið af lögum um neytendalán.

Þann 24. nóvember síðastliðinn birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt þess efnis að það bryti í bága við tilskipun um neytendalán að miða útreikning lánskostnaðar við 0% verðbólgu. Þetta atriði er meðal annars tekist á um í máli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka fyrir félagsmenn, en það verður flutt þann 5. janúar næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fram til þessa hafa íslenskir dómstólar aldrei farið þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í neinu máli.

Sú leiðrétting sem fengist með dómi sem félli neytendum í hag myndi ganga mun lengra en sú leiðrétting sem stjórnvöld hafa nú boðið upp á. Þessu hafa stjórnvöld brugðist við með nýrri eftiráforsendu fyrir leiðréttingunni í reglugerð nr. 1160/2014 frá 22. desember, sem kveður á um að ríkissjóður taki yfir endurkröfur neytenda að því marki sem nemur fjárhæð hinnar opinberu leiðréttingar, verði niðurstöður dómstóla neytendum í hag. Þannig virðist framkvæmdavaldið ætla að blanda sér í úrlausn dómstóla á einkaréttarlegum ágreiningi, en slík afskipti brjóta í bága við stjórnarskrárbundna þrískiptingu ríkisvaldsins.

Opnað var fyrir þann möguleika að samþykkja niðurstöður leiðréttingar stjórnvalda eftir hádegi 23. desember síðastliðinn og er frestur til að samþykkja niðurstöður 90 dagar eða til og með 23. mars 2015. Er því óþarfi að gera það í flýti, heldur er miklu frekar ástæða til að fara vandlega yfir niðurstöðurnar áður en tekin er afstaða til þeirra. Einnig er rétt að benda umsækjendum á að yfirfara útreikninga á niðurstöðum leiðréttingarinnar vandlega, og hvort þær séu réttar, ekki síst í ljósi þeirra margbrotnu frádráttarliða sem lögin um leiðréttinguna kveða á um. Auk þess má benda á að með skiptingu lána í frum- og leiðréttingarlán áður en dómar falla um ólögmæti kynningar verðtryggingarinnar fyrir neytendum, eykst flækjustig leiðréttingarinnar, sem var þó nóg fyrir.

Vegna hinnar lagalegu óvissu getur mögulega verið við hæfi að samþykkja ekki leiðréttinguna undir eins heldur frekar að bíða átekta um sinn, en frestur til samþykkis er fram í marsmánuð 2015. Þetta er þó einstaklingsbundið og séu umsækjendur í vafa um hvort skuli samþykkja leiðréttingu, ráðleggja Hagsmunasamtök heimilanna þeim að leita sér óháðrar ráðgjafar um það álitaefni. Komi í ljós að fjárhæð leiðréttingar hafi í einhverjum tilvikum verið rangt reiknuð eða ráðstöfun hennar byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum, er hægt að gera athugasemdir eða beina kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu fasteignaveðlána á vefsíðunni leidretting.is.

Loks er því mótmælt að leiðréttingin sé notuð til þess að þvinga fram innleiðingu rafrænna skilríkja sem eru útgefin af, og í þágu, fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Það samrýmist ekki sjónarmiðum um einstaklingsfrelsi og persónuvernd, að stjórnvöld þvingi neytendur til viðskipta við einkafyrirtæki með þessum hætti. Skorað er á stjórnvöld að endurskoða þá ákvörðun, enda ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nota veflykil, eða venjulega undirskrift til þess að samþykkja leiðréttinguna.

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega fyrirætlanir ríkisstjórnarinar um hækkun virðisaukaskatts á matvæli


Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeim fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar sem fram koma í fjárlagafrumvarpi næsta árs um að hækka virðisaukaskatt á matvælum um 71%, eða úr 7% í 12%. Hér er enn og aftur höggið þar sem síst skyldi, enda kemur hækkun matarverðs verst niður á tekjulægstu hópum samfélagsins. Einnig er ljóst að sú takmarkaða niðurfærsla höfuðstóls verðtryggðra lána sem ríkisstjórnin hefur boðað verður fljótt að engu þegar sama ríkisstjórn fer samhliða í aðgerðir sem að öllum líkindum hækka neysluvísitölu með þeim afleiðingum að verðtryggð lán hækka.

Í umræðum um fjárlagafrumvarpið að undanförnu hefur ríkisstjórnin reynt að slá ryki í augu fólks með því að leggja áherslu á þær “mótvægisaðgerðir” sem vega eigi upp á móti auknum skattaálögum á matvöru, það er afnám vörugjalda, lækkun virðisaukaskatts á vörur í efra virðisaukaskattsþrepi og hækkun barnabóta. Hagsmunasamtök heimilanna eru almennt fylgjandi afnámi vörugjalda, en þau vega hins vegar ekki upp á móti gríðarlegri hækkun virðisaukaskatts á matvæli, auk þess sem vert er að minna á að vörugjöld á mat eru beintengd sykurinnihaldi (sykurskattur). Lækkun virðisaukaskatts á vörur í efra virðisaukaskattsþrepi koma þeim sem minnst hafa milli handanna lítið til góða, enda er þar ekki um að ræða helstu nauðsynjavörur. Hækkun barnabóta er góðra gjalda verð en gagnast þó ekki nema hluta þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, það er tekjulágum barnafjölskyldum.

Það verður ekki annað séð en að hér sé um blekkingarleik að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda ekki hægt að tala um “mótvægisaðgerðir” nema slíkar aðgerðir vegi raunverulega upp á móti skattahækkunum á matvæli.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna