Menu
RSS

Samræmdar verklagsreglur um greiðsluaðlögun einstaklinga?

Hagsmunasamtök heimilanna hafa að undanförnu ítrekað óskað eftir upplýsingum varðandi samræmdar verklagsreglur um greiðsluaðlögun einstaklinga, og reglugerð þar um, en engin svör fengið.

Samtökin sendu þann 14. nóvember sl. erindi til velferðarráðuneytis þar sem óskað var eftir því að fá afhenta reglugerð þá sem ráðherra er skylt að setja skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010), þar sem kveðið skal á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar. Reglugerðin á að tryggja samræmdar verklagsreglur hjá embætti Umboðsmanns skuldara (UMS) við afgreiðslu og framkvæmd greiðsluaðlögunar. Skemmst er frá því að segja að engin svör hafa borist frá ráðuneytinu, þrátt fyrir endurteknar ítrekanir samtakanna á erindinu. HH hafa nú kært skort ráðuneytisins á svörum til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, enda telja samtökin að slík reglugerð hljóti að vera gagn sem skylt sé að veita almenningi aðgang að skv. upplýsingalögum, sé þess óskað.

Þess má jafnframt geta að HH sendu í lok október bréf til embættis umboðsmanns skuldara (UMS) þar sem óskað var eftir að fá afhentar verklagsreglur embættisins og fékk þá þau svör að framangreind reglugerð hefði ekki verið sett. Það lítur því út fyrir að allt frá stofnun  embættisins í ágúst 2010 hafi greiðsluaðlögun ekki verið framkvæmd eftir samræmdum reglum eins og lög kveða á um.

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna