Menu
RSS

Skipan í starfshópa á vegum stjórnvalda

Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að skipa tvo starfshópa um stærstu baráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna, annars vegar um afnám verðtryggingar og hins vegar um leiðréttingu stökkbreyttra neytendalána með áherslu á húsnæðislán heimilanna. Athygli vekur að HH var ekki gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa sína í þessa starfshópa, sem óhætt er að fullyrða að séu þeir mikilvægustu sem fyrirhugað er að taki til starfa við að hrinda í framkvæmd áætlun stjórnvalda um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi samkvæmt þingsályktun nr. 1/142.

Það eru stjórn HH mikil vonbrigði að hafa ekki verið gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa á sínum vegum til þátttöku í ofangreindum starfshópum. Innan samtakanna hefur safnast upp og er nú þegar fyrirliggjandi umtalsverð þverfagleg þekking á þessu sviði, sem vonir hafa staðið til að myndu nýtast í þeirri vinnu sem framundan er. Til að mynda hafa samtökin nú þegar samið frumvarp um afnám verðtryggingar neytendasamninga sem lagt var fram á Alþingi í mars síðastliðnum. Jafnframt hafa samtökin þróað og útfært margar mismunandi útfærslur á því hvernig hægt væri að ná fram leiðréttingu á skuldastöðu heimilanna, sem allar eiga það sameiginlegt að fela ekki í sér teljandi kostnað fyrir ríkissjóð eða almenning. Það skýtur því nokkuð skökku við ef ekki er leitað í þann þekkingarbrunn, en samtökin hafa ávallt látið í ljós vilja til að starfa með stjórnvöldum að útfærslu lausna á skuldavanda heimila með uppbyggilegum hætti.

Loks vilja samtökin ítreka áskorun sína til stjórnvalda um að virða og framfylgja reglum evrópska efnahagssvæðisins um neytendavernd sem Evrópudómstólinn hefur skýrt nánar, til að mynda með dómi sínum í máli nr. C-415/11, á þann veg óafturkræfar fullnustugerðir á borð við nauðungarsölur á heimilum neytenda séu óheimilar án undangengins dóms með hliðsjón af neytendarétti. Er þetta ekki síst brýnt í ljósi þeirra aðgerða sem fyrirhugaðar eru í því skyni að leysa úr þeim skuldavanda sem er um þessar mundir algengasta ástæða þess að fjölskyldur missa heimili sín og aðrar eignir í stórum stíl í hendur kröfuhafa á nauðungarsölu eða með sambærilegum hætti. Af þessum sökum væri réttast að stöðva allar óréttmætar aðfarir gegn heimilum og fjölskyldum nú þegar!


    - Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna