Lausn á vanda Íslandsbanka með hjálp einstaklinga
- Published in Sögur af viðskiptum við lánastofnanir
- Written by Ólafur Garðarsson
- Be the first to comment!
Það þykir sérdeilis góður kostur nú á tímum að vera lausnar-miðaður eins og gjarnan er sagt á fremur óþjálli nútíma íslensku. Orðið lausnari kemur líka í hugann, fagurt íslenskt orð sem segja má að sé nánast samheiti orðsins frelsari enda hafa bæði orðin verið notuð jöfnum höndum um Krist sjálfan í tímans rás. Nú hefur Íslandsbanki af rausnarskap sínum boðist til að gerast eins konar lausnarmiðaður lausnari lánþega á borð við mig og auglýsir linnulítið og feitu letri: „Lausnir Íslandsbanka fyrir einstaklinga“. Í mínu tilviki miðast lausnir bankans við það að lækka höfuðstólinn (eftirstöðvarnar sem hækkað hafa um 117% miðað við áætlun) af gengistryggða húsnæðisláninu mínu um 25%, breyta því í leiðinni í íslenskt lán með breytilegum vöxtum og lækka greiðslubyrðina fyrstu mánuðina um 36%. Er nema von að maður tárist af hugulseminni sem manni er sýnd á viðsjárverðum og þungbærum tímum.