Menu
RSS

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli E-27/13

EFTA-dómstóllinn hefur kveðið upp ráðgefandi álit sitt í máli E-27/13, um útreikning lánskostnaðar og árlegrar hlutfallstölu kostnaðar verðtryggðra neytendalána, samkvæmt tilskipun 87/102/EBE. Niðurstaða dómstólsins er sú að það samræmist ekki ákvæðum tilskipunarinnar að útreikningar á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, séu miðaðir við 0% verðbólgu.

Hagsmunasamtök heimilanna telja álitið veita skýrar leiðbeiningar um þessi sjónarmið sem liggja til grundvallar málaferlum þar sem reynir á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Sú skilgreining nær samkvæmt íslenskum lögum frá 1. október 1993 yfir hverskyns neytendalán, þar á meðal námslán, bílalán, kostnaður vegna yfirdráttarlána, almenn skuldabréfalán og fleiri, en fasteignalán voru felld undir sömu reglur frá og með 11. janúar 2001. Samkvæmt lögskýringargögnum með frumvarpi til laga um neytendalán frá 1993 teljast verðbætur falla undir upplýsingaskyldu um lánskostnað með sama hætti og vextir.

Álit EFTA-dómstólsins rennir styrkum stoðum undir ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014 þar sem talið var að óheimilt hefði verið að miða útreikning lánskostnaðar við forsendur um 0% verðbólgu. Dómstólar hér á landi þurfa nú að taka mið af álitinu við úrlausn mála um verðtryggð lán, og munu jafnframt þurfa að beita sömu reglum íslenskra laga í málum er varða húsnæðislán. Niðurstaða EFTA-dómstólsins gefur íslenskum dómstólum einstakt tækifæri til að dæma eftir skýrum íslenskum lögum og auka trú almennings á dómskerfið, sem hefur mælst lágt í könnunum að undanförnu.

Mikil umræða hefur verið um hvort verðtryggð húsnæðislán falli einnig undir EFTA álitið, en það fjallaði um verðtryggt neytendalán sem er ekki húsnæðislán. Hagsmunasamtök heimilanna hafa alla tíð vakið athygli á því að verðtryggð húsnæðislán heimilanna falli undir íslensk lög um neytendalán með sama hætti og önnur neytendalán. Þess má geta að á þessum sama grundvelli er nú rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að í samstarfi við félagsmenn í samtökunum. Upphaf málsins má rekja aftur til ársins 2012 en aðalmálflutningur verður loksins þann 8. desember og niðurstaða héraðsdóms gæti legið fyrir upp úr áramótum.

Enn og aftur ítreka Hagsmunasamtök heimilanna nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist við þeirri stöðu sem uppi er með því að stöðva nauðungarsölur á heimilum og fresta gjaldþrotameðferð einstaklinga. Á meðan óvissa er uppi um lögmæti þess að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum, hníga málefnaleg rök að því að veita slíka frestun. Jafnframt er nauðsynlegt að hugað verði að því að færa í lög heimildir til endurupptöku slíkra mála, í þeim tilfellum sem gengið hefur verið þannig fram gegn neytendum á grundvelli lána sem gætu hafa verið ólögmæt.

Mikilvægt er að að stjórnvöld hugi að skyldum sínum til þess að standa vörð um réttindi neytenda, og forgangsraði þeim framar hagsmunum fjármálafyrirtækja. Í þeirri umræðu sem framundan er um þessi mál á opinberum vettvangi má búast við því að allskyns fullyrðingar muni heyrast og ummæli falli sem getur verið vandi að átta sig á hvort að eigi við rök að styðjast. Rétt er að hvetja til hófstilltrar og rökrænnar umræðu í þjóðfélaginu, enda er í raun um frekar einföld álitaefni að ræða, þó svo að lagatæknilegar hliðar þeirra virðist ef til vill stundum flóknar.

Loks er rétt að benda á að engin ástæða er til að hafa þungar áhyggjur af áhrifum dómsmála um verðtryggð neytendalán á efnahagslegan stöðugleika þjóðarbúsins. Verði niðurstöður þeirra mála neytendum í hag og lánveitendum í óhag, hafa þeir flestir talsvert borð fyrir báru. Ekki ein einasta króna mun tapast út úr íslensku hagkerfi hvort sem tilteknar fjármunaeignir flytjist á milli aðila eða ekki. Það að útfærsla verðtryggðra neytendalána yrði talin ólögmæt gæti haft mjög jákvæð áhrif á hag íslenskra heimila ef rétt er að málum staðið af íslenskum stjórnvöldum, og myndi gera heimilunum betur kleift að taka þátt í uppbyggingu á blómlegu íslensku efnahagslífi til framtíðar. Ekki má gleymast að heimilin eru grunnstoð samfélagsins.

Read more...

EFTA dómstóllinn tekur undir með Hagsmunasamtökum heimilanna um að íslenskir dómstólar skuli skera úr um lögmæti verðtryggingar

- Spurningum um ólögmæti enn ósvarað

Í dag skilaði EFTA dómstóllinn áliti sínu í einu af þremur málum sem eru fyrir dómstólum og fjalla um lögmæti verðtryggingar. Mál þetta er höfðað af einstaklingi gegn Íslandsbanka og snýst um húsnæðislán út frá óréttmætum samningsskilmálum. Það er frábrugðið öðrum málum er varða verðtryggingu og bíða úrlausnar fyrir dómstólum að því leyti að málatilbúnaðurinn byggist ekki á tilskipun um neytendalán. Helsta spurningin sem leitað var álits um í þessu máli snýr að því hvort verðtryggingin sjálf sé lögleg, en ekki hvort útfærsla hennar og kostnaður hafi verið rétt kynntur fyrir lántakendum. Niðurstaða EFTA dómstólsins er sú að það sé á færi íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort skilmálar verðtryggðra neytendalána séu óréttmætir.

Tvö önnur mál um verðtryggingu eru fyrir dómstólum, annað þeirra er rekið af Hagsmunasamtökum heimilanna og hitt af Verkalýðsfélagi Akraness. Bæði snúast þau um framkvæmd verðtryggingar hér á landi, það er hvort kynning fyrir neytendum á kostnaði við verðtryggingu sé í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994, en lögin fela í sér mjög skýr ákvæði um upplýsingagjöf til neytenda við lántöku. Dómsmál það sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki er rekið af félagsmönnum í samtökunum, en samtökin greiða af því allan kostnað. Málið fjallar um venjulegt, íslenskt, verðtryggt húsnæðislán sem tekið var hjá Íbúðalánasjóði. Málatilbúnaðurinn snýst um útfærslu verðtryggingar og upplýsingar um hana í lánasamningi þar sem miðað var við 0 % verðbólgu í greiðsluáætlun. Þetta telja samtökin ekki samræmast ákvæðum laga um neytendalán (nr. 121/1994) og á það við um lán til fasteignakaupa frá árinu 2001 þegar neytendalánalögunum var breytt þannig að þau næðu einnig til húsnæðislána. Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur enda telur Neytendastofa, stjórn HH og lögmenn sem komið hafa á málinu það mjög skýrt í íslenskum lögum um neytendalán hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í lánasamningum um lánskostnað, þar með talið verðbætur. Álit EFTA dómstólsins fá því í morgun styður ákvörðun Hagsmunasamtaka heimilanna um að ekki væri þörf á áliti frá EFTA vegna dómsmálsins sem samtökin standa að baki, enda eru íslensk lög um neytendalán alveg skýr. Íslenskir dómstólar ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að dæma eftir þeim um hið sérséríslenska fyrirbrigði sem verðtrygging neytendalána er.

Efnisleg meðferð í máli Hagsmunasamtaka heimilanna mun fara fram þegar EFTA dómstóllinn hefur skilað ráðgefandi áliti í máli sem Verkalýðsfélag Akraness stendur að baki. Þar er ekki um að ræða húsnæðislán heldur neytendalán án veðs í fasteign. Að öðru leyti er málatilbúnaður mjög sambærilegur við mál Hagsmunasamtaka heimilanna, þ.e.a.s. snýst um upplýsingagjöf til neytenda varðandi verðtryggingu.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei haldið því fram að verðtrygging sem slík sé ólögleg milli fagfjárfesta, fjármálafyrirtækja og ríkisins. Þegar hins vegar kemur að lánasamningum við neytendur ber lánveitendum skylda til að standa rétt að upplýsingagjöf í samræmi við lög um neytendalán. Þeirri spurningu hvort rétt hafi verið staðið að þeirri upplýsingagjöf, og þar með hvort útfærsla verðtryggðra neytendalánasamninga sé og hafi verið lögleg hér á landi, er því enn ósvarað.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna