Menu
RSS

Lög um frestun á nauðungarsölum

Stjórn HH vill vekja athygli á lögum sem samþykkt voru á Alþingi nú rétt fyrir jól um frestun á nauðungarsölum, eftir mikla eftirfylgni og aðhaldi af hálfu HH og með hjálp nokkurra góðra aðila. Þeir sem standa frammi fyrir nauðungarsölu á heimili sínu geta nú sótt um frestun uppboðsins fram yfir 1. september 2014 á sérstöku eyðublaði með ákveðnum skilyrðum sem þar koma fram. Einnig geta þeir sem nýlega hafa misst heimili sín á nauðungarsölum, í þeim tilfellum þar sem samþykkisfrestur er ekki útrunninn, sótt um frest fram yfir 1. september á sama eyðublaði. Hafa ber í huga að samþykkisfrestur er yfirleitt aðeins þrjár vikur og að umsókn þeirra sem þegar hafa misst eignir sínar er háð samþykki kröfuhafa. Þeir aðilar sem eru í þessari stöðu þurfa því að hafa hraðar hendur! Ofangreindur frestur til 1. september 2014 getur nýst heimilum til nýta sér þau úrræði sem boðuð hafa verið eða grípa til varna. Eru félagsmenn HH sem og aðrir hvattir til að kynna sér vel réttindi sín í þessum efnum á meðan fresturinn er í gildi.

Read more...

Frestun á nauðungarsölum fagnað

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) fagnar því að innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, skuli loks hafa brugðist við ítrekuðum áskorunum samtakanna um að stöðva nauðungarsölur á heimilum neytenda.

Fulltrúar samtakanna áttu fund með innanríkisráðherra þann 9. október þar sem þessi krafa var sett fram, annars vegar vegna þess að samtökin telja nauðungaruppboð vera óréttmæt nema að undangengnum dómsúrskurði og hins vegar vegna þess að ótækt væri að bjóða upp húsnæði fólks á meðan beðið væri boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar. Svör ráðherrans við kröfum samtakanna voru á þá leið að stöðvun nauðungaruppboða gengi gegn stjórnarskárvörum réttindum kröfuhafa. Þegar ráðherrann var spurð nánar út í þetta í fjölmiðlaumræðum um nauðungaruppboð í kjölfar fundarins svaraði ráðherra því til að þetta væri samkvæmt áliti “helstu sérfræðinga á þessu sviði”.

Hagsmunasamtök heimilanna voru síður en svo sátt við þessi svör og skoruðu þann 16. október á ráðherra að skýra nánar í hverju þetta “álit helstu sérfræðinga á þessu sviði” um ófrávíkjanlegan rétt kröfuhafa felist. Þegar engin svör bárust frá ráðuneytinu ítrekuðu samtökin áskorun sína þann 18. október. Þeirri ítrekun hefur ekki verið svarað.

Nú virðast helstu sérfræðingar Innanríkisráðherra um nauðungaruppboð hafa komist að því að Hagsmunasamtök heimilanna hafi haft rétt fyrir sér, að vel sé hægt að stöðva nauðungaruppboð ef pólitískur vilji standi til þess. Hljóti frumvarpið samþykki þingsins verður því fjölskyldum gert kleift að fresta nauðungarsölum sem krafist er á heimilum þeirra fram yfir 1. júlí 2014, og skapa sér svigrúm til að bjarga heimili sínu frá því að verða tekið af þeim með svo harkalegum aðgerðum.

Hugur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna er þó þessa stundina með þeim sem standa frammi fyrir því núna rétt fyrir jólin, þangað til og ef þetta verður samþykkt á Alþingi, að heimili þeirra kunni að verða selt ofan af þeim. Einnig er hugur okkar hjá þeim sem þegar hafa misst heimili sín á nauðungarsölum sem haldnar hafa verið á ólöglegum grundvelli. Athygli er vakin á því að gildandi lög virðast ekki leyfa endurupptökur á nauðungarsölum, jafnvel þegar sýnt hefur verið fram á að þær hafi verið fengnar fram ólöglega í mörgum tilvikum, en úr því þarf jafnframt að bæta.

Einnig fagna Hagsmunasamtök heimilanna að á sama tíma hafi Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir fjárhagsaðstoð, fjármagnaða með gjaldi á fjármálafyrirtækin, vegna tryggingar fyrir skiptakostnaði þeirra sem vilja fara fram á gjaldþrot. Því fólki hefur hingað til verið haldið í árangurslausu fjárnámi þar sem fjármálastofnanir hafa ógjarnan viljað fara fram á gjaldþrot skuldara, eftir að fyrningartími krafna við gjaldþrotaskipti var styttur í tvö ár. Með því að auðvelda skuldurum að leita gjaldþrots má segja að loksins hafi fjármálafyrirtæki fengið hvata til að semja frekar við fólk heldur en að geta haft það undir hælnum endalaust.

Þess má geta að bæði framangreind atriði eru meðal þeirra sem Hagsmunasamtök heimilanna lögðu hvað mesta áherslu á í umsögn sinni um þingsályktunartillögu forsætisráðherra sem liggur til grundvallar aðgerðum stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna.

