Menu
RSS

Frávísun sýslumanns á lögbannskröfu gegn Lýsingu kærð til Héraðsdóms..

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa kært til Héraðsdóms frávísun Sýslumannsins í Reykjavík á lögbannskröfu samtakanna gegn innheimtu Lýsingar á ólögmætum áður gengistryggðum lánum, þar til nýir og lögmætir endurútreikningar verði sendir út í samræmi við dóma Hæstaréttar. Lögbannskrafan var sett fram á grundvelli heimildar samtakanna til að leita lögbanns til verndar heildarhagsmunum neytenda samkvæmt lögum nr. 141/2001 og auglýsingu nr. 1320/2011.

Sýslumaður vísaði málinu frá á þeirri forsendu að hagsmunir neytenda séu í þessu tilviki nægilega tryggðir með lögum um refsingu og skaðabætur. Hagsmunasamtök heimilanna er ósátt við þessa afgreiðslu sýslumanns og telja að skaðabótaréttur komi málinu lítið sem ekkert við. Þær upphæðir sem fram koma á útsendum greiðsluseðlum eru nær undantekningalaust of háar og hafa margir lántakendur líklega nú þegar greitt upp lán sín í raun og veru. Verið er að brjóta á rétti neytenda með því að krefjast ofgreiðslna og algjörlega óljóst hvort, hvenær og með hvaða hætti þeir muni fá leiðréttingu sinna mála þegar réttir endurútreikningar liggja fyrir. Lögbannsbeiðni samtakanna lýtur að stöðvun yfirstandandi brota gegn lögum og reglum sem eiga einmitt að koma í veg fyrir að neytendur verði fyrir tjóni sem þurfi kostnaðarsöm málaferli til að að sækja skaðabætur fyrir.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að skýra verði löggjöf á sviði neytendaverndar þannig, einkum í tilvikum sem þessum, að almannahagsmunir vegi þyngra en skammtímahagsmunir einstakra fjármálafyrirtækja. Sá aðstöðumunur sem er milli neytenda og fyrirtækja sem bjóða vörur og þjónustu sé almennt slíkur að ekki sé nægilegt að byggja á einkaréttarsjónarmiðum til að tryggja það öryggi í neytendaviðskiptum sem er markmið með þeim reglum sem gilda á þessu sviði.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna