Menu
RSS

Athygli vakin á tilmælum FME til lánastofnana

Nýverið gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli til lánastofnana, slitastjórna og dótturfélaga vegna svonefndra gengistryggðra lána. Hagmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á tilmælunum því þau eiga brýnt erindi til fjármálafyrirtækja og þó fyrr hefði verið. Samtökin taka undir með FME um að fjármálafyrirtæki sinni skyldum og virði lögmætan rétt viðskiptavina til skjótra úrlausna sinna mála. Hagsmunasamtök heimilanna brýna fyrir lánveitendum, slitastjórnum og dótturfélögum að neytendur skulu ávallt njóta vafa þar til allri réttaróvissu hefur verið eytt.

Rétt er að taka fram að lán sem nefnd eru í tilmælum lögleg erlend lán eru ekki til nema um erlenda lánastofnun sé að ræða eða lán til erlends aðila. Hagsmunasamtök heimilanna taka eftir sem áður undir tilmæli FME um að lántakar fái lagalegar skýringar í hendur um það hvernig lán geti talist gjaldeyrislán en ekki gengistryggt lán. Lánastofnanir geta ekki einhliða tekið slíka ákvörðun varðandi nein gengistengd lán að mati samtakanna. Fjármálastofnanir þurfa að sanna að um lögmætt gjaldeyrislán sé að ræða. Í því sambandi er FME hvatt til að senda út leiðsögn til fjármálafyritækja um að sönnunarbyrði liggi þeirra megin, sérstaklega þegar um neytendur er að ræða, enda sé ekki nema eðlilegt að minnimáttar í viðskiptasambandi njóti vafans.

f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna

Ólafur Garðarsson

formaður stjórnar

 

Ályktun stjórnar HH: Lánveitendur beri ábyrgð á rangri framkvæmd verðtryggingar

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) vill að gefnu tilefni árétta að fyrirliggjandi dómsmál um lögmæti verðtryggingar byggist alfarið á rökum sem einungis eru reist á grundvelli gildandi laga á Íslandi. Ekkert í þeim málatilbúnaði byggir á neinum tilgátum um ranga innleiðingu tilskipana um neytendarétt, heldur þvert á móti á móti á réttri og vandaðri innleiðingu þeirra í lög hér á landi frá upphafi. Sé hinsvegar einhver vafi um það hvað þau þýði megi gjarnan skýra lögin um neytendalán með hliðsjón af fyrirmælum þeirra tilskipana sem voru innleidd á sínum tíma.

Dómsmál það sem samtökin hafa beitt sér fyrir (vegna verðtryggðs láns) fjallar um meint brot á neytendarétti sem er alfarið á ábyrgð lánveitenda að mati stjórnar HH og að höfðu samráði við lögmenn sem unnið hafa að undirbúningi málsins sem byggir að öllu leyti á þessu. Íslensk lög eru í grundvallaratriðum í samræmi við tilskipanir sem gilda um neytendalán innan EES-ríkjanna.

Þetta sjónarmið styðja margvísleg gögn, þar á meðal greinargerð bankaeftirlits Seðlabanka Íslands (forvera FME) um upplýsingaskyldu vegna lánveitinga dags. 6. nóvember 1990 ásamt bréfi til viðskiptaráðuneytisins dags. 25. febrúar 1991 með beiðni um forgöngu þess fyrir því að svokallaðir virkir vextir yrðu lögfestir (einnig þekktir sem árleg hlutfallstala kostnaðar) og umsögn eftirlitsins um hið upphaflega frumvarp til laga um neytendalán dags. 14. október 1992, auk tillögu sem var tekin orðrétt inn í breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar ásamt skýringum í nefndaráliti þar sem segir orðrétt að vísitölubinding og verðlagsviðmiðun teljist til vaxtagjalda. Frumvarpið ásamt þessum breytingartillögum nefndarinnar hlutu samþykki Alþingis áður en þau tóku gildi í apríl 1993, og þar af leiðandi hlýtur vilji löggjafans að mega teljast hafa verið skýr að þessu leyti.

Sú afstaða sem kemur fram af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í nýlegu áliti vegna fyrirspurnar Dr. Elviru Mendez við Háskóla Íslands, gefur ekki tilefni til þess að draga neinar ályktanir um að neitt misræmi sé milli íslenskra laga um neytendalán annars vegar og þeirra tilskipana sem þeim var ætlað að innleiða hinsvegar, eins og þau lúta að skyldu lánveitenda til að gera ráð fyrir verðbótum í lánskostnaði og árlegri hlutfallstölu. Með hliðsjón af fyrirliggjandi staðreyndum kemur því ekki til greina af hálfu HH að leita réttar neytenda á grundvelli meintra rangra innleiðinga að svo stöddu.

Svo virðist þó sem öfl í samfélaginu sem eru hliðholl óbreyttum fjármálageira vilji láta líta út fyrir að um ranga innleiðingu hafi verið að ræða, svo fjármálastofnanir geti reynt að firra sig ábyrgð og jafnvel beint kröfum að ríkissjóði. Hagsmunasamtök heimilanna harma slíkan málflutning og vilja gjarnan leiðrétta hverskonar misskilning sem kann að vera fyrir hendi varðandi þær aðgerðir HH sem snúa að verðtryggingu og málaferlum vegna neytendalána. Megin umkvartanir hafa snúið að því að framkvæmd útgáfu neytendalána hafi verið röng af hálfu lánveitenda að mati samtakanna og að það séu fyrst og fremst framkvæmdaaðilar sem beri óskipta einkaréttarlega ábyrgð á afleiðingum þess.

Lesa má umsögn HH um nýtt neytendalánafrumvarp hér.

Ályktun vegna álits frá framkvæmdastjórn ESB á framkvæmd verðtryggingar neytendalána

Verðtrygging lánasamninga samkvæmt vísitölu neysluverðs er heimil samkvæmt íslenskum lögum. Fróðir félagsmenn og fulltrúar samtakanna hafa kortlagt heimildirnar en þær eru í reynd undanþágur frá almennum vaxtalögum. Verðtrygging greiðslna m.v. vísitölu neysluverðs er eini lánskostnaðurinn auk hefðbundinna vaxta sem er leyfilegur samkvæmt vaxtalögunum. Það var á grundvelli þessara skýru ákvæða vaxtalaga sem Hæstiréttur Íslands dæmdi gengistryggingu lánasamninga ólögmæta þann 16. júní 2010, einkum í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010.

Framkvæmd þessarar heimildar er mjög ábótavant í lánasamningum hérlendis. Brotalamir eru svo alvarlegar og víðtækar að fullt tilefni þykir til að útkljá málið fyrir dómstólum. Eftir ítarlega lögfræðilega rannsóknarvinnu hefur verið undirbúin málsókn sem nálgast þessi álitaefni einmitt út frá þeim lagaskilningi sem kemur fram í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Mál sem höfðað er á þeim grundvelli var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. október 2012.

Read more: Ályktun vegna álits frá framkvæmdastjórn ESB á framkvæmd verðtryggingar neytendalána

Félagsfundur HH: Staðan og næstu skref.

Hagsmunasamtök heimilanna halda opinn félagsfund fimmtudaginn 7. mars nk kl. 20:00 í Stýrimannaskólanum við Háteigsveg. Á fundinum verður greint frá stöðu mála í baráttunni og næstu skrefum, niðurstöður nýrrar könnunar meðal félagsmanna kynntar, auk þess sem sagt verður frá niðurstöðum nýrrar skýrslu um bein áhrif verðtryggingar á verðbólgu.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundinn og hafa þannig áhrif á störf og stefnu samtakanna. Allir velkomnir!

Varaformannsskipti og ráðning starfsmanns

Guðmundur Ásgeirsson hefur sagt af sér varaformennsku í HH. Stjórnin þakkar Guðmundi vel unnin störf, sem reyndar voru framúrskarandi þannig að ákveðið var að ráða hann sem starfsmann. Nú eru því tveir starfsmenn í hlutastarfi hjá HH. Vilhjálmur Bjarnason hefur tekið við sem varaformaður stjórnar.

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna