Hvað gerir Seðlabankinn til þess að verja neytendur við afnám hafta?
- Published in Frá Hagsmunasamtökum heimilanna
Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði frá því að efnahagshrun varð á Íslandi, 2008. Nú hefur Seðlabankinn kynnt áætlun um afnám fjármagnshafta sem sett voru í kjölfar þessa efnahagsáfalls sem hafði víðtæk áhrif á samfélagið. Samtökin hafa nú óskað eftir formlegu svari um fyrirbyggjandi aðgerðir bankans frá fjármálastöðuleikasviði Seðlabankans fyrir hönd sinna félagsmanna og þeirra fjölmörgu sem eru skuldbundnir verðtryggðum neytendalánum á Íslandi. Óskað er eftir ítarlegum upplýsingum um aðgerðir til þess að tryggja almannahagsmuni hvað þetta varðar við afnám fjármagnshafta. Í hnotskurn er því spurt, hvaða aðgerðir standa nú fyrir dyrum hjá Seðlabankanum sem tryggja að fjárhagslegir erfiðleikar lánþega sem skuldbundnir eru verðtryggðum lánum endurtaki sig ekki?