Menu
RSS

Lántakendur gæti réttar síns varðandi greiðsluaðlögunarsamninga

Athygli er vakin á því að nú eru liðin þrjú ár frá því Landsbankinn, og mögulega fleiri lánveitendur, buðu upp á greiðsluaðlögunarsamninga um lækkun skulda án trygginga, skulda með lánsveði og skulda með sjálfskuldarábyrgð. Tilkynnt var um þetta á heimasíðu Landsbankans þann 26. maí 2011 og var veittur frestur til að sækja um slíkan samning til 15. júlí 2011. Samningarnir voru gerðir til þriggja ára og fólust í því að lántaki notaði 10% af tekjum heimilis samkvæmt upplýsingum á skattframtali fyrir árið 2010, til að greiða af skuldbindingum sem féllu undir samninginn næstu þrjú árin. Stæði lántaki við samninginn áttu eftirstöðvar þeirra krafna sem samningurinn náði til að falla niður í lok samningstímans. Niðurfærsla gat að hámarki numið 4 milljónum króna til einstaklinga og 8 milljónum króna fyrir hjón eða sambúðarfólk.

Að undanförnu hafa samtökunum borist fyrirspurnir frá einstaklingum varðandi þessa greiðsluaðlögunarsamninga. Ástæðan er sú að birst hafa í heimabanka greiðsluseðlar sem eiga við um þau lán sem samið var um á sínum tíma þar sem lántakendur eru krafnir um greiðslur á vöxtum og verðbótum fyrir samningstímabilið (síðustu þrjú ár) auk einhverra afborgana. Þetta stenst að sjálfsögðu ekki það sem um var samið og hefur við nánari eftirgrennslan í einhverjum tilfellum komið í ljós að um “mistök” hafi verið að ræða sem lagfærð verði “handvirkt” í hverju og einu tilfelli. Mikilvægt er að lántakar gæti réttar síns og geri strax athugasemdir ef slíkar kröfur sem ættu að vera fallnar brott vegna greiðsluaðlögunarsamninga, birtast óvænt að nýju í heimabanka.

Read more...

Milligöngumaður en ekki raunverulegur “umboðsmaður” skuldara

Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) hafa borist þau svör frá velferðarráðuneyti að reglugerð sú sem skylt er setja samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010) sé ekki til.

34. gr. Reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Ráðherra setur að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem m.a. skal kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar.

 

Samtökin hafa frá því í október sl. óskað eftir því að fá reglugerð þessa afhenta, fyrst hjá embætti umboðsmanns skuldara (UMS). Í svari embættisins kom fram að “umrædd reglugerð hefur ekki verið sett og þar af leiðandi hefur embætti umboðsmanns skuldara ekki útbúið umsögn um reglugerðina.” Svar UMS er heldur skringilegt í ljósi þess að í lagagreininni kemur skýrt fram að umsögnin sé forsenda reglugerðarinnar, frekar en á hinn veginn.

HH sendu um miðjan nóvember fyrirspurn til velferðarráðuneytis þar sem óskað var eftir þessari sömu reglugerð. Engin svör bárust frá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekanir og að lokum var ákveðið að leggja fram kæru vegna málsins til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Enn bárust engin svör, og það var ekki fyrr en að úrskurðarnefnd hafði sent ítrekun til ráðuneytisins að svar barst loks þann 7. febrúar. Í svarinu kom fram að velferðarráðuneytið hafi “hafið vinnu við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á vormánuðum 2013. Þar sem unnið er að endurskoðun laganna hefur verið ákveðið að fresta setningu reglugerðar um greiðsluaðlögun einstaklinga uns gerðar hafa verið nauðsynlegar breytingar á lögunum.”

Eins og til að bæta gráu ofan á svart hefur nánari athugun reyndar leitt í ljós að reglur um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sem lögin kveða á um, eru heldur ekki til:

32. gr. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.

Félags- og tryggingamálaráðherra skal skipa kærunefnd greiðsluaðlögunarmála til fjögurra ára í senn. Heimilt er að skjóta til hennar ákvörðunum í samræmi við ákvæði laga þessara.

Í kærunefnd greiðsluaðlögunarmála sitja þrír menn. Skulu að minnsta kosti tveir þeirra hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og annar uppfylla hæfisskilyrði til að vera héraðsdómari. Ráðherra skipar nefndarmann sem fullnægir þeim skilyrðum til að vera formaður kærunefndar.

Úrskurðir kærunefndar greiðsluaðlögunarmála eru endanlegir á stjórnsýslustigi.

Ráðherra setur reglugerð um störf nefndarinnar.

 

HH sendu fyrirspurn til kærunefndarinnar um miðjan febrúar síðastliðinn þar sem óskað var eftir þessari tilteknu reglugerð, sem var svarað með áframsendingu fyrirspurnarinnar til ráðuneytisins. Engin svör bárust heldur frá ráðuneytinu í þetta sinn, innan þess frests sem upplýsingalög kveða á um, og var því einnig ákveðið að leggja fram aðskilda kæru vegna þessa til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Svar frá ráðuneytinu við ítrekun nefndarinnar á fyrirspurninni barst í aprílmánuði en í því var vísað til þess sama og varðandi fyrrnefndu reglugerðina, að unnið væri að endurskoðun laga um greiðsluaðlögun sem stefnt væri að á vormánuðum 2013. Ekkert bólar þó enn á úrbótum og breytir það heldur engu um að lengst af hafa þessar lögkveðnu reglur ekki verið fyrir hendi.

Stjórn HH átti í byrjun þessa árs fund með með umboðsmanni skuldara þar sem settar voru fram athugasemdir um starfshætti embættisins, m.a. hvað varðar synjun umsókna einstaklinga um greiðsluaðlögun á framangreindum forsendum. Á fundinum kom fram að fulltrúar UMS líta fyrst og fremst á sig sem hlutlausa milligönguaðila milli skuldara og fjármálastofnunar. Það er nokkuð þröng túlkun þar sem í lögum um UMS (nr. 100/2010) segir að hlutverk umboðsmanns sé “að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi.” Hins vegar er það rétt að í lögin vantar ýmsar valdheimildir sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að geta raunverulega varið hagsmuni og réttindi skuldara, einkum í ljósi þess að fjöldi lántaka situr uppi með ólögmætar skuldir, sem fjármálafyrirtækin hafa þráast við að endurreikna.

Stjórn HH setur spurningamerki við þá vinnu sem innt hefur verið af hendi hjá embætti UMS, þar sem umsjónarmenn hafa leitt skuldara í gegnum greiðsluaðlögun síðastliðin tvö ár, án þess að hafa nokkuð í höndunum til að tryggja samræmi í framkvæmd þessa ferlis. HH hafa staðfestar heimildir fyrir fjölda dæma um að skuldarar hafi nú þegar kært synjun um greiðsluaðlögun á þeim forsendum að framangreindar reglur séu ekki fyrir hendi. Samtökin vilja að gengið verði lengra og krefjast þess að öllum umsækjendum sem synjað hefur verið um greiðsluaðlögun á vafasömum forsendum verði gefinn kostur á endurupptöku sinna mála og greiðsluskjóli þar til lögkveðnar reglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar liggja fyrir. Reyndar hlýtur skortur á reglum um störf kærunefndar að setja samskonar spurningamerki við afgreiðslu mála þar á bæ. Virðist því sem fullkominn óvissa sé fyrir hendi um lögmæti framkvæmdar greiðsluaðlögunar og meðferð kærumála í tengslum við hana. Samtökin hvetja skuldara til að gæta réttar síns í hvívetna.

Í ljósi alls þessa virðist sú mynd sem dregin hefur verið upp fyrir sjónum almennings af UMS sem einhverskonar hagsmunagæsluaðila fyrir skuldara, vera beinlínis röng og titillinn “umboðsmaður skuldara” því jafnvel villandi. Að undanförnu hefur nefnd á vegum forsætisráðuneytisins unnið að úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og skilaði hún nýverðið niðurstöðum með skýrslu sem hefur verið birt á vef ráðuneytisins. Í skýrslunni er fjallað um verkaskipting á þessu sviði og meðal annars vísað (á bls. 85) til minnisblaðs umboðsmanns skuldara til nefndarinnar, dags. 11. janúar 2013 þar sem komið hafi fram sú afstaða að eftir rúmlega tvö ár frá stofnun embættisins þætti rétt að staldra við og endurskoða hlutverk þess. Mikilvægt væri að huga að stefnumótun og framtíðarhlutverki embættisins og full ástæða til að kanna hvaða verkefni eigi best heima hjá embættinu og hver ekki. Að sama skapi væri full þörf á að skerpa á samstarfi þeirra opinberu aðila sem sinna neytendavernd á fjármálamarkaði. Við þetta hafa HH svo sem engu að bæta.

Í því skyni leggur nefndin meðal annars til að neytendastofa og embætti talsmanns neytenda verði lögð niður og þeirra í stað stofnað nýtt og öflugt embætti Umboðsmanns Neytenda þar sem neytendur geti fengið úrlausn sinna mála á einum stað, auk þess sem fjárveitingar til eftirlits og rannsókna á sviði neytendaverndar verði stórauknar. Í sérstökum kafla um greiðsluerfiðleika og úrræði sem heyra undir umboðsmann skuldara er fjallað um nauðsyn þess að leggja aukna áherslu á forvarnir við greiðsluerfiðleikum, heldur en úrræði til að takast á við skuldavanda sem hefði jafnvel mátt fyrirbyggja. Þessi sjónarmið taka Hagsmunasamtök heimilanna heilshugar undir og telja að fulljóst sé orðið að stærsta vandamál íslenskra heimila sé í raun ekki skuldavandi, heldur skortur á neytendavernd, sem á fjármálamarkaði hefur þar til nýlega verið nánast engin. Með því að færa neytendum úrræði til að gæta réttar síns samkvæmt gildandi reglum um neytendavernd, má telja víst að þeim tilfellum færi ört fækkandi þar sem um raunverulegan skuldavanda væri að ræða. Miklu nær væri að tala um lánavanda hjá fjármálafyrirtækjum sem gætu þurft að sætta sig við afleiðingar þess þegar neytendalán í þeirra eigu reynast innihalda óréttmæta skilmála.

- f.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

 

Sjá nánar meðfylgjandi málsgögn og eldri fréttir þessu tengdar:

Málsgögn kærumáls vegna reglugerða um greiðsluaðlögun

Samræmdar verklagsreglur um greiðsluaðlögun einstaklinga?

HH kæra velferðarráðuneytið öðru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Gögn sýna vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána

Ný gögn staðfesta enn frekar vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána

 

Talsmaður Neytenda um svipað mál tengt innheimtugjöldum:

Innheimtukostnaður miðist ekki við hlutfall

 

Forsætisráðuneytið:

Skýrsla nefndar um neytendavernd á fjármálamarkaði

 

Read more...

HH kæra velferðarráðuneytið öðru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) sendu þann 18. febrúar sl. erindi til Velferðarráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að fá afhenta reglugerð þá sem ráðherra er skylt að setja skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010), þar sem lögunum til fyllingar skal nánar kveðið á um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Skemmst er frá því að segja að engin svör hafa borist frá ráðuneytinu við fyrirspurninni og hafa HH því kært tafir og skort ráðuneytisins á svörum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samtökin telja ótvírætt að slík reglugerð hljóti að vera gagn sem skylt sé að veita almenningi aðgang að skv. upplýsingalögum, sé þess óskað.

Þess má geta að HH hafa áður, þann 17. janúar sl., kært á sama veg skort ráðuneytisins á svörum við sambærilegri fyrirspurn samtakanna frá nóvember 2012 sem var ítrekuð í desember, varðandi reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kveðið skal á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar, og sem tryggja skal samræmdar verklagsreglur hjá embætti Umboðsmanns skuldara (UMS) við afgreiðslu og framkvæmd greiðsluaðlögunar.

Þar sem þessar tvær umræddar reglugerðir liggja hvergi frammi að því er virðist, og hvorug þeirra hefur fengist afhent þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, virðist sem allnokkur óvissa ríki um þær málsmeðferðarreglur sem unnið er eftir í greiðsluaðlögun og kærumeðferð slíkra mála. Kann það að gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stjórnsýslulegu lögmæti framkvæmdar greiðsluaðlögunar í þeim málum sem þegar hafa verið afgreidd eða eru til meðferðar, hafi í reynd aldrei verið settar viðhlítandi reglur sem átt hafi að tryggja samræmda framkvæmd við meðferð þeirra. Slík staða kynni hugsanlega að þurfa að koma til skoðunar í ljósi jafnræðissjónarmiða stjórnsýsluréttar.

Hagsmunasamtök heimilanna munu koma á framfæri upplýsingum um framvindu eftirgrennslan um þær reglugerðir sem um ræður þegar að því kemur að þær liggi fyrir, en eðlilegur tími til slíkrar málsmeðferðar er allt að fimm vikur samkvæmt verklagsreglum úrskurðarnefndarinnar.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna