Menu
RSS

Um 90% landsmanna styðja baráttu HH fyrir því að skorið verði úr um lögmæti útfærslu verðtryggðra neytendalána

Hagsmunasamtök heimilanna nýttu síðustu þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til að kanna viðhorf almennings til mikilvægis þess að skorið verði úr um lögmæti útfærslu verðtryggðra húsnæðislána. Niðurstöðurnar sýna að 89% landsmanna telja það mjög eða frekar mikilvægt að efnisleg niðurstaða fáist um það fyrir dómstólum hvort verðtrygging neytendalána hafi verið ólöglega framkvæmd frá árinu 2001, eins og fjallað er um í dómsmáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Íbúðalánasjóði.

Þetta afgerandi viðhorf ætti vissulega að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld og stjórn Íbúðalánasjóðs, sem beitt hefur ýmsum lagatæknilegum aðferðum til að hindra að dómsmál um verðtryggingu neytendalána sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki fái efnislega meðferð. Málið var fyrst þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan október árið 2012. Síðan þá hefur Íbúðalánasjóður tvisvar farið fram á að málinu yrði vísað frá dómi. Krafa um frávísun var samþykkt af dómstólum í fyrra skiptið, en seinni frávísunarkröfunni (í maí síðastliðnum) var hafnað af dómara héraðsdóms. Þegar málið fær loks efnislega meðferð er því liðið hátt á annað ár frá því það hóf göngu sína innan dómskerfisins.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað gagnrýnt framgöngu Íbúðalánasjóðs í þessu máli. Í mars síðastliðnum var skorað á æðsta yfirmann Íbúðalánasjóðs, Eygló Harðardóttur húsnæðismálaráðherra að leggja það fyrir stjórnendur sjóðsins að falla frá kröfu um frávísun málsins. Á það var ekki fallist en þrátt fyrir allt komst héraðsdómur að lokum að þeirri niðurstöðu að seinni frávísunarkrafan væri ekki á rökum reist og hafnaði henni.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna að sjálfsögðu niðurstöðu þjóðmálakönnunar sem sýnir svo ekki verður um villst að almenningur stendur að baki baráttu samtakanna um að skorið verði úr um það hvort framkvæmd verðtryggingar hér á landi gangi gegn ákvæðum laga um neytendalán.

Read more...

Könnun HH meðal frambjóðenda 2013

Niðurstöður könnunar HH meðal frambjóðenda til Alþingiskosninga 2013.

MIKILVÆG LEIÐRÉTTING

Þau mistök urðu að netfangalisti frá Lýðræðisvaktinni misfórst í meðförum skrifstofu HH og fengu frambjóðendur aldrei boð um þátttöku í könnuninni. Þetta er ástæða þess að Lýðræðisvaktin er ekki með. Daði Ingólfsson sendi okkur listann strax 4. apríl og var því vel tímanlega í málinu. F.h. Hagsmunasamtaka heimilanna vil ég biðja Daða Ingólfsson og frambjóðendur Lýðræðisvaktarinnar afsökunar á þessum mistökum.

Ólafur Garðarsson
Formaður stjórnar HH

Smellið hér til að opna niðurstöður könnunarinnar

Við hófum að senda út beiðnir til framboðanna fyrir nokkrum vikum um netföng frambjóðenda svo hægt væri að senda þeim könnunina. Könnunin var send á yfir 600 netföng frambjóðenda. 183 frambjóðendur svöruðu en vegna misræmis í fjölda á milli framboða var tekin sú ákvörðun að hafa aðeins þá sem svöruðu úr 10 efstu sætunum. Það ætti að duga til að gefa félagsmönnum mynd af áherslum framboðanna.

Read more...

Viðhorfskönnun meðal félagsmanna HH 2013

Hagsmunasamtök heimilanna sendu út viðhorfskönnun til  félagsmanna nú í lok febrúar. Slíkar kannanir hafa verið gerðar árlega frá árinu 2009. Margt er athyglisvert í niðurstöðunum, en í þeim kemur fram samanburður milli ára á nokkrum þáttum. Aðeins þeir félagsmenn sem höfðu merkt við að þeir vilji svara könnunum samtakanna fengu þátttökuhlekk í tölvupósti. Svarhlutfall var 32%, eða 2.784 þátttakendur.

Smella hér til að sækja niðurstöður könnunar.

Samsetning félagsmanna hefur lítið breyst frá árinu 2012. Mest breyting hefur þar orðið á stöðu á vinnumarkaði, þar sem svarendum í fullri vinnu og sjálfstætt starfandi hefur fækkað nokkuð. Hvað varðar stuðning við stjórnmálaflokka endurspegla niðurstöðurnar aukið fylgi Framsóknarflokksins að undanförnu. Athygli vekur hins vegar að  tæp 30% ætla ekki að kjósa eða skila auðu.

Spurt var um hvort þátttakendur hefðu beðið um að fá að sjá frumrit lánasamninga, en langflestir svara því til að þeir hafi ekki beðið um eintak. Stjórn HH hvetur félagsmenn til að óska eftir því við lánastofnanir að fá að sjá frumrit samninga sinna. Einnig er athyglisvert að skoða svör lántaka með gengislán, en í ljós kemur að 78% þeirra hafa ekki fengið endurútreikning í samræmi við dóma Hæstaréttar.

Spurt var um embætti Umboðsmanns skuldara (UMS), en í ljós kemur að aðeins um fjórðungur þeirra sem leitað hafa til embættisins hafa fengið lausn sinna mála. Athygli vekur að 26% hefur verið vísað frá og 16% svarenda segjast ekki vita hver staða málsins er. Einnig var spurt um það hvort fólk hefði þurft að leita sér mataraðstöðar, og svöruðu 13% þeirri spurningu játandi. Það er athyglisvert að af þeim höfðu um 80% leitað eftir aðstoð hjá fjölskyldu eða vinum, sem gefur til kynna að opinberar tölur um mataraðstoð hjá hjálparsamtökum gefi alls ekki rétt mynd af því hversu stór hluti fólks er í neyð.

Hið ánægjulega við niðurstöðurnar fyrir stjórn HH er að ánægðum með störf stjórnar hefur fjölgað enn frekar og dregið hefur úr hlutfalli óánægðra.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna