Menu
RSS

Álitsgerð um leiðréttingu gjaldeyrislána neytenda

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ákveðið að birta álitsgerð um rétt neytenda til leiðréttinga lána í erlendum gjaldmiðlum. Eins og kemur fram í álitsgerðinni er hér þó aðeins um að ræða lágmarksrétt sem á eingöngu við um lán í erlendum gjaldeyri.

Afstaða samtakanna hvað þetta varðar er reyndar sú að til þess að geta talist vera í erlendum gjaldmiðlum hljóti slík lán að þurfa að hafa verið greidd út í þeim gjaldmiðlum. Þar sem engin dæmi eru um að það hafi verið raunin og fasteignaviðskipti hér á landi fara almennt fram í íslenskum krónum, hljóta slík lán einnig að vera í íslenskum krónum og tenging þeirra við erlenda gjaldmiðla hlýtur þar með að fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Þetta hafa sumir lánveitendur þó ekki viðurkennt og er því enn um það deilt fyrir dómstólum.

Álitsgerðinni er þar af leiðandi ekki ætlað að marka ítrasta rétt neytenda vegna ólögmætrar gengistryggingar, og er mikilvægt að taka mið af því við lestur hennar og notkun. Rétt er að benda sérstaklega á viðauka í lok álitsgerðarinnar þar sem má finna samantekt í stuttu máli á því hvenær sé réttur sem um ræðir á við og hvenær ekki, og með hvaða hætti getur verið við hæfi að bera þeim rétti fyrir sig, til dæmis í málaferlum.

Read more...

Gagnabeiðni vegna neytendalána

Meðfylgjandi er eyðublað sem neytendur geta fyllt út og sent lánafyrirtækjum til þess að óska eftir að fá afhent afrit af öllum gögnum varðandi neytendalán. Tilgangur slíkrar gagnaöflunar getur til dæmis verið sá að kanna réttarstöðu sína eða ganga úr skugga um hvort lánasamningar standist lög og reglur sem um þá gilda. Þeir sem standa í þeim sporum að verja eða sækja rétt sinn þurfa jafnframt að afla slíkra gagna vegna málaferla.

Lántakendur og ábyrgðarmenn eru hvattir til þess að kanna vel lána- og ábyrgðarsamninga með hliðsjón af því hvort gætt að hafi verið öllum lögbundnum skilyrðum við þær lánveitingar. Til að mynda hvort veittar hafi verið upplýsingar um lánskostnað og greiðsluáætlun samkvæmt lögum um neytendalán, hvort gert hafi verið greiðslumat ef um er að ræða ábyrgðarsamning og hvort forsendur þess og niðurstöður eru sýndar. Einnig hvort samningurinn hafi að geyma ólögmæta skilmála um breytilegan kostnað eða einhliða breytingar á kostnaði án viðhlítandi skýringa á forsendum þeirra.

Mörg dæmi eru um tilfelli þar sem lánveitendur hafa ekki gætt að þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar um vönduð vinnubrögð og sem leiða má af gildandi lagareglum. Fyrir utan gengistryggingu sem flestum ætti að vera orðið kunnugt um að sé ólögmæt, hafa sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð ítrekað verið dæmd ógild vegna vanrækslu á að gera greiðslumat eða það ekki nægilega vandað. Einnig hafa gengið dómar um að óheimilt hafi verið að breyta vöxtum til hækkunar eða innheimta verðtryggingu þar sem ekki var gerður áskilnaður um það í samningi á nægilega skýran og greinilegan hátt.

Upptalning þessi er engan veginn tæmandi um öll möguleg atriði sem getur verið ábótavant þannig að leitt geti til ógildingar eða leiðréttingar af einhverju tagi, og enn eru margvísleg álitamál um slíkt enn óleyst. Allnokkur dómsmál eru yfirstandandi nú þegar varðandi verðtryggð húsnæðislán og hefur meðal annars verið leitað eftir áliti frá EFTA-dómstólnum um áhrif þess að leyna kostnaði við verðtryggingu fyrir neytanda, en Neytendastofa hefur einmitt kveðið á um að slíkir viðskiptahættir séu óréttmætir og þar með bannaðir.

Einnig eru fyrir dómstólum mál þar sem deilt er um kostnað vegna yfirdráttar á tékkareikningum þar sem ekki var gerður skriflegur samningur, og hefur nú þegar einn dómur um slíkt mál fallið neytenda í hag en búast má við að honum verði áfrýjað og málið tekið fyrir í Hæstarétti Íslands næsta haust. Gagnabeiðnin getur einmitt nýst þeim sem kannast ekki við að hafa skrifað undir samning eða fengið upplýsingar um kostnað, til þess að leita eftir staðfestingu á því hvort afrit af slíkum gögnum séu fyrir hendi hjá lánveitenda.

Loks má nefna að vegna endurútreikninga neytendalána líkt og Hagsmunasamtök heimilanna hafa boðið félagsmönnum að undanförnu gegn hóflegu gjaldi, er nauðsynleg að útvega gögn um forsendur lánsins og greiðslusögu, en gagnabeiðnin getur einmitt nýst í þeim tilgangi. Beiðnin er útbúin sem eyðublað og er einfalt að fylla það út og senda til lánveitanda. Neytendum er bent á að halda eins vel og hægt er utan um öll gögn sem þannig fást afhent, svo þau geti komið að notum ef til þess kemur að reyni á réttindi þeirra og skyldur.

Read more...

Óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa að undanförnu vakið athygli á miklum fjölda auglýstra nauðungarsala á heimilum fólks. Á fundi sem fulltrúar samtakanna áttu í byrjun október með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, var þess krafist að nauðungarsölur vegna neytendalána verði stöðvaðar tímabundið, m.a. á þeirrri forsendu að ríkisstjórnin hefur sjálf sett fram tímasettar áætlanir til hjálpar skuldugum heimilum.


Svör ráðherra voru á þann veg að lögfræðingar og ráðgjafar ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar telji slíkt ekki mögulegt vegna ófrávíkjanlegs eignarréttar kröfuhafa samkvæmt stjórnarskrá. Samtökin skoruðu í kjölfarið á ráðherra að gefa nánari skýringar á þessum orðum sínum. Einnig var farið fram á lögfræðilegar skýringar á þeim fullyrðingum innanríkisráðherra að stöðvun nauðungarsala gangi gegn réttindum þeirra sem þegar hafa misst heimili sín á nauðungarsölu, sem hlýtur að teljast afar sérstök fullyrðing hjá ráðherranum.


Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur engu svarað kröfum samtakanna um skýringar, þrátt fyrir að þær hafi verið margítekaðar. Það ætti að vera leikur einn fyrir sérfræðinga ráðuneytisins eða ráðgjafa ríkisstjórnarinnar að veita umbeðin svör, enda hefur ráðherrann haldið því fram í  fjölmiðlum að  “það sé skoðun margra lögfróðra aðila að ekki sé mögulegt að stöðva nauðungarsölur nema fara gegn stjórnarskrá og það sé álit sem allir þekkja og vita sem fjallað hafa um þessi mál”. En hvar er þetta álit sem allir þekkja og allir vita af? Svörin sem borist hafa frá ráðuneytinu hafa verið að benda á útvarpsviðtal við ráðherrann 21. október þar sem hún sneiddi fimlega hjá spurningum þáttastjórnenda Ísland í Bítið um margumbeðnar lögfræðiskýringar.


Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú gefist upp á biðinni og sjálf unnið 14 blaðsíðna greinargerð um fullnustur neytendalána án undangengins dómsúrskurðar þar sem farið er yfir þær lagagreinar og evróputilskipanir sem máli skipta í þessu samhengi. Helsta niðurstaða greinargerðarinnar er sú að skilmálar í samningum við neytendur sem kveða á um rétt lánveitenda til að krefjast fullnustu kröfu án undangengis dóms eða sáttar, séu óréttmætir og þar með óskuldbindandi fyrir neytendur. Byggist sú niðurstaða einkum á því að með beitingu slíkra skilmála séu neytendur í raun sviptir þeim rétti sem þeir að óbreyttu myndu njóta til úrlausnar fyrir þar til bærum dómstól innan ramma fullnustumeðferðarinnar, þar á meðal um hvort stöðva skuli frekari athafnir við fullnustuna þar til fengist hafi dómsúrlausn um ágreining er varðar samningsskilmála, meðal annars þá sem sjálf fullnustan byggist á.


Það hlýtur að teljast sérstakt að sjálfboðaliðasamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna geti lagt fram ítarlegar lögskýringar með greinargerð um óréttmæti nauðungarsala án undangengins dómsúrskurðar á meðan Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, með alla starfsmenn    innanríkisráðuneytisins á bak við sig, visar í viðtal við sig sjálfa sem lögskýringu. Svo virðist sem ráðuneytið og innanríkisráðherra eigi engar lögskýringar í fórum sínum sem standast nánari skoðun. Það er von stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna að meðfylgjandi greinargerð geti nýst þeim neytendum sem vilja grípa til varna og verjast því að heimili þeirra verði seld nauðungarsölu án dóms og laga.

Hér má nálgast sjálfa greinargerðina:

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna