Athygli vakin á tilmælum FME til lánastofnana
- Category: Frá Hagsmunasamtökum heimilanna
Nýverið gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli til lánastofnana, slitastjórna og dótturfélaga vegna svonefndra gengistryggðra lána. Hagmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á tilmælunum því þau eiga brýnt erindi til fjármálafyrirtækja og þó fyrr hefði verið. Samtökin taka undir með FME um að fjármálafyrirtæki sinni skyldum og virði lögmætan rétt viðskiptavina til skjótra úrlausna sinna mála. Hagsmunasamtök heimilanna brýna fyrir lánveitendum, slitastjórnum og dótturfélögum að neytendur skulu ávallt njóta vafa þar til allri réttaróvissu hefur verið eytt.
Rétt er að taka fram að lán sem nefnd eru í tilmælum lögleg erlend lán eru ekki til nema um erlenda lánastofnun sé að ræða eða lán til erlends aðila. Hagsmunasamtök heimilanna taka eftir sem áður undir tilmæli FME um að lántakar fái lagalegar skýringar í hendur um það hvernig lán geti talist gjaldeyrislán en ekki gengistryggt lán. Lánastofnanir geta ekki einhliða tekið slíka ákvörðun varðandi nein gengistengd lán að mati samtakanna. Fjármálastofnanir þurfa að sanna að um lögmætt gjaldeyrislán sé að ræða. Í því sambandi er FME hvatt til að senda út leiðsögn til fjármálafyritækja um að sönnunarbyrði liggi þeirra megin, sérstaklega þegar um neytendur er að ræða, enda sé ekki nema eðlilegt að minnimáttar í viðskiptasambandi njóti vafans.
f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna
Ólafur Garðarsson
formaður stjórnar