Málið á sér þá forsögu að á borgarafundi sem samtökin héldu í mars síðastliðnum var samþykkt áskorun til sýslumanna um að stöðva nauðungarsölur á grundvelli ólöglegra lána og á aðalfundi samtakanna í maí var samþykkt áskorun sem fylgt var eftir með opnu bréfi til sveitarfélaga og samtaka þeirra, um að stemma stigu við nauðungarsölum vegna yfirvofandi og fyrirsjáanlegs húsnæðisvanda íbúa.

Til stuðnings þessum áskorunum sínum létu samtökin gera löggilda íslenska þýðingu dóms Evrópudómstólsins um óréttmæta nauðungarsölu á grundvelli neytendasamnings. Nú síðast gerðu samtökin ítarlegarlega greinargerð þar sem óréttmæti nauðungarsalna án undangengins dóms er rakið með hliðsjón af íslenskum lögum og rétti. Neytendur sem standa frammi fyrir slíku geta nú nýtt það svigrúm sem þeim gefst næstu sex mánuði til að kynna sér þessi gögn, en reyna jafnframt sitt besta til þess að koma fjárhag heimilisins samtímis í farsælan farveg.

Greinargerð HH um óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Dómur Evrópudómstólsins í máli C-415/11 um óréttmæta nauðungarsölu

Read more...

Skuldaleiðréttingatillögur stjórnvalda: Betur þarf ef duga skal til framtíðar

 

Það er mat stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) að aðgerðaáætlun um höfuðstólslækkun húsnæðislána sem kynnt var í Hörpunni hinn 30. nóvember síðastliðinn, feli í sér ágætar tillögur eins langt og þær ná, en að þær séu samt sem áður allt of léttvægar miðað við ástandið eins og það er orðið í dag. Rétt er að hafa í huga að tillögurnar eiga eftir að hljóta þinglega meðferð og samþykki, þar sem þær geta tekið talsverðum breytingum eða jafnvel verið synjað. Forskriftin að aðgerðaráætluninni var lögð fram með þingsályktunartillögu forsætisráðherra á sumarþinginu og skiluðu HH inn ítarlegri umsögn um hana. Hefði aðgerðaráætlunin litið dagsins ljós strax árið 2009 hefðu HH efalaust fagnað henni ákaft enda er hún mjög í samræmi við kröfur samtakanna á þeim tíma. Forsendurnar nú þegar fimm ár eru liðin frá hruni eru hins vegar talsvert breyttar og finnst okkur í HH tími til kominn að stjórnvöld horfist í augu við vandann í stað þess að setja sífellt fleiri plástra með fallegum myndum á svöðusárin.

Gangi boðuð aðgerðaáætlun eftir mun það vissulega gagnast einhverjum hluta heimila landsins. Þrýstingur á ríkisstjórnina um að setja fram einhverja áætlun var vissulega mikill í ljósi þeirra loforða sem gefin voru í kosningabaráttunni síðasta vor. Það er hins vegar ekki nóg að gera “bara eitthvað”. Talsverð óvissa er uppi um lögmæti útfærslu verðtryggingar á neytendalánum og fyrir dómstólum eru nokkur mál vegna þessa. Meðal annars er mál að tilstuðlan HH og félagsmanna í samtökunum þar sem byggt er á því að útfærsla og framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hafi verið ólögmæt allt frá árinu 2001. Þetta þykir sumum kannski fjarstæðukennt en í því samhengi má minna á að samtökin höfðu rétt fyrir sér um ólögmæti gengistryggðra lána.

Aðgerðir til skuldalækkana áður en útkljáð hefur verið fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hafi verið löglega framkvæmd geta reynst samfélaginu öllu mjög dýrkeyptar. Mikilvægt er að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og afléttingu gjaldeyrishafta verði ekki lokið fyrr en álitamál um lögmæti samninga í lánasöfnum nýrra fjármálafyrirtækja í eigu þeirra, hafa verið útkljáð. Áður en það hefur verið gert er jafnframt varhugavert að leggja áhættu af því á herðar ríkissjóðs.

Þá vilja samtökin gagnrýna að ekki séu í aðgerðaáætlunni nein úrræði til að verja heimilin gegn óréttmætum nauðungarsölum án undangenginna dómsúrskurða, í það minnsta þar til boðaðar skuldaleiðréttingar komi til framkvæmda, sem getur verið eftir allt að 6 mánuði samkvæmt áætluninni. Ekki síst í ljósi þess að miðað við fram komnar tillögur um skuldaleiðréttingu er ljóst að þær kröfur sem hafðar eru í frammi við slíkar fullnustugerðir eru oftar en ekki á órökréttum grunni reistar. Leiða má líkur að því að í mjög mörgum tilvikum hefði heimilismissir verið óþarfur fyrir þær fjölskyldur sem í hlut eiga fyrir utan það tilfinningalega og sálræna álag sem það veldur fjölskyldum að þurfa að eiga á hættu að missa heimili sín, á meðan beðið er boðaðra aðgerða.

Í þessu sambandi má minna á að haft var eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra á RÚV hinn 11. nóvember að hún mundi skoða að stöðva nauðungarsölur á heimilum fólks og það yrði að fara saman við þær tillögur sem lúta að skuldamálum sem lagðar yrðu fram í lok nóvember. Nú bólar hinsvegar ekkert á efndum heldur er í raun gefið í og áfram veitt veiðileyfi á heimilin næstu 6 mánuði á meðan unnið verði að nánari útfærslu aðgerðaráætlunarinnar.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna