Menu
RSS

Ályktun vegna álits frá framkvæmdastjórn ESB á framkvæmd verðtryggingar neytendalána

Verðtrygging lánasamninga samkvæmt vísitölu neysluverðs er heimil samkvæmt íslenskum lögum. Fróðir félagsmenn og fulltrúar samtakanna hafa kortlagt heimildirnar en þær eru í reynd undanþágur frá almennum vaxtalögum. Verðtrygging greiðslna m.v. vísitölu neysluverðs er eini lánskostnaðurinn auk hefðbundinna vaxta sem er leyfilegur samkvæmt vaxtalögunum. Það var á grundvelli þessara skýru ákvæða vaxtalaga sem Hæstiréttur Íslands dæmdi gengistryggingu lánasamninga ólögmæta þann 16. júní 2010, einkum í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010.

Framkvæmd þessarar heimildar er mjög ábótavant í lánasamningum hérlendis. Brotalamir eru svo alvarlegar og víðtækar að fullt tilefni þykir til að útkljá málið fyrir dómstólum. Eftir ítarlega lögfræðilega rannsóknarvinnu hefur verið undirbúin málsókn sem nálgast þessi álitaefni einmitt út frá þeim lagaskilningi sem kemur fram í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Mál sem höfðað er á þeim grundvelli var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. október 2012.

Lög um neytendalán nr. 121/1994 kveða skýrt á um hvernig standa skuli að samningsgerð um neytendalán. Meginmarkmið tilskipunar 87/102/EBE sem lögin grundvallast á eru einkum þau að neytandinn fái sem næst tæmandi upplýsingar um skuldbindingar sem hann tekur sér á hendur, en upplýsingaskyldan hvílir á lánveitandanum. Lögin og tilskipunin kveða afgerandi á um hvernig þessi skylda skuli uppfyllt og afleiðingar þess ef lánveitandi bregst henni. Íslensk stjórnvöld leiddu tilskipunina í lög nr. 30/1993 sem voru endurútgefin sem lög nr. 121/1994 og breytt með lögum nr. 179/2000 þannig að fasteignalán einstaklinga voru þá skilgreind sem neytendalán.


Frá og með gildistöku þessarar breytingar í janúar 2001 hefðu allir nýjir lánssamningar við neytendur sem tryggðir eru með veði í fasteignum átt að uppfylla framangreindar kvaðir án undantekninga. Eftirfarandi er samantekt úr svari sérfræðings framkvæmdastjórnar ESB við spurningum Maríu Elviru Mendes Pinedo um lögmæti verðtryggingar neytendalána.

Kjarni neytendalánaverndar í tilskipunum Evrópusambandsins er að lántaki sé að fullu upplýstur um þær fjárskuldbindingar sem hann undirgengst. Allar mögulegar breytingar á kostnaði eða vöxtum þurfa að vera tilgreindar í lánasamningi með skiljanlegum hætti eins og hér er útlistað.

  1. Lántaki þarf að geta séð nákvæmlega hvernig slíkar breytingar gerast þ.e. hvaða breytilegir þættir hafa áhrif á vexti, verðbætur og annan kostnað, og með hvaða hætti.
  2. Reikna verður greiðsluáætlun og árlega hlutfallstölu kostnaðar á grundvelli gildandi vaxta og verðbólgu við undirritun eins og ef þær forsendur myndu gilda út lánstímann.
  3. Ef vöxtum er breytt eða höfuðstól verðbættur vegna nýrrar verðbólgumælingar þarf að tilkynna lántaka um áhrif þess á lántökukostnaðinn með samningsbundnum fyrirvara ásamt nýrri árlegri hlutfallstölu kostnaðar og greiðsluáætlun fyrir það sem eftir er af lánstímanum. Enginn lágmarks fyrirvari er tilgreindur en gert er ráð fyrir að tilkynning berist lántaka nógu tímanlega til þess að hann hafi svigrúm til að leita leiða til að greiða lánið upp t.d. með endufjármögnun hjá einhverjum af samkeppnisaðilum lánveitandans.
  4. Óheimilt er að innheimta vexti eða verðbætur umfram fyrirliggjandi greiðsluáætlun og árlega hlutfallstölu kostnaðar.


Ofangreindur tilgangur með tilskipuninni hefur verið í gildi í íslenskum lögum frá setningu laga um neytendalán þann 13. apríl 1993. Engar þær breytingar sem hafa verið gerðar síðan þá hagga þessum skilyrðum hvað varðar neytendalán, heldur hefur gildissvið þeirra aðeins verið útvíkkað.

Hagsmunasamtök heimilanna harma það víðtæka misferli sem hefur verið viðhaft hérlendis við markaðssetningu og samningsgerð neytendalána. Samtökin harma einnig þá misvísandi upplýsingagjöf sem átt hefur sér stað um málið. Hið rétta er að fasteignalán á íslandi falla undir neytendalánalöggjöf og hafa gert það frá byrjun árs 2001 þegar kveðið var á um það með lögum.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna