Menu
RSS

HH senda Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna ESÍ og Dróma

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), dótturfélags þess Hildu ehf. og samvinnu þeirra við Dróma hf. Samtökin sendu umboðsmanni ábendingar sínar skömmu fyrir jól, í tilefni af rannsókn embættisins á lagagrundvelli fyrir flutningi verkefna Seðlabanka Íslands í einkahlutafélög.

Meðal þess sem bent er á í erindi samtakanna er að auk þeirra félaga sem getið var um í bréfi umboðsmanns frá október síðastliðnum, eigi þau jafnframt fleiri dótturfélög, þar á meðal Hildu ehf., sem hafi stundað innheimtu lánasafna fyrir hönd Seðlabanka Íslands hjá heimilum og fyrirtækjum sem voru viðskiptavinir fallinna fjármálafyrirtækja. Jafnframt hafi Seðlabankinn og Hilda ehf. veitt Dróma hf. umboð til umsýslu og innheimtu viðkomandi lánasafna fyrir sína hönd, þrátt fyrir að það fyrirtæki hefði engar lögboðnar heimildir til að stunda slíka innheimtu fyrir aðra.

Í þessu samhengi er vakin athygli á því að október 2013 komst Fjármálaeftirlitið að sömu niðurstöðu, og sektaði Dróma fyrir að hafa stundað innheimtu fyrir aðra án innheimtuleyfis. Kom fram í þeirri ákvörðun að innheimtan hefði síðar færst yfir til Arion banka, en ekki hafa komið opinberlega fram neinar skýringar á forsendum þeirrar ráðstöfunar eða hvernig um hana hafi verið samið.

Einnig er rakið í erindinu hvernig Fjármálaeftirlitið (FME) mælti fyrir um stofnun Dróma hf. án þess að veitt hefði verið nein heimild til stofnunar slíks fyrirtækis í hinum svokölluðu neyðarlögum sem sett voru vegna fjármálahrunsins árið 2008. Vakin er athygli á því að Drómi er skráð sem eignarhaldsfélag en hefur aldrei haft starfsleyfi, hvorki sem fjármálafyrirtæki né sjálfstæður innheimtuaðili.

Samtökin gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við sinnuleysi Fjármálaeftirlitsins gagnvart þeim langvarandi og stórfelldu lögbrotum sem framin hafa verið af hálfu Dróma og á ábyrgð slitastjórnar SPRON. Í því samhengi er bent á að óeðlileg tengsl kunni að hafa myndast milli þessara aðila þegar fyrrum sviðsstjóri hjá FME var skipaður formaður slitastjórnar SPRON og stjórnarformaður Dróma.

Með erindi samtakanna til umboðsmanns fylgja ýmis gögn sem eru opinberlega aðgengileg eða hafa borist frá félagsmönnum, og styðja þær athugasemdir sem koma fram í erindinu. Þar á meðal er rannsóknarskýrsla um starfsemi Dróma sem samtökin tóku saman og gáfu út í nóvember 2013, en í henni er nánar gerð grein fyrir þeim atriðum sem athugasemdirnar beinast að, ásamt miklum fjölda tilvísana á opinberar heimildir og umfjöllun um málefni sem tengjast þeirri starfsemi.

Hagsmunasamtök heimilanna vonast til þess að birting þeirra upplýsinga sem þau hafa safnað saman og ábendingar á grundvelli þeirra til Umboðsmanns Alþingis, verði til þess að knýja enn frekar á um að ráðist verði í opinbera rannsókn á starfsemi þeirra fyrirtækja sem urðu til í kjölfar bankahrunsins en opinberar rannsóknarnefndir hafa hingað til aðeins rannsakað atburði sem gerðust fyrir þann tíma. Að sama skapi er brýnt að einkavæðing bankanna árið 2009 hljóti sambærilega rannsókn.

Hér má nálgast rannsóknarskýrslu HH um starfsemi Dróma hf.:

Read more...

Opinber tilmæli um seðlabankavexti brutu í bága við reglur

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða nr. 20/2010 frá 30. júní 2010 hafi ekki samræmst reglum um útgáfu óskuldbindandi og leiðbeinandi tilmæla af hálfu stjórnvalda og þannig brotið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Meðal þess sem umboðsmaður reifar í niðurstöðu sinni er að slíka einhliða breytingu á skilmálum lánssamninga einkaaðila sé stjórnvöldum ekki heimilt að kveða á um án fyrirliggjandi lagaheimildar, en eins og Hagsmunasamtök heimilanna vöktu athygli á og gagnrýndu harðlega á sínum tíma var slík heimild hvergi fyrir hendi, í það minnsta ekki þannig að gæti átt við um lánssamninga neytenda.

Framangreind niðurstaða umboðsmanns í kjölfar ítrekaðara dóma þar sem álagning svokallaðra seðlabankavaxta í stað samningsvaxta hefur ítrekað verið dæmd óheimil, eru enn eitt tilvikið í langri röð áfellisdóma yfir vinnubrögðum stjórnsýslunnar og sýnir hversu alvarlega hefur skort á að gætt sé að hagsmunum almennings gagnvart fjármálastofnunum. Einnig segir í niðurstöðunni að með tilmælunum kunni Seðlabankinn og FME að hafa skapað ríkinu skaðabótaskyldu. Af því tilefni er rétt er að benda á að álagning hærri vaxta en skuldbinding nær til var fyrst og fremst íþyngjandi fyrir lántakendur og þeir kynnu því að eiga rétt til skaðabóta, en hærri vextir hafa aftur á móti ekki valdið kröfuhöfum neinu tjóni heldur þvert á móti aukið hagnað þeirra. Þannig er málið og niðurstaða þess ekki aðeins dæmi um alvarlega vanrækslu og skort á eftirliti eins og skrásett hefur verið í langar skýrslur að undanförnu, heldur allt að því óviðurkvæmilega meðvirkni viðkomandi eftirlitsstofnana með starfsháttum sem eru efnahagslega skaðlegir heimilum landsmanna.

Ítarefni:

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6077/2010

Upptaka frá borgarafundi í Iðnó 28. júní 2010 í tilefni af gengislánadómum Hæstaréttar

Fréttatilkynning HH frá 30. júní 2010 vegna tilmæla SÍ og FME um sk. seðlabankavexti

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna