Menu
RSS

Bréf til ríkissáttasemjara

 

Til ríkissáttasemjara

Borgartúni 21

105 Reykjavík

 

 

Hagsmunasamtök Heimilanna fara hér með fram á að Ríkissáttasemjaraembættið taki að sér að miðla málum í baráttu samtakanna f.h. íslenskra húsnæðisskuldara fyrir leiðréttingu á húsnæðislánum vegna forsendubrests í kjölfar efnahagshruns haustið 2008.

Það er sannfæring Hagsmunasamtaka heimilanna að leiðrétting stökkbreyttra höfuðstóla húsnæðislána sé í senn kjaramál, sanngirnismál og lykill að því að koma í veg fyrir upplausnarástand í samfélaginu. Þannig getur það sparað samfélaginu verulegan sársauka og beinan kostnað sem hlýtur að leiða af landflótta og öðrum upplausnaráhrifum. Að auki eru ýmir kostir því samfara að létta af almenningi þrúgandi óvissu um framtíðina hvað varðar húsnæði sitt. Vilji ríkisvaldið og fjármálakerfið sjá þróttmikið samfélag takast af samheldni á við þau verkefni sem eru framundan við endurreisn efnahagslífsins er lykil atriði að ganga hreint til verks með almennum aðgerðum eins og Hagsmunasamtök heimilanna leggja til.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 til að berjast fyrir hagsmunum heimilanna í landinu gegn því óréttlæti sem felst í óbreyttri inheimtu á skuldum heimilanna. Samtökin hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnvöld og almenning í landinu á margvíslegan hátt og lagt til margvíslegar umbætur. Stjórnvöld og lánastofnanir hafa þó daufheyrst  við málflutningi samtakanna að mestu og hætta er á að það stefni í mikla eignaupptöku á heimilum landsmanna þegar banni við nauðungarsölu verður aflétt 1. nóvember n.k.

Það er því þrautalending samtakanna að boða til greiðsluverkfalls 1. október n.k. til að knýja fram samninga um sanngjarna lausn á okkar baráttumálum. 23. júní s.l. var samþykkt ályktun sem felur í sér kröfur okkar og stuðning við greiðsluverkfall nái þær ekki fram að ganga með öðrum hætti.

Við teljum að greiðsluverkfall skuli lúta hliðstæðum reglum og önnur verkföll eftir því sem við verður komið en markmið þess er auðvitað að ná fram sanngjarnri lausn mála. Þess vegna förum við fram á að ríkissáttasemjari kveðji fulltrúa Samtaka fjármálafyrtækja (SFF), Landssambands lífeyrissjóða (LL) og Forsætisráðuneytisns f.h. stjórnavalda til samningaviðræðna um kröfur okkar og þegar verði hafist handa um gerð viðræðuáætlunar.

 

                                                        Reykjavík 28. ágúst 2009

 

                                                        f.h. Greiðsluverkfallsstjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

 

Fylgiskjöl:

Tillögur HH um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar.

Samfélagssáttmáli Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ályktun HH 23. júní 2009

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna