Menu
RSS

Dagar verðtryggðra neytendalána taldir

Eitt stærsta verkefni Hagsmunasamtaka heimilanna undanfarin ár hefur verið málarekstur fyrir dómstólum, þar sem hefur verið látið reyna á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Nú eru liðin þrjú ár síðan mál var höfðað í því skyni gegn Íbúðalánasjóði. Upphaflega var gert ráð fyrir að málið gæti fengið flýtimeðferð og voru jafnvel sett lög í því skyni, en engu að síður hefur það undið margvíslega upp á sig og tafist svo mikið sem raun ber vitni. Það er því nokkuð ánægjuefni að málið hefur loksins komist á dagskrá Hæstaréttar Íslands til efnislegrar meðferðar, þann 20. nóvember næstkomandi. Á þessum tímamótum er kannski við hæfi að líta yfir farinn veg og rifja upp framgang málsins frá upphafi.

15. mars 2012 - Málskostnaðarsjóður HH stofnaður
18. október 2012 - Mál höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
18. desember 2012 - Íbúðalánasjóður krefst frávísunar
4. apríl 2013 - Málflutningur um frávísunarkröfu í héraði
30. apríl - Héraðsdómur úrskurðar og vísar málinu frá dómi
14. maí 2013 - Frávísun kærð til Hæstaréttar Íslands
29. maí 2013 - Hæstiréttur staðfestir frávísunarúrskurð
22. október 2013 - Mál höfðað að nýju fyrir héraðsdómi
16. janúar 2014 - Íbúðalánasjóður krefst frávísunar
28. mars 2014 - Héraðsdómari úrskurðar sig vanhæfan í málinu
9. apríl 2014 - Úrskurður um hæfi dómara kærður til Hæstaréttar
30. apríl 2014 - Hæstiréttur úrskurðar héraðsdómara hæfan
16. maí 2014 - Málflutningur um frávísunarkröfu í héraði
19. maí 2014 - Héraðsdómur úrskurðar og hafnar frávísun
3. september 2014 - Ákveðið að aðalmeðferð í héraði verði 23. október
21. október 2014 - Aðalmeðferð í héraði frestað til 13. nóvember
24. október 2014 - Aðalmeðferð í héraði frestað til 8. desember
28. nóvember 2014 - Dómstjóri ákveður að héraðsdómur verði fjölskipaður
28. nóvember 2014 - Aðalmeðferð í héraði frestað til 5. janúar 2015
5. janúar 2015 - Málflutningur og mál dómtekið í héraði
6. febrúar 2015 - Dómsuppkvaðning í héraði og Íbúðalánasjóður sýknaður
27. mars 2015 - Héraðsdómi áfrýjað til Hæstaréttar Íslands
13. maí 2015 - Greinargerð áfrýjenda lögð fram
11. júní 2015 - Greinargerð Íbúðalánasjóðs lögð fram
20. nóvember - Aðalmeðferð fyrir Hæstarétti Íslands

Dagar verðtryggðra neytendalána verða taldir niður hér hægra megin á síðunni fram að málflutningi. Einnig er rétt að minna á að tekið er við frjálsum framlögum til að standa straum af kostnaði við málaferlin í sérstakan málsóknarsjóð á reikning nr. 1110-05-250427, kt. 520209-2120.

Read more...

Afskriftatími krafna vegna lána Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu styttur í þrjú ár

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli þeirra sem misst hafa fasteignir á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs og sem sótt hafa um Leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, á nýlegri breytingu á reglugerð um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, þar á meðal í þeim tilvikum sem kröfur sjóðsins hafa verið hærri en endurheimtur þeirra af söluandvirði fullnustueignar við nauðungarsölu. Með reglugerð nr. 359/2010 var stjórn Íbúðalánasjóðs heimilað að afskrifa slíkar kröfur að liðnum fimm árum frá sölu fasteignar. Í júní síðastliðnum stytti félags- og húsnæðismálaráðherra þann tíma hinsvegar niður í þrjú ár með nýrri reglugerð nr. 534/2015 á grundvelli 47. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Breytingin getur haft þýðingu fyrir hundruðir einstaklinga og fjölskyldna sem hafa misst heimili sín á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs á undanförnum fimm árum, þar sem leiða má að því líkur að í hluta þeirra tilfella séu nú þegar liðin þrjú ár eða meira frá nauðungarsölu og skilyrði fyrir afskriftum séu þar með uppfyllt. Hlutaðeigandi er bent á að einfalt er að sækja um slíkar afskriftir með því að fylla út þar til gert eyðublað sem hægt er að nálgast á heimasíðu Íbúðalánasjóðs og senda umsóknina til sjóðsins. Rétt er að benda á að í eyðublaðinu er vitnað í eldra orðalag brottfallinnar reglugerðar nr. 119/2003, þar sem var viðbótarskilyrði fyrir afskrift að skuldari hefði ekki fjárhagsgetu til að greiða kröfuna vegna ófyrirséðra eða óviðráðanlegra atvika. Með núgildandi reglugerð hefur það skilyrði hinsvegar verið fellt brott og er nú eingöngu skilyrði að þrjú ár séu liðin frá sölu fasteignar. Þá skal áréttað að úrræðið nær aðeins til lána Íbúðalánasjóðs en ekki annarra lánveitenda.

Sérstaklega getur þessi breyting haft þýðingu fyrir þá sem hafa sótt um leiðréttingu lána sem glatað hafa veðtryggingu, en hafa ekki fengið endanlegar niðurstöður birtar, til dæmis vegna endurupptöku eða athugasemda við fyrri niðurstöður sem eru til úrlausnar hjá embætti Ríkisskattsjóra eða hafa verið kærðar til úrskurðarnefndar. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum hafi þær ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda, en samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sbr. breytingu með reglugerð nr. 1160/2014, skal framkvæmdin miðast við eftirstöðvar krafna á samþykktardegi leiðréttingar. Þeir sem bíða enn eftir endanlegum niðurstöðum vegna leiðréttingarinnar og hafa misst fasteign á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs fyrir meira en þremur árum, eru þar af leiðandi hvattir til þess að sækja um afskrift á eftirstandandi skuldum við Íbúðalánasjóð áður en lokið verður við ákvörðun og samþykki leiðréttingar.

Hér má nálgast umsóknareyðublað Íbúðalánasjóðs.

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna herta inneimtuhætti Íbúðalánasjóðs

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Íbúðalánasjóði svohljóðandi bréf:

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega hertar innheimtuaðgerðir Íbúðalánasjóðs sem hafa verið birtar lántakendum að undanförnu án nokkurs fyrirvara. Á seinni hluta árs 2008, í kjölfar bankahrunsins, voru innheimtuaðgerðir Íbúðalánasjóðs mildaðar með tilliti til efnhagsástandsins. Frestur frá gjalddaga til sendingar greiðsluáskorunar var rýmkaður í fjóra til fjóra og hálfan mánuð frá elsta ógreidda gjalddaga í stað tveggja til tveggja og hálfs mánaðar áður. Þá var heimilað að afturkalla nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður.

Að undanförnu hafa lántakendum í vanskilum borist greiðsluáskoranir þar sem þeim er tilkynnt að verði láni þeirra ekki komið í skil innan 15 daga verði farið með eignir þeirra í nauðungarsöluferli. Þegar þeir hafa verið inntir eftir skýringum á þessu hafa starfsmenn ÍLS gefið þær upplýsingar að á vormánuðum hafi reglur sjóðsins um innheimtuaðgerðir verið hertar.

Þegar leitað er eftir upplýsingum á heimasíðu Íbúðalánasjóðs um innheimtuferli og reglur um afturköllun nauðungarsölubeiðna má sjá að að tilslakanir frá árinu 2008 hafa nú verið færðar í fyrra horf. Hins vegar er engar tilkynningar að finna á heimasíðunni um hertar innheimtuaðgerðir og ekki er vitað til þess að lántakendum í vanskilum hafið verið tilkynnt um þær bréfleiðis eða með öðrum sannanlegum hætti. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða aðgerðir þar sem Íbúðalánasjóður dregur til baka fyrri tilslakanir í innheimtuaðgerðum telja Hagsmunasamtök heimilanna það vera dæmi um afleita viðskiptahætti að gera slíka breytingu fyrirvaralaust og án nokkurrar viðvörunar.

Jafnframt er tímasetningin afar slæm þar sem breyting á reglum Íbúðalánasjóðs um afturköllun nauðungarsölu mun hafa verulega íþyngjandi áhrif fyrir þá fjölmörgu sem standa munu frammi fyrir nauðungarsölum eftir 1. september. Verði ekkert að gert fellur þá úr gildi bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölu nr. 90/1991 sem kveður á um tímabundna frestun á nauðungarsölum og framlengingu á samþykkisfresti, fram yfir 1. september 2014.

Hagsmunasamtökum heimilanna þykja það hörkulegar aðfarir af hálfu Íbúðalánasjóðs að gjaldfella lán að fullu og hóta nauðungarsölu án þess að veita lántakendum vitneskju og tíma til að bregðast við breyttum innheimtuháttum. Samtökin hvetja Íbúðalánasjóð til að falla frá slíkri framkomu gagnvart viðskiptavinum sínum. Það hlýtur að teljast sanngjörn og eðlileg krafa að sjóðurinn geri lántakendum aðvart um slíkar breytingar bréfleiðis með hæfilegum fyrirvara auk þess að birta tilkynningar um þær á vefsíðu sinni, í samræmi við góða viðskiptahætti.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna