Menu
RSS

Falleinkunn seðlabankans í verðtryggingu

Í desember 2013 birtist í ritröð Seðlabanka Íslands “Efnahagsmál” skýrslan Verðtrygging 101. Nafngiftin vísar til þess að um sé að ræða grundvallarumfjöllun fyrir byrjendur, einhvers konar grunnnámskeið um verðtryggingu. Skýrslan er líklega ætluð sem hjálpargagn við “endurmenntun” þeirra sem eru svo “illa upplýstir” að þeir haldi því fram að verðtrygging neytendalána hafi valdið búsifjum fyrir allan almenning á Íslandi og jafnvel verið ólöglega útfærð í áratugi. Eftir lestur skýrslunnar verður hinsvegar ekki hjá því komist að veita henni og þar með Seðlabankanum falleinkunn í verðtryggingu 101, á grunnprófi sem Seðlabankinn samdi sjálfur.

Hagsmunasamtök heimilanna leggja áherslu á að gera þarf skýran greinarmun á annars vegar verðtryggingu lánasamninga á milli fagfjárfesta eða milli fagfjárfesta og Seðlabanka og hins vegar verðtryggingu lánasamninga milli fjármálastofnunar og neytenda (neytendalána). Allir þeir sem fjalla um verðtryggingu þurfa að gera skýran greinarmun á þessu tvennu, vilji þeir yfirhöfuð láta taka sig alvarlega. Áhrifin á hagkerfið eru gjörólík eftir því hvort um er að ræða verðtryggingu skuldbindinga milli fagfjárfesta eða milli fjármálastofnunar og neytenda, oftast til húsnæðiskaupa  fyrir fjölskylduna. Í fyrrnefnda tilfellinu hafa báðir aðilar beinan hag af því að halda verðbólgu í skefjum.

Þessu er ekki þannig farið þar sem um er að ræða lán fjármálastofnunar til venjulegrar fjölskyldu á sama tíma og ríkissjóður er jafnvel farinn að fjármagna sig í miklum mæli með útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa. Þá hafa ráðandi aðilar á markaði ekki lengur hag af því að halda verðbólgu í skefjun.     Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengi haldið því fram að verðtrygging neytendalána heimilanna sé birtingarmynd óstjórnar í rekstri ríkisins á hverjum tíma og því að bankarnir hafa í raun nánast óheft peningaprentunarvald. Með því berjast gegn verðtryggingu neytendalána er verið að ráðast gegn höfuðmeini íslenskra heimila og hagkerfis alls, gegn verðbólgunni sjálfri. Enn virðist því miður sem takmarkaður skilningur sé á samhenginu milli verðtryggingar neytendalána og verðbólgu.

Í skýrslunni “Verðtrygging 101” er verðtrygging lofsömuð í bak og fyrir og því meðal annars haldið fram að verðtrygging eyði verðbólgu. Slíkar fullyrðingar eru beinlínis rangar því verðtrygging neytendalána eyðir hvorki áhættu af né óvissu um verðbólgu, heldur færir áhrif verðbólgunnar frá lánveitanda yfir á lántaka. Þá er því einnig haldið fram að verðtrygging sé ekki verðbólguvaldandi, án þess að geta þess að um þetta hafa lengi verið skiptar skoðanir. Nýlegar rannsóknir hafa þvert á móti sýnt svo ekki verður um villst að verðtrygging útlána bankakerfisins til neytenda eykur peningamagn í umferð, sem í óheftum mæli leiðir sjálfkrafa til aukinnar verðbólgu, auk þess sem bent hefur verið á að verðtrygging geti valdið bjögun á vaxtamyndun. Vangaveltur í skýrslunni um þau álitamál sem eru fyrir dómstólum varðandi ólögmæti verðtryggðra neytendalánasamninga, bera jafnframt vott um vanþekkingu á þeim sjónarmiðum sem þar eru uppi, einkum er varða neytendarétt samkvæmt íslenskum lögum.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert ítarlega samantekt þar sem fjallað er um þær fjölmörgu villur, rangfærslur, og órökstuddu staðhæfingar sem bregður fyrir í skýrslu Seðlabankans “Verðtrygging 101”. Í samantektinni er bent á dæmi um að vinnubrögð við skýrslugerðina eru á köflum ófagmannleg, þar er hrapað að ályktunum, jafnvel byggt á fyrirframgefnum viðhorfum, auk þess sem meðferð tilvísana í ritaðar heimildir og rangtúlkanir á þeim byggðar eru í mörgum tilvikum ákaflega vafasamar.

Fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna áttu fund síðastliðinn föstudag með seðlabankastjóra ásamt föruneyti þar sem meðal annars var rætt um ofangreinda skýrslu auk þess sem rædd voru áhrif verðtryggingar á hagkerfið og seðlabankastjóra greint frá málssókn á vegum samtakanna vegna verðtryggðs fasteignaláns sem fjallað verður um í Héraðsdómi Reykjavíkur innan skamms.

Read more...

Opinber tilmæli um seðlabankavexti brutu í bága við reglur

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða nr. 20/2010 frá 30. júní 2010 hafi ekki samræmst reglum um útgáfu óskuldbindandi og leiðbeinandi tilmæla af hálfu stjórnvalda og þannig brotið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Meðal þess sem umboðsmaður reifar í niðurstöðu sinni er að slíka einhliða breytingu á skilmálum lánssamninga einkaaðila sé stjórnvöldum ekki heimilt að kveða á um án fyrirliggjandi lagaheimildar, en eins og Hagsmunasamtök heimilanna vöktu athygli á og gagnrýndu harðlega á sínum tíma var slík heimild hvergi fyrir hendi, í það minnsta ekki þannig að gæti átt við um lánssamninga neytenda.

Framangreind niðurstaða umboðsmanns í kjölfar ítrekaðara dóma þar sem álagning svokallaðra seðlabankavaxta í stað samningsvaxta hefur ítrekað verið dæmd óheimil, eru enn eitt tilvikið í langri röð áfellisdóma yfir vinnubrögðum stjórnsýslunnar og sýnir hversu alvarlega hefur skort á að gætt sé að hagsmunum almennings gagnvart fjármálastofnunum. Einnig segir í niðurstöðunni að með tilmælunum kunni Seðlabankinn og FME að hafa skapað ríkinu skaðabótaskyldu. Af því tilefni er rétt er að benda á að álagning hærri vaxta en skuldbinding nær til var fyrst og fremst íþyngjandi fyrir lántakendur og þeir kynnu því að eiga rétt til skaðabóta, en hærri vextir hafa aftur á móti ekki valdið kröfuhöfum neinu tjóni heldur þvert á móti aukið hagnað þeirra. Þannig er málið og niðurstaða þess ekki aðeins dæmi um alvarlega vanrækslu og skort á eftirliti eins og skrásett hefur verið í langar skýrslur að undanförnu, heldur allt að því óviðurkvæmilega meðvirkni viðkomandi eftirlitsstofnana með starfsháttum sem eru efnahagslega skaðlegir heimilum landsmanna.

Ítarefni:

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6077/2010

Upptaka frá borgarafundi í Iðnó 28. júní 2010 í tilefni af gengislánadómum Hæstaréttar

Fréttatilkynning HH frá 30. júní 2010 vegna tilmæla SÍ og FME um sk. seðlabankavexti

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna