Menu
RSS

Hvað gerir Seðlabankinn til þess að verja neytendur við afnám hafta?

Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði​ frá því að efnahagshrun varð á Íslandi, 2008. Nú hefur Seðlabankinn kynnt áætlun um afnám fjármagnshafta sem sett voru í kjölfar þessa efnahagsáfalls sem hafði víðtæk áhrif á samfélagið. Samtökin hafa nú óskað eftir formlegu svari um fyrirbyggjandi aðgerðir bankans frá fjármálastöðuleikasviði Seðlabankans fyrir hönd sinna félagsmanna og þeirra fjölmörgu sem eru skuldbundnir verðtryggðum neytendalánum á Íslandi. Óskað er eftir ítarlegum upplýsingum um aðgerðir til þess að tryggja almannahagsmuni hvað þetta varðar við afnám fjármagnshafta. Í ​hnotskurn er því spurt, hvaða aðgerðir standa nú fyrir dyrum hjá Seðlabankanum sem tryggja að fjárhagslegir erfiðleikar lánþega sem skuldbundnir eru verðtryggðum lánum endurtaki sig ekki?

Read more...

Málflutningur fyrir Hæstarétti um verðtryggð neytendalán 20. nóvember

Á fjórða ár er nú liðið síðan Hagsmunasamtök heimilanna ákváðu að undangengnum ítarlegum rannsóknum, að hefja undirbúning dómsmáls þar sem látið yrði reyna á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Fyrir réttum þremur árum var slíkt mál höfðað, og hefur málareksturinn síðan þá verið eitt veigamesta verkefni samtakanna. Upphaflega var búist við því að málið gæti fengið flýtimeðferð og voru jafnvel sett lög í því skyni, en engu að síður hefur það undið margvíslega upp á sig og tafist svo mikið sem raun ber vitni. Það er því nokkuð ánægjuefni að málið hefur loksins komist á dagskrá Hæstaréttar Íslands til efnislegrar meðferðar, þann 20. nóvember næstkomandi.

Meðal þess sem reynir á í málinu er að lánveitandi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögum um neytendalán með því að afhenda enga greiðsluáætlun með sundurliðun á kostnaði við lántökuna, sérstaklega um verðbætur sem eru jafnan stærsti kostnaðarliður neytendalána hér á landi. Málatilbúnaði er hagað þannig að niðurstaða málsins getur haft víðtæk fordæmisáhrif fyrir langflest verðtryggð neytendalán þar sem kostnaður vegna verðbóta er ekki tilgreindur af hálfu lánsveitanda.

Falli dómur í málinu neytendum í hag mun það hafa hundruða milljarða króna þýðingu til hagsbóta fyrir heimilin. Eins og gefur að skilja binda Hagsmunasamtök heimilanna miklar vonir við að málið hljóti sanngjarna úrlausn fyrir Hæstarétti Íslands og verði dæmt í samræmi við íslensk lög, skýrð til samræmis við reglur EES-samningsins.

Sjá einnig samantekt um feril málsins hér.

Read more...

Málfutningur um verðtryggð neytendalán næsta föstudag

Hagsmunasamtök heimilanna minna á að föstudaginn 20. nóvember verður mál nr. 243/2015 flutt frammi fyrir fjölskipuðum Hæstarétti Íslands. Þar með er komið að ögurstundu í þessu máli sem samtökin höfðu forgöngu að í því skyni að láta reyna á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Þrjú ár eru liðin síðan málið var upphaflega höfðað en leið þess gegnum dómskerfið hefur verið óvenju löng og torsótt. Í febrúar síðastliðnum féll dómur héraðsdóms í málinu, þar sem var í raun fallist á að viðkomandi lánssamningur samræmdist ekki lögum um neytendalán. Hinsvegar var ekki kveðið á um neinar afleiðingar þess, og kemur því nú til kasta Hæstaréttar að taka afstöðu til þeirrar kröfu að lánið verði leiðrétt á sambærilegan hátt og lán með ólöglega gengistryggingu. Verði fallist á þá kröfu gæti það haft gríðarlega jákvæð áhrif á stöðu verðtryggðra lána heimilanna. Málflutningurinn fer fram í dómsal I og hægt verður að fylgjast með frá áhorfendapöllum, en þeim sem það vilja gera er bent á að mæta tímanlega.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna