Menu
RSS

Niðurstaða ESA um kvörtun vegna verðtryggðra neytendalána

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að niðurstöðu í kvörtunarmáli Hagsmunasamtaka heimilanna yfir útfærslu verðtryggðra neytendalána og dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 þar sem rétturinn lagði blessun sína yfir framkvæmd sem þó er ljóst að var andstæð EES-reglum.

Í stuttu máli vísaði stofnunin málinu frá sér á þeirri forsendu að viðkomandi lög væru ekki lengur í gildi og því óþarfi fyrir stofnunina að knýja á um breytingar á þeim. Þessi lokaniðurstaða er í samræmi við bráðabirgðaniðurstöðu sem barst frá stofnuninni í fyrra og kemur því ekki á óvart.

Þó að kvörtunin hafi ekki leitt til neinnar efnislegrar niðurstöðu hjá ESA, komu engu að síður fram dýrmætar upplýsingar í málinu sem munu gagnast í áframhaldandi baráttu fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði. Ber þar hæst að ákvörðunin felur í sér viðurkenningu á því að eldri lögin sem ekki eru lengur í gildi hafi verið í andstöðu við EES-reglur um neytendalán.

Við meðferð málsins kom fram skýr viðurkenning íslenskra stjórnvalda á umræddu broti sem Hagsmunasamtök heimilanna ætla að sækja skaðabætur fyrir. Þetta styður að sjálfsögðu eindregið málstað neytenda í skaðabótamáli sem var nýlega höfðað fyrir tilstilli samtakanna og gefur aukið tilefni til bjartsýni um að skaðabótakrafan nái fram að ganga.

Einnig er tekið sterkt til orða í ákvörðuninni um mikilvægi þess að neytendur séu ávallt upplýstir rækilega um allan kostnað við lántöku og vísað til þess að Dómstóll Evrópusambandsins telji það vera algjört frumskilyrði neytendaverndar. Á ensku er notað orðalagið “of critical importance” og verður varla kveðið mikið fastar en svo að orði í niðurstöðum dómstóla.

Að teknu tilliti til alls þessa og þrátt fyrir frávísun, sem er að vissu leyti skiljanleg vegna brottfalls viðkomandi laga, verður engu að síður að telja kvörtunina hafa skilað mjög þýðingarmiklum afrakstri. Þessi ákvörðunin er ekki endir að neinu heldur aðeins áfangi á leiðinni að því að sækja réttindi neytenda vegna ólögmætrar útfærslu verðtryggðra lána.

Hér má sjá kvörtunina ásamt öllum gögnum málsins:

Read more...

Íslenska ríkið skaðabótaskylt á hvorn veginn sem málið fer

Eftirlitsstofnun EFTA

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent formlega kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) yfir framkvæmd verðtryggðra neytendalána og brotum gegn EES-reglum á sviði neytendaverndar af hálfu íslenska ríkisins. Ástæða þess er sú að í nóvember 2015 voru hagsmunir fjármálafyrirtækja látnir vega þyngra en neytendaréttur í æðsta dómsal landsins, í máli Hagsmunasamtaka heimilanna um framkvæmd verðtryggra neytendalána (nr. 243/2015). Framkvæmd slíkra lána hér á landi hefur ekki verið í samræmi við EES-reglur um upplýsingaskyldu lánveitenda, þar sem fjármálafyrirtækin hafa undanskilið kostnað vegna verðtryggingar, þ.e. verðbætur, frá lögboðinni upplýsingagjöf til neytenda um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna lántöku.

Á fundi í þjóðmenningarhúsinu þann 14. mars, síðastliðinn, beindi fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna þeirri spurningu til Carl Baudenbacher, forseta EFTA-dómstólsins, hvort þess væru dæmi að farið hefði verið gegn ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins. Vísaði Baudenbacher í umræddan dóm Hæstaréttar sem einsdæmi í þessu tilliti og benti jafnframt á að með því að fara gegn EES-reglum og áliti EFTA-dómstólsins um túlkun á þeim, gæti aðildarríki EES-samningsins orðið skaðabótaskylt gagnvart tjónþolum. Umræddur dómur Hæstaréttar varpar ljósi á bágborna réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði á Íslandi og hvað barátta Hagsmunasamtaka heimilanna undanfarin átta ár fyrir úrbótum í þágu íslenskra heimila hefur í raun snúist um. Hagsmunasamtök heimilanna neyðast til þess að leita réttar íslenskra neytenda utan landssteinanna, því erfitt hefur reynst að fá úr þessari réttaróvissu skorið hér á landi.

Einfaldleikinn er sá að annað hvort er innleiðingin af hálfu Alþingis, á þeim neytendarétti sem um ræðir í málinu, röng sem gerir Alþingi ábyrgt og þá að sama skapi er dómur Hæstaréttar réttur. Eða þá að dómur Hæstaréttar er rangur sem gerir Hæstarétt og dómskerfið ábyrgt en sýknar Alþingi og stjórnkerfið af þeim alvarlegu ásökunum sem felast í niðurstöðu Hæstaréttar. Á hvorn veginn sem niðurstaða ESA verður gerir það að verkum að íslenska ríkið er því miður orðið skaðabótaskylt gagnvart neytendum vegna skorts á kynningu heildarlántökukostnaðar fyrir neytendum af hálfu lánveitenda. Það er afar leitt, því allur málatilbúnaður Hagsmunasamtaka heimilanna hefur gengið út á það að lánveitendur eigi að sjálfir að bera skaðabótaskyldu vegna alls tjóns sem þessi brot þeirra hafa valdið íslensku samfélagi og heimilum landsmanna.

ESA kvörtun 2016

Sjá meðfylgjandi samantekt um efni kvörtunarinnar (UPPFÆRT 17.4.2018 sjá kvörtunina í heild ásamt öllum gögnum málsins):

Read more...

Hæstiréttur brást neytendum á Íslandi - HH kvarta til ESA

Hæstiréttur Íslands fór gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli Hagsmunasamtaka heimilanna um framkvæmd verðtryggðra neytendalána. Þetta er einsdæmi í sögu dómstólsins. Hæstiréttur dæmdi þvert á alþjóðlega samninga og skuldbindingar ríkisins um upplýsingaskyldu og neytendarétt.

Í nóvember síðastliðnum vógu hagsmunir fjármálastofnanna þyngra en neytendaréttur í æðsta dómsal landsins. Þessi dómur Hæstaréttar (243/2015) varpar ljósi á stöðu neytendaréttar á fjármálamarkaði á Íslandi og þá baráttu sem samtökin hafa staðið frammi fyrir í átta ár fyrir heimili landsmanna. Hagsmunasamtök heimilanna munu leita réttar íslenskra neytenda utan landssteinanna, því ekki er mögulegt að fá úr þessari réttaróvissu skorið hérlendis. Réttindabarátta samtakanna hefur því færst út fyrir landssteinana.

ESAbanner

Innan skamms munu samtökin senda formlega kvörtun til ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) um framkvæmd verðtryggðra neytendalána og brot íslenska ríkisins á alþjóðlegum samningum um neytendarétt. Þetta er fyrsta skrefið í áframhaldandi baráttu samtakanna fyrir rétti neytenda á fjármálamarkaði. Í þjóðmenningarhúsinu þann 14. mars, síðastliðinn, lagði fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna fyrirspurn fyrir Carl Baudenbacher, forseta EFTA dómstólsins um fordæmi þess að farið sé gegn ráðgefandi áliti dómstólsins innan EFTA. Vísaði hann í ofangreindan dóm Hæstaréttar sem einsdæmi í þessu tilliti en við meðferð málsins lá fyrir ráðgefandi álit EFTA dómstólsins. Forseti dómstólsins benti einnig á að með því að fara gegn alþjóðlegum samningum og áliti dómstólsins gæti aðildaríki verið skaðabótaskylt gagnvart brotaþola.

Það er ótækt að fjármálastofnanir hérlendis séu ekki bundnar sambærilegri upplýsingaskyldu og framkvæmd lánasamninga eins og víðast hvar annars staðar. Í þessu tilliti brást Hæstiréttur íslenskum neytendum.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna