Menu
RSS

HH gagnrýna harðlega samning ráðuneytis við SFF um kennslu í fjármálalæsi

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert samning við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um átak og aðgerðir til að efla fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum. Samningurinn felur í sér að SFF fjármagnar verkefnið, þar á meðal laun verkefnisstjóra og námsefnisgerð.

Sjá fréttatilkynningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins 14. janúar 2013

Af skjölum ráðuneytisins um málið, sem Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa nú fengið afhent í samræmi við upplýsingalög, má ráða að til þessa samstarfs hafi verið stofnað að frumkvæði SFF. Með slíkum samningi gefst heildarsamtökum fjármálafyrirtækja einstakt tækifæri til að hafa áhrif á væntanlega viðskiptavini á landsvísu og neytendur framtíðarinnar.

Stjórn HH gagnrýnir samningsgerð sem þessa harðlega og telur óeðlilegt að hagsmunasamtök fyrirtækja í atvinnulífinu fjármagni slíka fræðslustarfsemi á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana. Sérstaklega í ljósi þeirrar gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefnar Alþingis um orsakir og afleiðingar falls viðskiptabankanna, varðandi óeðlileg áhrif hagsmunaaðila á kennslu og rannsóknir. Þó svo að þar hafi sérstaklega verið vísað í efri skólastig telja HH hættuna á óeðlilegum áhrifum síst minni á grunn- og framhaldsskólastigum.

Margir aðilar sem vinna sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda á þessu sviði væru mun vænlegri kostir til að vinna að því að byggja upp gagnrýna og meðvitaða fjármálavitund barna og unglinga, en virðast ekki hafa verið fengnir til samstarfs eða beðnir umsagnar um málið, þar á meðal HH.

Eðlilegast er að mótun menntastefnu og þar á meðal opinber fræðsla á sviði fjármála sé kostuð af ríkinu sjálfu, en námsefni ætti aldrei að vera niðurgreitt af aðilum sem eiga augljósra einhliða hagsmuna að gæta. Rétt eins og óæskilegt væri ef sælgætisframleiðendur fjármögnuðu námsefni og kennslu í næringarfræði.

Fylgiskjöl

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna